Vikan 23. – 29. janúar
Þá er síðustu heilu vikunni í janúar lokið. Enn er þó einn mánudagur eftir af þessum mánuði sem margir hafa kallað lengsta janúar í manna minnum. Enda fimm mánudaga mánuður. Vikan var óvenju létt bókuð af fundum. Sem ég fagna því þá gefst meiri tími til vinnu við skrifborðið og samtals við starfsfólk og íbúa sveitarfélagsins.
Mánudagurinn hófst sem fyrr á fundi framkvæmdaráðs. Fljótlega að honum loknum fundaði ég ásamt Birni rekstrarstjóra með EFLU verkfræðistofu vegna vinnu við sorpútboðsgögn. Eins og fram hefur komið í fyrri dagbókarfærslum urðu miklar breytingar á regluverki sorphirðu um áramót. Sveitarfélögin í Húnavatnssýslum hafa tekið sig saman um útboð í þessum viðamikla málaflokki til að leitast við að ná fram hagræðingu. Vinnunni við útboðsgögnin miðar ágætlega áfram. Stefnt er að útboði snemma vors.
Eftir hádegi á mánudaginn var venjubundinn byggðarráðsfundur. Þar bar hæst afgreiðsla á reglum um skólaakstur en bjóða þarf aksturinn út á vordögum. 9 mánaða uppgjör síðasta árs var lagt fram og er rekstur almennt samkvæmt áætlun. Fundargerðin er hér.
Fyrir utan það sem að framan er talið sinnti ég ýmsum verkefnum. Svaraði t.d. fyrirspurnum vegna vatnsveitunnar en við höfum verið að glíma við þrýstingsfall á kalda vatninu undanfarnar viku. Loft hefur verið að komast inn á kerfið. Þegar þetta veldur vandræðum tappa áhaldahússmenn lofti af. Verið er að leita að orsök þess að loft kemst inn á kerfið, vonandi finnst hún sem fyrst. Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda. Til viðbótar sinnti ég erindi í tengslum við Farskólann, undirritaði umsögn um tækifærisleyfi frá sýslumanni, las yfir drög að frétt frá UMFÍ um heimsókn þeirra á dögunum og deildi svo á facebooksíðu okkar þegar hún hafði verið birt, fór yfir ýmis mál er tengjast Byggðasafninu á Reykjum, já og gekk frá dagbók síðustu viku og birti hana. Einnig gekk ég frá því sem ganga þurfti frá í tengslum við breytingu á samþykkt um stjórn sveitarfélagsins, birtingu á heimasíðu og gerð fréttar um breytinguna.
Á þriðjudagsmorgni átti ég ásamt sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs fund með ráðgjafa okkar um tryggingamál sveitarfélagsins. Fórum við yfir stöðu mála og kostnað vegna trygginga. Við leitum sífellt leiða til að ná fram sem hagkvæmustu samningum um þá þjónustu sem sveitarfélagið kaupir og var þessi fundur liður í því. Ráðgjafi okkar er lunkinn við að finna leiðir til hagræðingar hér og þar. Þegar magn trygginga er eins mikið og hjá sveitarfélaginu er nauðsynlegt að hafa kunnáttumann með sér í yfirferðinni svo ekki gleymist eitthvað né heldur að tryggingaverndin sé óþarflega mikil. Fyrir utan þennan fund átti ég nokkra styttri fundi, m.a. um starfsmannamál og einnig um rafrænar undirskriftir. Eftir skoðun þá munum við nýta okkur þjónustu Advania og Signet undirritunarkerfisins við rafrænar undirritanir. Gekk ég frá því og sendi í framahaldi fyrsta samninginn til undirritunar. Munum við svo innleiða kerfið smátt og smátt. Rafrænar undirritanir eru til mikilla hægðarauka. Þær spara tíma og eru umhverfisvænni þar sem ekki þarf að keyra á milli staða til að skrifa undir. Það verða þó aldrei allir samningar undirritaðir rafrænt og þeir sem heldur kjósa að skrifa undir upp á gamla mátann verða ávallt velkomnir í Ráðhúsið. Dágóður tími fór svo í að lesa yfir fyrstu drög að útboðsgögnum vegna sorpútboðsins og koma frá mér með athugasemdum til EFLU. Afar mikilvægt er að útboðsgögn séu vönduð til að koma í veg fyrir álitamál. Sorpútboð eru aukinheldur flókin og mikilvægt að ígrunda vel alla þætti.
Miðvikudagurinn var svipaður þriðjudeginum. Ýmis mál og nokkrir styttri fundir. Ég átti nokkra fundi með starfsmönnum um ýmis mál, fundaði með sveitarstjóra Húnabyggðar um sameiginlegt embætti skipulags- og byggingarfulltrúa. Erfiðlega hefur gengið að finna byggingarfulltrúa til starfa og ræddum við leiðir til að leysa það mál. Við höldum áfram að vinna að því af krafti. Endurskoðun sveitarfélagsins er komin á fullt skrið og alls kyns spurningalistar sem þarf að svara og yfirfara. Nokkur tími fór í slíkt. Ég hóf svo undirbúning landbúnaðarráðsfundar næstu viku, sömuleiðis næsta byggðarráðsfundar. Brunavarnir voru til skoðunar, fjarskiptamál, fjallskil og margt fleira.
Fimmtudagurinn hófst á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Fluttum við fundinn að minni ósk þar sem ég var fjarverandi á föstudeginum. Fimmtudagurinn var að öðru leyti óskrifað blað sem er afar óvenjulegt. Það kom til af því að ég hafði ætlað að vera í útréttingum í Reykjavík en af ýmsum ástæðum frestaðist sú ferð svo ég “græddi” heilan dag. Sorpmálin fengu drjúgan tíma, spurningalistar vegna endurskoðunar voru enn á dagskrá. Ég fundaði með nokkrum stjórnendum sveitarfélagsins og átti langt og gott samtal við lögreglustjóra Norðurlands vestra. Við finnum mikinn mun á því að hér er nú staðsettur lögreglumaður aðra hverja viku. Ég þakkaði fyrir það en jafnframt ræddum við hvaða leiðir við getum farið í sameiningu til að efla enn frekar löggæsluna í Húnaþingi vestra ekki síst með tilliti til forvarna. Einnig var ég í samskiptum við Vegagerðina vegna Vatnsnesvegar. Það er þetta með góðu vísurnar. Þær er nauðsynlegt að kveða reglulega. Þar sem dagurinn var nokkurskonar bónusdagur tók ég pínulítið til á skrifstofunni. Fór í gegnum pappíra, eyddi því sem eyða þurfti og flokkaði þá sem þarf að geyma. Einnig fór ég í gegnum málaskrána mína í skjalavistunarkerfinu og merkti lokin mál og skoðaði þau sem enn eru opin. Eins og sjá má ýmislegt snövl sem gjarnan situr á hakanum en er engu að síður mikilvægt að sinna.
Á föstudeginum fór ég svo á Selfoss til að fylgja vini mínum Jóa bílasala síðasta spölinn. Jói og ég vorum miklir vinir. Hann var í stjórn Selasetursins þegar ég var ráðin þangað og hann var einn af þeim sem drógu mig út í pólitík á sínum tíma. Við áttum oft langar samræður um hin ýmsu mál og Jói lét sér samfélagið miklu varða. Það var nauðsynlegt að líta við á bílasölunni að minnsta kosti einu sinni í viku til að taka skeytin. Þegar við fjölskyldan fluttum heim fyrir um 10 árum þá voru Ragga og Jói þau fyrstu til að bjóða okkur velkomin ef svo má segja. Ég mætti Röggu á Lækjargötunni og hún faðmaði mig innilega og bauð mig velkomna. Jói stoppaði á Hvammstangabrautinni á Bensanum sínum, rúllaði niður rúðunni og kallaði til mín þar sem ég var á gangi eitthvað í þá veruna að það væri gott að heyra að við ætluðum ekki suður. Er þess nokkuð viss um að Jói er kominn á rúntinn á öðrum og betri stað og að Ragga hafi tekið á móti honum með opinn faðm. Blessuð sé minning þeirra beggja.
Helgin var róleg. Fékk ömmustelpuna mína til mín á laugardaginn í góða og nærandi samveru. Ég kom til vinnu á sunnudagsmorgni til að bæta upp fyrir fjarveru föstudagsins. Mér finnst alltaf betra að byrja með nokkuð hreint borð á mánudegi. Málin eru fljót að hrannast upp.
Að lokum óska ég keppendum frá Oríon til hamingju með gott gengi í Stíl. Stíll er árleg hönnunarkepppni milli félagsmiðstöðva þar sem keppt er í hárgreiðslu, förðun og fatahönnun. Tvö lið fóru frá Oríon. Annað var skipað þeim Fríðu, Ísey og Valdísi en hitt þeim Völlu, Ásgerði, Olgu og Hrafney. Síðarnefnda liðið gerði sér lítið fyrir og sigraði keppnina. Ég er óskaplega montin af unga fólkinu okkar. Myndin er fengin að láni úr föstudagsmola Grunnskólans.
Lið Oríon í Stíl. Vinningsverkefnið er fyrir miðri mynd. Bæði lið stóðu sig frábærlega eins og sjá má.