Sveitarstjórn Húnaþings vestra fjallaði um áskorun Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna aðkomu sveitarfélaga að kjarasamningum á 379. fundi sínum sem fram fór þann 12. mars 2024 í Riishúsi á Borðeyri. Samþykkt var samhljóða að verði nýundirritaðir samningar samþykktir og sambærilegir samningar gerðir á opinberum vinnumarkaði muni sveitarfélagið bjóða gjaldfrjálsar skólamáltíðir frá og með hausti 2024 og út samningstímann. Einnig var samþykkt að gera breytingar á gjaldskrám sem hækkaðar voru um 5,5% þann 1. janúar 2024 og sérstaklega varða barnafjölskyldur. Var sveitarstjóra falið að undirbúa gjaldskrárbreytingar og leggja fyrir næsta sveitarstjórnarfund.
Með þessu leggur sveitarstjórnin sitt af mörkum til að tryggja meiri stöðugleika sem vonandi leiðir til lægri verðbólgu og þar með lækkaðs vaxtastigs.
Bókun sveitarstjórnar í heild sinni
Sveitarstjórn Húnaþings vestra fagnar þeim tímamótakjarasamningum sem gerðir hafa verið milli félaga innan ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. Markmið þeirra um lækkun verðbólgu og þar með vaxtastigs eru afar mikilvæg auk þess sem fyrirsjáanleiki næstu fjögur ár skiptir samningsaðila miklu máli. Til að greiða fyrir langtímakjarasamningum á vinnumarkaði sammæltust ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga um að vinna að aðgerðum til að styðja markmið samninganna um að leggja grundvöll að bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Hluti þessara aðgerða snýr að sveitarfélögunum, m.a. gjaldfrjálsar skólamáltíðir og hóflegar gjaldskrárhækkanir á samningstímanum. Auk þess er skorað á sveitarfélög að hækka gjaldskrár sem snúa að barnafjölskyldum ekki umfram 3,5% á árinu 2024.
Lögð fram eftirfarandi tillaga: "Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir að verði framangreindir samningar samþykktir og sambærilegir samningar náist á opinberum vinnumarkaði muni Húnaþing vestra bjóða gjaldfrjálsar skólamáltíðir frá og með hausti 2024 og út samningstímann. Einnig samþykkir sveitarstjórn að þær gjaldskrár sem hækkaðar voru um 5,5% þann 1. janúar 2024 og sérstaklega varða barnafjölskyldur, einkum [gjaldskrár] skólastofnana og íþróttamiðstöðvar, verði lækkaðar í sem nemur 3,5% hækkun frá árinu 2023. Sveitarstjóra er falið að undirbúa gjaldskrárbreytingar og leggja fyrir næsta fund." Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 7 atkvæðum.
Aðgerðir sem þegar eru til staðar í Húnaþingi vestra
Til viðbótar við framangreint er vert að nefna að sveitarfélagið er þegar að vinna í takt við nokkrar þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga sammæltust um að beita sér fyrir. Má þar nefna:
- Markviss uppbygging íbúðarhúsnæðis í almenna íbúðakerfinu. Sveitarstjórn samþykkti á sama fundi þátttöku í verkefni sem miðar að umtalsverðri íbúðauppbyggingu í sveitarfélaginu á næstu fimm árum með samkomulagi milli þess, innviðaráðuneytis og HMS. Í hönd fer því íbúðauppbygging á komandi árum sem á sér ekki fordæmi í sveitarfélaginu frá því á áttunda og níunda áratugi síðustu aldar þegar íbúðauppbygging var sem mest í sveitarfélaginu.
- Nægar byggingarhæfar lóðir tryggðar. Framboð lóða í sveitarfélaginu er nú þegar gott, á næstunni verður farið í úthlutun lóða í nýju hverfi á Hvammstanga og í vinnu við nýtt aðalskipulag sem hefst fljótlega verður gert ráð fyrir frekari uppbyggingu íbúðahverfa til að tryggja lóðaframboð til lengri tíma.
- Bil milli fæðingarorlofs og leikskóla brúað. Í Húnaþingi vestra er bilið milli fæðingarorlofs og leiksóla þegar brúað. Engir biðlistar eru eftir leikskólaplássi.