Vikan 10.-16. febrúar 2025
Mánudagurinn hófst eins og áður með fundi framkvæmdaráðs. Í kjölfar hans átti ég símtal við íbúa sem hafði pantað sér tíma í gegnum vefinn. Það eru sífellt fleiri sem nýta sér þann möguleika að bóka símtal til að spara tíma við að reyna að ná í skottið á sveitarstjóra. Með því að smella hér er hægt að panta tíma hjá starfsmönnum Ráðhússins og hvetjum við fólk til að nýta sér það. Að því loknu hófst ég handa við dagbókarskrif þar sem ég hafði ekki náð að klára þau yfir helgina. Undirbúningur byggðarráðsfundar tók þá við og svo fundurinn sjálfur eftir hádegið. Þar var m.a. á dagskrá samkomulag vegna losun lóðarinnar Norðurbrautar 30 og viðauki við fjárhagsáætlun sem því tengist. Á lóðinni er skipulögð íbúðabyggð og þegar hafa borist fyrirspurnir um lóðirnar.

Skipulag svæðis milli Norðurbrautar og Hjallavegar frá árinu 2012. Deiliskipulagið í heild er aðgengilegt hér.
Gera má ráð fyrir að hús vinnuskólans og húsið á lóðinni Norðurbraut 30 verði rifin í sumar til að rýma til fyrir íbúðaruppbyggingu. Einnig voru reglur um frístundastyrki samþykktar á fundinum en í fjárhagsáætlunarvinnu síðastliðið haust var samþykkt að veita framvegis styrki til barna frá fæðingu til 18 ára aldurs í stað frá 6 til 18 ára áður. Einnig var gerð sú breyting á reglunum að framvegis verður sótt um frístundastyrk á íbúagátt sveitarfélagsins en þangað hafa ýmis eyðublöð verið að færast síðustu misseri. Einnig var úthlutað úr Atvinnu- og nýsköpunarsjóði. 6 umsóknir bárust og ákvað byggðarráð að styrkja 5 verkefni. Allt eru þetta spennandi verkefni sem öll hafa burði til að verða að flottum sprotum í héraði, sum jafnvel komin vel á veg með það. Sigrún Davíðsdóttir hlaut styrk vegna verkefnisins Saunasetrið, kr. 450 þúsund, Hret víngerð hlaut styrk upp á kr. 500 þúsund, Vettvangur íþrótta styrk upp á kr. 150 þúsund, Selasetur Íslands upp á kr. 600 þúsund og Framhugsun styrk upp á krónur 800 þúsund. Ég óska styrkhöfum til hamingju með styrkinn og góðs gengis með verkefni sín.
Á byggðarráðsfundinum var einnig fjallað um erindi frá Húsnæðis og mannvirkjastofnun um drög að áætlun eignamarka fasteigna. Verkefnið um áætlun eignamarka felst í því að unnin eru drög að landamerkjum jarða út frá aðgengilegum gögnum og afrakstur þess borinn undir landeiganda. Notast er við landamerkjabækur auk þinglýstra skjala. Fékk sveitarfélagið tilkynningu um áætlun landamerkja 10 jarða í þess eigu og var mér falið að óska eftir fresti til að yfirfara landamerkin þar sem það er ekki einfalt verk. Það er ástæða til að hvetja landeigengur til að skoða hvort þeim hafi borist erindi frá HMS vegna þessa inn á island.is og skoða vel hvort gera þarf breytingar. Drög eignamarka eru aðgengileg í vefsjá sem HMS hefur sett upp.
Fundargerð byggðarráðsfundar í heild sinni er aðgengileg hér.
Á þriðjudagsmorgninum sat ég áhugavert námskeið á vegum Mannauðs – félags mannauðsfólks um mannauðsmælikvarða.
Eftir hádegið voru mannauðsmál áfram á dagskrá þegar ég vann að aðgerðaráætlun innleiðingar mannauðsstefnu sem forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins höfðu unnið drög að en átti eftir að draga saman. Einnig vann ég áfram úr niðurstöðum starfsmannakönnunar sem lögð var fyrir á dögunum. Ég gekk líka frá pöntun á skiltum til að hengja upp á kaffistofum sveitarfélagsins þar sem meginatriði mannauðsstefnu eru dregin saman. Ég var jafnframt í samskiptum við þjónustuaðila heimasíðu sveitarfélagsins vegna birtingar á fylgigögnum með fundargerðum en við tókum það upp á dögunum en rákumst á tæknilega veggi sem nú er búið að greiða úr. Framvegis verða því þau fylgigögn sem heimilt er að birta aðgengileg í fundargerðunum. Sömuleiðis gekk ég frá og sendi út boð á sveitarstjórnarfund sem var á dagskrá fimmtudagsins.
Miðvikudaginn hóf ég á áframhaldandi vinnu við aðgerðaáætlun mannauðsstefnu og einnig fengu persónuverndamál athygli. Við erum búin að ganga frá samkomulagi við Sekretum á Akranesi um að taka að sér hlutverk persónuverndarfulltrúa sveitarfélagsins. Þvínæst hugaði ég að Leigufélaginu Bústað hses. sem stofnað var í kringum byggingu raðhúss á Lindarvegi sem nú hefur verið fært yfir til Brákar leigufélags. Engin starfsemi er í félaginu og því verður það lagt niður og þarf það nokkra yfirlegu svo rétt sé að öllu staðið. Ég las yfir drög að ársskýrslu Brunavarna Húnaþings vestra sem er í vinnslu og gaman að fara yfir það góða starf sem þar er unnið. Ég gekk frá og birti auglýsing um styrki til leikfélaga en gert er ráð fyrir 300 þúsund kr. styrk til þeirra í ár. Við búum svo vel að fleiri en eitt leikfélag er starfandi í sveitarfélaginu og því auglýsum við nú styrkinn með þessum hætti. Framvegis verður leikfélögum hins vegar beint í sama farveg og önnur menningarverkefni, þ.e. að sækja um styrki í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar að hausti.
Eftir hádegið á miðvikudeginum var fundur landbúnaðarráðs á dagskrá. Komu formenn fjallskiladeilda til fundar og áttu samtal við ráðið um fjallskil, framkvæmdir á vegum og við girðingar til heiða og eitt og annað. Gott og gagnlegt samtal. Einnig var fjallað um söfnun rúlluplasts í ár og staðsetningu gáma fyrir brotajárn. Eftir hefðbundinn vinnudag fór ég svo á kynningu á niðurstöðum könnunar meðal íbúa og ferðamanna á ferðamannaleiðum. Skoðuð voru sérstaklega svæðin á Vatnsnesi og Melrakkasléttu. Verða niðurstöðurnar gerðar aðgengilegar á formi skýrslu en þær voru um margt áhugaverðar. Fáum kemur á óvart að ástand vega var þar gert að umtalsefni.

Samantekt á atriðum sem fram komu í könnuninni meðal íbúa.
Á fimmtudagsmorgni hófust leikar á samtali við Ástríði mannauðsráðgjafa sveitarfélagsins vegna undirbúnings starfsdags stjórnenda sem haldinn verður í næstu viku. Þar á eftir sat ég kynningu á ráðningar- og mannauðskerfinu 50skills hjá Advania. Við höfum verið að stafvæða ýmsa ferla og verklag í starfsemi sveitarfélagsins og nauðsynlegt að skoða hvort tækifæri eru til þess sama í tengslum við mannauðsmálin. Þess utan fór morguninn í undirbúning sveitarstjórnarfundar sem var á dagskrá eftir hádegið. Það kemur í hlut okkar starfsmanna að undirbúa bókanir í samráði við oddvita og ég set einnig saman skýrslu sveitarstjóra sem flutt er til kynningar á sveitarstjóranrfundum. Fyrirkomulagið í tengslum við sveitarstjórnarfundina er þannig að meirihlutinn hittist á klukkutíma löngum undirbúningsfundi, því næst kemur minnihlutinn inn á undirbúningsfund og að lokum hefst sveitarstjórnarfundurinn klukkan 15. Þar voru að venju teknar fyrir fundargerðir nefnda og ráða og staðfestar sérstaklega ákvarðanir og þær reglur sem þörf er á. Fundargerð sveitarstjórnarfundarins er hér. Eftir sveitarstjórnarfund sat ég svo mjög áhugaverðan fund um félagslega einangrun í Félagsheimilinu Hvammstanga. Á fundinum fluttu Svavar Knútur söngvaskáld og Líney Úlfarsdóttir sálfræðingur erindið Það er pláss – Vitundarvaking um félagslega einangrun. Henrike, Kristín og Elísabet sem halda utan um verkefnið Gott að eldast fóru svo yfir stöðu verkefnisins. Verkefnið gengur út á að samþætta þjónustu sveitarfélagsins og heilbrigðisstofnunarinnar með það fyrir augum að bæta þjónustu við eldra fólk og þau sem þurfa á heimaþjónustu að halda. Verkefnið hefur gengið mjög vel og það vel að Henrike og Kristín voru valdar úr 300 umsóknum um að halda erindi til að segja frá vinnu sinni á ráðstefnu í Lissabon í sumar. Ég er afar stolt af þeim og þeim góða gangi sem er í verkefninu. Velgengni verkefnisins má líka þakka virkri þátttöku eldri borgara á svæðinu en eins og alkunna er þá er Félag eldri borgara í Húnaþingi vestra afar öflugur félagsskapur og mikill krafur í starfi félagsins.

Sláandi tölfræði um áhrif einmanaleika og félagslegrar einangrunar.
Föstudagsmorgun hóf ég á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs eins og jafnan. Því næst skellti ég á mig svuntunni ef svo má segja en komið var að mér í félagi við Þorgils sviðsstjóra að sjá um föstudagskaffið. Að því loknu tókum við Þorgils nokkur starfsviðtöl við umsækjendur um starf verkefnisstjóra umhverfismála. Að þeim loknum tók við skrifborðsvinna þar til í lok dags. Meðal annars dagbókarskrif, frágangur og útsending fundarboðs byggðarráðsfundar komandi mánudags og undirbúningur fundargerðar, þar með talið vinnsla draga að tveimur umsögnum sem teknar verða fyrir á fundinum o.s.frv.
Lýk þessari dagbókarfærslu á mynd sem ég tók á Holtavörðuheiði að kvöldi laugardagsins á heimleið eftir skottúr í bæinn. Sjónarspil norðurljósanna var magnað og mátti ég til að stoppa og njóta góða stund. Myndir fanga engan vegin hversu magnað þetta var.
