Vikan 30. janúar – 5. febrúar
Janúar loksins búinn. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá hefur mánuðurinn verið þungur og mörg krefjandi mál sem komið hafa upp. Þrátt fyrir það þá má gleðjast yfir því að dagarnir eru sjáanlega orðnir lengri og áður en við vitum af verður komið vor.
Vikan var stórtíðindalaus. Byggðarráðsfundur á mánudeginum eins og endranær. Þar bar hæst umræða um sorpmál en rekstrarstjóri og fulltrúi EFLU verkfræðistofu komu inn á fundinn til að fara yfir stöðu mála við vinnslu útboðsgagna. Sorpmálin hafa mikið verið í umræðu síðustu vikuna og skal engan undra miðað við þær hækkanir sem reyndust nauðsynlegar vegna þeirra lagabreytinga sem gerðar voru og tóku gildi um áramót. Með þeim þá eru bæði gerðar ríkari kröfur til flokkunar en einnig er sveitarfélögum gert óheimilt að greiða með málaflokknum. Húnaþing vestra hefur greitt á bilinu 13-21 milljón á ári með sorpinu mörg undanfarin ár eða í kringum 50% af heildarkostnaði. Skýrir það þá miklu hækkun sem varð við álagningu fasteignagjalda í ár. Eins og ég hef komið inn á áður í dagbókarfærslum er vinna við sameiginlegt útboð sveitarfélaganna í Húnavatnssýslum í fullum gangi og vonir standa til að hægt verði að bjóða út á vordögum og nýtt kerfi verði þá innleitt á síðari hluta ársins. Enn er óljóst nákvæmlega hvernig það verður samsett en það skýrist á næstu vikum. Eitt er þó ljóst að það er langur vegur frá því að sorphirðugjöldin séu tekjulind fyrir sveitarfélagið sem rennur til einhvers annars en sorpmála. Hver einasta króna rennur beint í þann kostnað sem af málaflokknum hlýst og hætt við því að það verði rúmlega það miðað við hver þróunin hefur verið. Hver niðurstaða útboðs verður er ómögulegt að segja til um en hækkunin nú miðaði við kostnað við núverandi fyrirkomulag. Fundargerð fundarins er hér.
Á mánudeginum hugaði ég jafnframt að undirbúningi landbúnaðarráðsfundar vikunnar og sendi út dagskrá og fundargögn. Ég sinnti einnig ýmsum málum sem snéru að grunnskólanum, fjallskilum, starfsmannamálum, fyrirhuguðum framkvæmdum í sveitarfélaginu, brunavörnum og fór yfir nýja stöðugreiningu ferðaþjónustunnar á Norðurlandi vestra svo fátt eitt sé talið. Einnig hugaði ég að undirbúningi fundar fræðsluráðs sem haldinn var á fimmtudaginn en ég sat fundinn sem embættismaður í forföllum sviðsstjóra.
Þriðjudeginum varði ég í Reykjavík við ýmsar útréttingar fyrir sveitarfélagið. Ferð sem fara átti í síðustu viku en varð að fresta. Við fengum kynningar á nokkrum tegundum fjarfundabúnaðar og keyptum inn eitt og annað fyrir sveitarfélagið í leiðinni til að spara sendingarkostnaðinn. Þegar hefur verið tekin ákvörðun um þann fjarfundabúnað sem keyptur verður og hann pantaður í kjölfar kynninganna. Við fjárfestingar sem slíkar er nauðsynlegt að fara á staðinn til að prófa búnaðinn og sjá hvernig hann virkar. Til langs tíma má ætla að kaup á búnaðnum geti fækkað ferðum á fundi.
Miðvikudagurinn var dagur kvenfélagskonunnar. Sendum við kvenfélagskonum kveðjur og verðskuldaðar þakkir á heimasíðu sveitarfélagsins og facebook. Síðari hluta dags veitti ég svo veglegri gjöf frá Kvenfélaginu Björk á Hvammstanga viðtöku á horni Brekkugötu og Hvammstangabrautar. Glæsilegum bekk til minningar um látnar kvenfélagskonur. Kunnum við kvenfélaginu bestu þakkir fyrir þessa rausnarlegu gjöf sem á eftir að koma mörgum að góðum notum á gönguferðum um bæinn. Í þessu samhengi er einnig vert að nefna að nú stendur yfir vinna við úttekt á þeim bekkjum sem eru þegar til staðar og hvar brýnast er að bæta við bekkjum á komandi árum. Um kvöldið var mér svo boðið í kvenfélagskaffi í Ásbyrgi á vegum Kvennabandsins í tilefni dagsins. Átti ég þar góða stund með kvenfélagskonum og fékk tækifæri til að þakka þeim sitt mikilvæga framlag til samfélagsins. Að öðru leyti fór miðvikudagurinn í fundi með nokkrum íbúum um ýmis mál og sömuleiðis nokkrum starfsmönnum sveitarfélagsins um hitt og þetta. Landbúnaðarráð fundaði eftir hádegið og bar þar hæst komu fulltrúa fjallskiladeilda til skrafs og ráðagerða við ráðið.
Félagskonur úr Kvenfélaginu Björk og bekkurinn góði.
Á fimmtudagsmorgninum var svo fundur fræðsluráðs haldinn í Grunnskólanum á Hvammstanga. Fengum við skoðunarferð um skólann, bæði nýbyggingu og eldri byggingar. Ég sá glænýja verklega náttúrufræðistofu í fyrsta skiptið sem er hin allra glæsilegasta. Nú eru sérgreinar allar komnar með sína eigin stofu sem er afskaplega ánægjulegt. Við megum vera stolt af þeirri aðstöðu sem við bjóðum börnunum okkar upp á þó alltaf megi geri betur í tækjakosti og slíku. Fullur vilji er til að bæta úr því á komandi misserum. Það var einnig gott að heyra þá miklu ánægju sem er með flutning tónlistarskólans undir sama þak og grunnskólinn.
Föstudagsmorgunn hófst eins og vanalega á fundi með Kalla og Magnúsi. Ég lauk í framhaldinu við undirbúning byggðarráðsfundar og átti svo fund með fyrrum samstarfsmanni mínum, Davíð Jóhannssyni ráðgjafa á sviði ferðamála hjá SSNV um stöðugreiningarskýrslu ferðaþjónustunnar sem ég nefndi hér að framan. Ég hugaði að veituráðsfundi sem var á dagskrá komandi viku en ákveðið var að fresta um viku vegna biðar eftir gögnum. Ánægjulegasta embættisverk dagsins var að líta við á söngstund eldri borgara í VSP húsinu og taka nokkur lög með þeim. Erindið var þó að skrifa undir samkomulag við Félag eldri borgara um framkvæmd sumardagsins fyrsta í ár sem og gerð nýrra búninga fyrir Vetur konung, Sumardísina og krakkana sem taka þátt í hátíðinni. Lilla Páls hefur sem kunnugt er haft umsjón með hátíðinni frá árinu 1957 ásamt fjölskyldu sinni og öðrum. Á síðasta ári þegar 65 ár voru liðin frá fyrstu hátíðinni tilkynnti hún að sú hátíð væri í síðasta skiptið sem hún og hennar fólk kæmu að henni. Ég vil þakka Lillu fyrir hennar óeigingjarna starf öll þessi ár sem og þeim sem að hátíðinni hafa komið, fjölskyldu hennar og öðrum. Okkur þykir öllum óskaplega vænt um þessa hátíð og ég man enn eftir því þegar ég var 6 ára og fór á æfingar til að æfa Nú er sumar. Ég var því afar glöð þegar mér var falið að finna aðila til að hafa umsjón með hátíðinni og sauma nýja búninga og er sérstaklega ánægð með að Félag eldri borgara var tilbúið til að taka þetta að sér í ár.
Jónína varaformaður Félags eldri borgara, undirrituð og Guðmundur Haukur formaður.
Ég leit við á skrifstofunni á laugardeginum til að hreinsa upp ýmis atriði af verkefnalistanum og þessi dagbókarfærsla er skrifuð á laugardagskvöldi þegar þorrablót Ungmennafélagsins Kormáks stendur sem hæst. Það er táknrænt því með hjálp samfélagsmiðlanna fékk ég að sjá hluta þess gríns sem spannst út frá dagbókarskrifunum frá því ég tók til starfa. Ég veit nú ekki hvort ég tek upp að færa fréttir af kaupum á músamottum á skrifstofuna en get þó upplýst að ég pantaði mér fyllingar í kúlupennann minn í vikunni, vökvaði blómin og fyllti á nammibirgðirnar í kassanum í hillunni hjá mér til að hafa eitthvað til að maula við skrifborðið. Þó það hafi verið gert góðlátlegt grín að því þá skammast ég mín ekkert fyrir að mér finnst verkefni mín raunverulega skemmtileg þó þau séu krefjandi og ég er mjög stolt af sveitarfélaginu okkar og þreytist aldrei að tala um það. Þó ég hafi ekki átt heimangengt á blótið er ég samt þakklát þeim sem gefa sér tíma til að standa í því að setja upp skemmtun sem þessa fyrir okkur hin og segi kærar þakkir við ykkur öll. Fyrir næsta þorrablót bendi ég leikflokknum á að dós af sykurlausu appelsíni er aldrei langt undan á skrifborði sveitarstjóra, enda enn ekki náð þeim þroska að þykja kaffisopinn góður :)
Færslan er ekki kostuð ;)