Vikan 24.-30. mars 2025
Mánudagurinn hófst eins og vanalega á fundi framkvæmdaráðs en í því sitja sviðsstjórar sveitarfélagsins ásamt sveitarstjóra. Þar á eftir tóku við dagbókarskrif liðinnar viku og í kjölfarið vinna í tengslum við stjórnendamælaborð sem við erum að taka upp til að auðvelda forstöðumönnum að sjá stöðu sinna deilda miðað við áætlun. Mikilvægt tæki í fjármálastjórnun sveitarfélagsins. Að því loknu voru opnuð tilboð í utanhússklæðningu á Félagsheimilið Hvammstanga. Tvö tilboð bárust og stendur úrvinnsla úr þeim yfir. Eftir hádegið hefði átt að vera byggðarráðsfundur en lítið lá fyrir svo honum var frestað um viku. Tímann nýtti ég í að vinna í þjónustustefnu og að því loknu tók við 3. fundur verkefnisstjórnar í óformlegum viðræðum um hugsanlega sameiningu Húnaþings vestra og Dalabyggðar. Vinnunni miðar vel áfram og er áformað að halda íbúafundi í báðum sveitarfélögum í komandi viku.
Þriðjudagurinn hófst á fundi með sviðsstjóra, leiðtoga veitna og verktaka vegna verkefnis um varmadæluvæðingu til sveita á köldum svæðum í sveitarfélaginu. Virkilega spennandi verkefni sem unnið verður í sumar og haust. Er verkefnið styrkt úr byggðaáætlun en síðar um morguninn undirritaði ég samningu um verkefnið við SSNV sem hefur umsýslu verkefnisins með höndum fyrir Byggðastofnun. Stjórnendamælaborðið fékk nokkra athygli í kjölfarið en eftir hádegið skrapp ég í Skagafjörðinn m.a. til að hitta forstjóra Byggðastofnunar vegna ýmissa mála, lánamöguleika, óstaðbudinna starfa og byggðamála almennt.
Miðvikudagurinn var svo helgaður þjónustustefnunni að mestu þangað til eftir hádegið þegar til okkar komu fulltrúar þriggja stofa sem taka að sér vinnu við endurskoðun aðalskipulags sem er að hefjast í sveitarfélaginu. Byggt á þeim kynningum verður fljótlega tekin ákvörðun um við hvaða stofu verður skipt. Gera má ráð fyrir að vinnan taki allt að tvö ár og verður að sjálfsögðu unnið í miklu samráði við íbúa og aðra hagaðila. Ég er mjög spennt fyrir þessari vinnu en segja má að aðalskipulag sé annað tveggja stjórntækja sveitarfélagsins, hitt er fjárhagsáætlun hverju sinni.
Á fimmtudeginum voru engir fundir bókaðir svo ég nýtti tækifærið og hætti snemma. Að öðru leyti sinniti ég verkefnum við skrifborðið. Undirbúningur landbúnaðarráðs- og byggðarráðsfunda í komandi viku, ég skoðaði líka mögulega þátttöku sveitarfélagsins í Sveitarfélagi ársins sem er könnun meðal starfsmanna og eitt og annað. Seinnpart dags lagði ég svo land undir fót og fór suður til Reykjavíkur en á dagskrá var fundur með fulltrúum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga ásamt sveitarstjóra Dalabyggðar. Mér finnst ágætt að fara kvöldið áður þegar fundir eru daginn eftir til að geta nýtt morguninn í vinnu í stað þess að eyða hluta vinnudags í akstur.
Fundur með oddvita og formanni byggðarráðs á föstudagsmorgninum var því á Teams í þetta skiptið. Í kjölfarið gekk ég frá fundarboði byggðarráðsfundar og undirbjó fundargerð fundarins. Einnig átti ég fund með Gallup vegna hugsanlegrar þátttöku okkar í Sveitarfélagi ársins sem áður hefur verið nefnd. Þangað til fundurinn með Jöfnunarsjóðnum var á dagskrá sinnti ég ýmsum verkefnum við tölvuna, t.d. umsögn sveitarfélagsins um tækifærisleyfi í fjarveru aðstoðarmanns byggingafulltrúa, yfirferð minnisblaða fyrir byggðarráð, samþykkt reikninga o.fl. Fundurinn með Jöfnunarsjóðnum var svo strax eftir hádegið og sat ráðherra sveitarstjórnarmála, Eyjólfur Ármannsson, fyrri hluta fundarins. Áttum við gott spjall um hugsanlega sameiningu og áhrif hennar á sveitarfélögin. Verið er að endurskoða regluverk jöfnunarsjóðs og því ekki alveg ljóst hvaða áhrif sú endurskoðun hefur á framlög sveitarfélaganna. Það skýrst á allra næstu dögum vona ég. Að fundi loknum lét ég það gott heita þennan föstudaginn ef frá er talið útsendingu á fundarboði byggðarráðsfundar.
Ég leit aðeins við á skrifstofunni á sunnudeginum til að undirbúa vinnuvikuna og í smá tiltekt á skrifstofunni sem ekki veitti af.