Vikan 19.-25. september 2022
Einhversstaðar las ég að upphaf vinnuvikunnar legði grunninn að gangi vikunnar. Ef mánudagsmorgnarnir ganga vel – verður vikan góð. Það má segja að það hafi sannast í síðustu viku. Vikan hófst nefnilega á fundi með starfsmönnum ráðhússins. Við fórum yfir nokkur praktísk mál og yfir helstu liði síðasta sveitarstjórnarfundar. Það er nauðsynlegt að setjast saman niður og taka stöðuna reglulega. Strax í kjölfar starfsmannafundarins fundaði framkvæmdaráðið. Við fórum yfir verkefnalistann og gátum strikað eitthvað út en annað kom inn í staðinn eins og gengur. Báðir þessir fundir lögðu góðan grunn fyrir vikuna og hún varð sannarlega góð.
Vikulegur fundur byggðarráðs fór fram á mánudeginum eins og alla jafna. Á fundinum var meðal annars tekin ákvörðun um að akstur eldri borgara í tengslum við dagþjónustu verði boðinn út samhliða skólaakstri í vor. Ráðið samþykkti drög að auglýsingu fasteignarinnar að Hvammstangabraut 10 sem mörg okkar íbúa sveitarfélagsins hafa verið tíðir gestir í á umliðnum árum. Reisulegt hús sem hefur hýst Tónlistarskólann um nokkurt skeið. Auglýsinguna birtum við svo á vef sveitarfélagsins daginn eftir. Húsið er flokkað sem atvinnuhúsnæði og verður selt skv. þeirri flokkun. Það er hins vegar hægt að breyta því svo það standist kröfur um íbúðarhúsnæði. Fyrir liggur úttekt á því hvað gera þarf og getur Björn rekstrarstjóri veitt upplýsingar um það. Ég rölti yfir að Sóllandi til að taka myndir í auglýsinguna á vefinn í blíðskaparveðri. Ég var búin að gleyma hvað húsið er reisulegt, það lætur lítið yfir sér séð frá götunni en úr garðinum er það mun fallegra. Garðurinn sá er mjög stór og býður upp á heilmikla möguleika fyrir þau sem hafa græna fingur.
Á byggðarráðsfundinum var einnig lögð fram tillaga til sveitarstjórnar um að stofnaður verði starfshópur sem fengi það hlutverk að fara yfir eignir sveitarfélagsins, húsnæði og jarðir, og marka stefnu um þær. Að mörgu er að hyggja í þeim efnum, t.d. viðhaldsþörf þegar litið er til húsnæðis, tekna af eigninni o.s.frv. Það er sveitarstjórnar að taka afstöðu til tillögunnar og þá skipa í hópinn á næsta fundi.
Að síðustu fengum við góða heimsókn á fundinn. Jessica Aquino umsjónarmaður Húnaklúbbsins kynnti fyrir ráðinu verkefnið Back to the roots sem miðar að því að auka lýðræðislega þátttöku ungmenna. Verkefnið er samstarfsverkefni styrkt af Nora og Erasmus+ og í tengslum við það kemur hópur ungmenna frá Finnlandi í heimsókn á Hvammstanga í október. Var Jessica að falast eftir því að ráðið fundaði með ungmennunum og var vel í það tekið. Við Jessica höfum svo talað saman eftir fundinn og erum búnar að festa tíma fyrir þann fund. Öflugt ungmennastarf er samfélaginu mikilvægt og Jessica á þakkir skyldar fyrir starf sitt með Húnaklúbbnum.
Ef mér fannst mánudagurinn byrja vel þá hófst þriðjudagurinn síst á verri hátt. Strax upp úr 8 var fundur með stjórnendum stofnana sveitarfélagsins. Hópurinn telur 10 manns. Fórum við yfir praktísk mál líkt og á starfsmannafundinum en megnið af fundinum fór í kynningu sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs á stöðu sveitarfélagsins í tengslum við fjárhagsáætlunarvinnuna. Framvegis munum við svo miðla ársfjórðungsuppgjörum til þessa öfluga stjórnendahóps til að allir viti hver staðan er. Það að gera, og halda, fjárhagsáætlun er samvinnuverkefni allra sviða og því mikilvægt að allir séu vel upplýstir. Við stefnum að því að stjórnendahópurinn fundi mánaðarlega.
Í kjölfar stjórnendafundarins átti ég góðan fund með ráðgjafa sem vann með okkur fyrstu skrefin í tengslum við skuldbindingu um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Þar er á ferðinni áhugaverð vinna sem mikilvægt er að halda áfram með. Ég þekki heimsmarkmiðin ágætlega úr starfi mínu hjá SSNV en það var gott að fá innsýn inn í vinnuna sem þegar hefur farið fram hjá Húnaþingi vestra og fara að huga að næstu skrefum. Í mínum huga er mikilvægast í vinnu sem þessari að fá sem flesta með og eins að finna leiðir til að flétta hana inn í verkefni sveitarfélagsins. Á þriðjudeginum átti ég einnig nokkra styttri fundi, t.d. um akstursþjónustu eldri borgara sem og um fjallskil. Ég leit líka inn hjá félagi eldri borgara í VSP húsinu. Þar var verið að spila vist á fjórum borðum. Ég fékk stutta kynnisferð um húsnæðið á milli spila en víst að ég verð að kíkja til þeirra fljótlega aftur til að heyra betur hvað þau eru að sýsla. Það er nóg að gera hjá eldri borgurum í Húnaþingi vestra, það er ljóst. Ég má líka til með að þakka Halldóri Hreinssyni fyrir sinn mikla stuðning við starfið með því að láta félaginu húsnæðið í té.
Miðvikudagurinn fór að mestu í vinnu við skrifborðið. M.a. byrjaði ég að undirbúa næsta fund landbúnaðarráðs en hann verður í annarri viku. Vegna ferðalaga gefst lítill tími til að undirbúa hann í vikunni fyrir fund svo ég hófst handa við undirbúninginn. Sveitarstjóri er starfsmaður ráðsins. Það þarf að stilla upp dagskrárliðum eftir erindum sem borist hafa og málum sem þarf að taka fyrir skv. starfsáætlun. Formaður landbúnaðarráðs er Sigríður Ólafsdóttir.
Í lok dags á miðvikudag fékk ég þann heiður að afhenda umhverfisviðurkenningar ársins 2022. Sveitarstjórn skipar þriggja manna umhverfisnefnd sem hefur það hlutverk að veita viðurkenningar fyrir fallegt umhverfi. Var viðurkenningin fyrst veitt árið 1999 og síðan þá hafa um 70 eignir eða aðilar fengið viðurkenningu. Enginn oftar en einu sinni. Þó svo sé hafði nefndin úr nægum kostum að velja sem segir sitt um snyrtimennsku íbúa sveitarfélagsins. Í ár fengu eigendur Grundar í Vesturhópi, Tannstaðabakka og Bakkatúns 2 viðurkenningar. Sjá nánar hér.
Á miðvikudagskvöldinu fór ég sem leið lá í Stykkishólm en á fimmtudagsmorgninum var ég ásamt einvala liði í pallborði á haustþingi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi. Samskipti ríkis og sveitarfélaga var umræðuefnið og spannst um það líflegt spjall. Ásamt mér voru í pallborðinu Haraldur Benediksston alþingismaður, Karl Björnsson framkvæmdastjóri Samtaka íslenskra sveitarfélaga og Guðveig Eyglóardóttir formaður stjórnar SSV. Fundinum var lokið um hádegið og brunaði ég beint heim til að ná nokkrum klukkutímum á skrifstofunni. Það er alltaf spurning hversu mikinn tíma maður á að gefa sér í verkefni sem þessi. Ekki gengur á verkefnin á skrifborðinu á meðan. Hins vegar er mikilvægt að vera í góðum tengslum við nágrannana. Hagsmunir okkar á Vestlendinga eru sameiginlegir á margan hátt. M.a. um Heilbrigðisstofnunina, Arnarvatnsheiðina o.fl. Svo er alltaf gagnlegt að hitta fólk og mynda tengsl.
Föstudagurinn hófst með hefðbundnum hætti með fundi með formanni byggðarráðs og oddvita sveitarstjórnar. Að honum loknum fengum við sérdeilis áhugaverða kynningu á áformum um endurbyggingu Norðurbrautar, fyrstu vegasjoppunnar og hugmynda um að koma húsinu fyrir á lóð Verslunarminjasafnsins. Hólmfríður Ósmann Jónsdóttir arkitekt fór yfir allra fyrstu hugmyndir. Ásamt mér, formanni byggðarráðs og oddvita sat Bogi Kristinsson Magnusen skipulagsfulltrúi fundinn og næstu skref eru þau að hann skoðar skipulagsmálin í tengslum við verkefnið. Húsið var flutt niður á hafnarsvæðið í sumar og er Daníel Karlsson að hefjast handa við að gera það upp. Þetta verkefni er ákaflega áhugavert og mér hlýnaði um hjartarætur við að sjá að gert er ráð fyrir, ef áform ganga eftir, að bátnum hans Bangsa verði komið fyrir í tengibyggingunni.
Næsta vers á föstudaginn var að funda með rekstrarstjóra, Vegagerðinni og verktaka í snjómokstri um samning um verkið fyrir veturinn. Gildandi samningur rann út í vor en í honum er heimild að framlengja hann um eitt ár. Voru aðilar sammála um að það yrði gert. Að þeim tíma loknum verður verkið boðið út.
Síðar um daginn leit Starri Heiðmarsson forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra við hjá mér. Hann var hér í heimsókn til að líta á aðstæður í tengslum við grasanytjar í samræmi við bókun frá 192. fundi landbúnaðarráðs. Staðkunnugir fóru með Starra í vettvangsferðina og er von á greinargerð innan tíðar.
Haustið skall svo á okkur um helgina með veðurviðvörunum. Í tengslum við þær voru fundahöld á laugardag og sunnudag með lögreglu, Veðurstofu, almannavörnum og fulltrúum sveitarfélaga. Farið var yfir ítarlegri veðurspár en alla jafna eru birtar og hugsanleg áhrif þeirra. Sem betur fór sluppum við á Norðurlandi vestra nokkuð vel út úr veðrinu. Sama er ekki hægt að segja um austurland þar sem sett var á rauð viðvörun sem virtist vera full ástæða til. Þetta var í fyrsta skiptið sem ég sat fundi sem þessa og voru þeir virkilega upplýsandi. Veðurstofan fundar daglega þar sem farið er yfir stöðu náttúruvár sem þar er vöktuð og var hópnum boðið inn á slíkan fund. Það er augljóst að þar eru mikilir sérfræðingar á ferð og allir ferlar vel slípaðir með öryggi borgara landsins í forgrunni. Við verðum að horfast í augu við það að tími lægða er runnin upp og vert að minna íbúa sveitarfélagsins á að huga vel að eigum til að koma í veg fyrir tjón.
Þetta var vikan í hnotskurn. Eru þó ótalin ýmis minni verk og örfundir með hinum og þessum, starfsmönnum og gestum í Ráðhúsinu. Líkt og fyrri daginn þá var ekki mikið um lausar stundir. Ég segi bara eins og pabbi gjarnan, að manni „leiðist þá ekki á meðan“.
Viðurkenningarhafar umhverfisviðurkenninga ársins 2022 ásamt umhverfisnefnd.