Eftir ansi langt sumarfrí hefur dagbók sveitarstjóra nú göngu sína að nýju.
Stundum hendir lífið í mann verkefnum sem ekki er hægt að sjá fyrir. Í sumar lenti ég í óvæntum veikindum þegar ég greindist með krabbamein í ristli. Til allrar lukku þá greindist meinið snemma og dugði aðgerð til að fjarlægja það og verð ég í reglubundnu eftirliti í framhaldinu. Þrátt fyrir að ég hafi sloppið vel og ekki þurft lyfja- eða geislameðferðir hefur tekið tíma að ná upp fyrri orku og verður það áframhaldandi verkefni næstu vikna og mánaða með góðum stuðningi frá sérfræðingum í Ljósinu. Ég var í veikindaleyfi í rúman mánuð í júní og júlí og tók svo í ágúst hluta af sumarleyfi en að öðru leyti hef ég verið við störf og tekst galvösk á við þau spennandi verkefni sem í starfinu felast. Ég vil þakka íbúum góðar óskir í veikindunum, það var ómetanlegt að finna svo mikla hlýju og stuðning. Einhverjum gæti fundist óviðeigandi að ræða opinskátt um veikindi af þessum toga á þessum vettvangi. Ég ákvað hinsvegar þegar veikindin voru yfirstaðin að vera ekki feimin við að ræða þau með það fyrir augum að það gæti verið hvatning fyrir fólk að fara í ristilspeglun. Sá er tilgangur þess að tilgreina þau hér. Koma má í veg fyrir alvarleg veikindi með því að fara í ristilspeglun - ég hvet fólk til að ýta því ekki á undan sér - þær eru ekki eins erfiðar og þær hljóma en geta sannarlega bjargað mannslífum.
Þrátt fyrir veikindi hverfa verkefnin ekki. Mitt ágæta samstarfsfólk á miklar þakkir skildar fyrir að standa vaktina í fjarveru minni. Þá vil ég einkum nefna staðgengil sveitarstjóra sem komst lítið í frí í sumar vegna veikinda minna. Fjölmörg fleiri lögðu hönd á plóg og kann ég ykkur öllum bestu þakkir fyrir.
Þar sem langt er liðið frá síðustu dagbókarskrifum verður stiklað á mjög stóru í verkefnum síðustu vikna. Listinn verður ekki tæmandi enda margt sem drífur á daga, einkum á haustin.
Eitt af stóru málunum í sumar og haust hefur verið samstarf við Brák íbúðafélag um húsnæðisuppbyggingu í sveitarfélaginu. Stefnt er að því að reista 8 íbúða hús að Norðurbraut 15 (norðan við blokkina) og hefur nú verið auglýst eftir byggingaraðilum. Verkefnið fékk samþykkt stofnframlög frá ríkinu. Sveitarfélagið skuldbindur sig um leið til að leggja fram hluta stofnframlaganna. Þetta verkefni er hluti af samkomulagi um aukna uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu sem undirritað var í mars á þessu ári. Íbúðirnar sem nú stendur til að reisa verða leiguíbúðir fyrir tekjulægri hópa sem Brák íbúðafélag mun reka. Virkilega ánægjulegt og mikilvægt verkefni.
Í tengslum við húsnæðisuppbyggingu var í vor undirrituð viljayfirlýsing við leigufélagið Bríeti um uppbyggingu leiguhúsnæðis. Í því felst auk byggingar íbúða á vegum félagsins, yfirtaka þeirra á nokkrum íbúðum í eigu sveitarfélagsins. Það þýðir að Bríet tekur íbúðirnar yfir gegn eignarhlut sveitarfélagsins í félaginu. Gildandi leigusamningar eru framseldir til Bríetar og halda íbúar þeim á sömu kjörum. Ákveðið var að leggja íbúðirnar að Gilsbakka 5-11 á Laugarbakka inn í félagið og mun Bríet ráðast í endurbætur á íbúðunum en þær eru komnar á mikið viðhald. Leigufélög hafa síðustu misseri fengið slæmt umtal og því skiljanlegt að fari um fólk þegar þau eru nefnd. Í því sambandi vil ég taka fram að Bríet er rekin án hagnaðarsjónarmiða og er í eigu HMS og sveitarfélaganna og er því ekki um að ræða breytingu gagnvart leigjendum að öðru leyti en að reikningar fyrir leigu koma frá öðrum aðila en sveitarfélaginu og sömuleiðis sú ánægjulega breyting að Bríet mun taka íbúðirnar í gegn.
Á dögunum var undirritaður samningur um lok ljósleiðaravæðingar í sveitarfélaginu sem snýr að þéttbýli. Lagning ljósleiðara í dreifbýli er lokið en enn standa eftir tengingar í þéttbýli sem brýnt er að ljúka. Þegar þetta er skrifað stendur yfir samtal við fjarskiptafyrirtækin um aðkomu að verkinu en samkvæmt samningnum skal ljúka því fyrir árslok 2026. Annað mjög brýnt verkefni sem breytir búsetuskilyrðum til hins betra.
Fjárhagsáætlunarvinna fyrir árið 2025 og þriggja ára áætlun 2026-2028 hófst eins og vant er í sumar og stendur nú sem hæst. Í tengslum við vinnuna vinna forstöðumenn starfsáætlanir þar sem þeirra áherslur koma fram og er reynt að koma til móts við þær í fjárhagsáætlun. Einnig er unnin ítarleg fjárfestingaáætlun auk þess að auglýst er eftir umsóknum um styrki til félagasamtaka í hin ýmsu verkefni. Fjárhagsáætlun þarf að tvær umræður í sveitarstjórn og er stefnt að fyrri umræðu á sveitarstjórnarfundi þann 17. október og seinni umræðu á sveitarstjórnarfundi 14. nóvember.
Mannabreytingar urðu í ráðhúsinu þegar Ólöf sem gegnt hefur starfi verkefnisstjóra umhverfismála sagði upp störfum til að einbeita sér að bústörfum. Við þökkum Ólöfu fyrir sín góðu störf síðasta rúma árið og óskum henni alls hins besta í komandi verkefnum. Björn Bjarnason sagði starfi sínu sem rekstrastjóri lausu í sumar og stendur nú yfir ráðningarferli í hans stað (Björn er enn að störfum, ég þakka honum sín vel unnu störf þegar hann hverfur á braut). Gerð verður sú breyting að ráðinn verður sviðsstjóri til samræmis við önnur svið sveitarfélagsins en starfssviðið verður mjög svipað og núverandi rekstrarstjóra. Gert er ráð fyrir að starf verkefnisstjóra umhverfismála verði auglýst laust til umsóknar fljótlega eftir að nýr sviðsstjóri tekur til starfa. Ég bið dagbókarlesendur um að deila endilega auglýsingunni og láta þau sem þeir telja hafa áhuga á starfinu vita af því. Þetta er mjög spennandi og fjölbreytt starf og mikilvægt að fá í það öflugan aðila. Við fengum svo nýjan liðsmann í Ráðhúsið nú í haust þegar Daníel Arason var ráðinn í starf verkefnisstjóra stjórnsýslu-, atvinnu- og kynningarmála. Með ráðningunni er verið að gera breytinu á starfi sem var til staðar og snéri að skönnun reikninga o.fl. sem með breytingum á móttöku reikninga er ekki þörf fyrir og Alma sinnti en hún lét af störfum í sumar.
Eitt af verkefnum sveitarfélagsins eru brunavarnir. Auglýst var eftir nýjum slökkviliðsstjóra þar sem Valur Freyr var ráðinn til eins árs á síðasta ári. Gengið verður frá ráðningu á allra næstu dögum. Á dögunum var svo samþykkt að gera breytingar á tækjakosti slökkviliðsins með sölu á tveimur bílum og kaupum á tveimur öflugri í stað þeirra. Með því er viðbragð slökkviliðsins aukið til mikilla muna og þar með öryggi íbúa. Nýju bílarnir munu koma á næstu vikum og verður opið hús í slökkvistöðinni þegar þeir verða komnir á staðinn.
Sveitarfélagið tekur þátt í verkefninu Gott að eldast. Um er að ræða þróunarverkefni sem gengur út á að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum. Síðasta árið hefur staðið yfir vinna við samþættinguna og er niðurstaða hennar að frá og með áramótum. Á dögunum var samþykktur samningur milli sveitarfélagsins og Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE) þess efnis að HVE tekur að sér rekstur þjónustunnar. Felur það í sér að frá og með 1. janúar 2025 verða þeir starfsmenn sveitarfélagsins sem hafa sinnt heimaþjónustu starfsmenn HVE. Vert er að taka fram að þeir halda öllum sínum réttindum og kjörum við flutninginn. Starfsaðstaða verður á sjúkrahúsinu á Hvammstanga og endurbætur á því húsnæði að hefjast. Stefnt er á að koma upplýsingaefni til íbúa fljótlega sem og halda íbúafund. Við bindum vonir við að þetta fyrirkomulag þjónustunnar verði til þess að bæta þjónustu við skjólstæðinga heimaþjónustunnar og bæti jafnframt starfsumhverfi þeirra sem við hana starfa.
Eitt og annað hefur verið fréttnæmt í sumar og læt ég fylgja hér nokkra tengla í fréttir á heimasíðu sveitarfélagsins:
Forvarnaráætlun Norðurlands vestra
Styrkveitingar úr Húnasjóði – 7 aðilar hlutu styrk að þessu sinni
Framkvæmdir við Félagsheimilið Hvammstanga – löngu tímabærar. Byrjað er á þakviðgerðum en gert er ráð fyrir að ráðist verði í ytra byrði hússins á næsta ári.
Listaverk á hafnarvogarhúsið – lífgar svo sannarlega upp á umhverfið við höfnina
Íbúafundur um samfélagsmiðstöð var haldinn á dögunum. Um 50 manns mættu til fundar og fóru á hugarflug um skipulag miðstöðvarinnar sem áformað er að setja upp í Félagsheimilinu Hvammstanga
Ný rannsókn á byggðabrag kom út á dögunum. Góð útkoma Húnaþings vestra í íbúakönnunum hefur verið rannsóknarefni fræðimanna og er í skýrslunni leitast við að skýra hana.
Veiting umhverfisviðurkenninga 2024. Eigendur þriggja eigna var veitt viðurkenning fyrir snyrtimennsku.
Framangreint er alls ekki tæmandi yfirferð yfir það sem verið hefur á dagskrá síðustu mánuði. Erfitt er í stuttu máli að fara yfir öll þau verkefni sem unnin hafa verið, einkum yfir eins langan tíma og liðinn er frá síðustu dagbókarfærslu. Það sem á undan hefur komið er tilraun til að nefna það helsta. Vafalítið gleymist eitthvað. Dagbókarskrif eru komin á dagskrá að nýju og má búast við reglulegum færslum sveitarstjóra í vetur eins og síðustu tvo vetur. Vikulega þegar þess er kostur en sjaldnar þegar annir eru miklar.
Ég hvet íbúa sem fyrr til að vera í góðu sambandi með hugmyndir, umkvartanir og/eða hrós fyrir það sem vel er gert. Netfang sveitarstjóra er unnur@hunathing.is. Einnig má panta símtal hér.