Vikan 16. - 22. október 2023
Vikan litaðist af lokaspretti í vinnu við gerð fjárhagsáætlunar. Fyrsta vers á mánudagsmorgni var í því sambandi fundur með auknu byggðarráði þar sem farið var yfir fyrstu niðurstöðu. Fyrri umræða um áætlunina er í dagskrá 24. október. Einhverjir kunna að velta fyrir sér hvað aukið byggðarráð er. Í því situr sveitarstjórn í heild sinni og kemur ráðið nokkrum sinnum saman í fjárhagsáætlunargerðinni. Með því móti hafa allir sveitarstjórnarfulltrúar sömu aðkomu að fjárhagsáætlunargerðinni, hvort sem um er að ræða meiri- eða minnihluta, sem er afar vel. Rekstur sveitarfélagsins er samvinnuverkefni og bæði meiri- og minnihluti stefna að sömu markmiðunum. Það er ómetanlegt að vinna í slíku umhverfi.
Í kjölfar fundar aukins byggðarráðs funduðu forstöðumenn stærstu stofnana sveitarfélagsins um fyrirkomulag kvennafrídagarins. Niðurstaðan var sú að þau myndu afla upplýsinga á sínum vinnustöðum hver myndu leggja niður störf og miða þjónustuna út frá því. Konur eru yfir 60% starfsmanna sveitarfélagsins og því viðbúið að skerða þyrfti þjónustu verulega. Var það í framhaldinu kynnt fyrir þjónustuþegum og á frétt á heimasíðu sveitarfélagsins.
Eftir hádegið hefði alla jafna átt að vera byggðarráðsfundur en hann féll niður þar sem fá mál lágu fyrir. Ég græddi því nokkrar klukkustundir sem ég nýtti í ýmis verkefni. Það verður að segjast eins og er að verkefnalistinn var orðinn ansi langur og góð tilfinning að geta aðeins gengið á hann. Ég get nefnt vinnu við erindi til fjárlaganefndar, undirbúning kynningar á ráðstefnu um sameiningar sveitarfélaga í komandi viku sem kölluðu m.a. á samtöl við nokkra fyrrum sveitarstjórnarmenn, yfirferð yfir nýjan valkost við lagningu Holtavörðuheiðarlínu 1 og mat á hvort ástæða er til að veita umsögn um hann, yfirferð yfir fundargögn aðalfundar eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands en á fundinum var ég kjörin í varastjórn félagsins svo fátt eitt sé talið. Starfsmannamál bar einnig á góma sem og samþykktir reikninga. Þessu til viðbótar leit ég við hjá nýfæddum íbúa í sveitarfélaginu og færði foreldrunum litla gjöf frá sveitarfélaginu. Fá embættisverk eru gleðilegri.
Nýfæddir íbúar í Húnaþingi vestra fá litla gjöf frá sveitarfélaginu.
Þriðjudagurinn hófst á stjórnendafundi með forstöðumönnum allra stofnana sveitarfélagsins. Við hittumst mánaðarlega og förum yfir hvað helst er á döfinni á hverjum stað og miðlum almennum upplýsingum. Ég upplýsti forstöðumenn meðal annars um samning sem gerður hefur verið við Attentus um mannauðsstjóra að láni sem ég er afar spennt yfir. Samstarfið er í mótun og verður nánar kynnt fyrir starfsmönnum á næstunni. Síðan tóku við fundir með kjarasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga um kjaramál og Húsnæðis og mannvirkjastofnun vegna uppfærslu á húsnæðisáætlun sveitrfélagsins. Samkvæmt lögum um húsnæðismál skulu sveitarfélög vinna húsnæðisáætlanir og uppfæra þær árlega með tilliti til breytinga og þróunar sem orðið hefur á forsendum á milli ára. Hefur HMS komið upp mjög góðri vefgátt til vinnslu áætlananna. Áætluninni ber að skila fyrir miðjan janúar en ég mun vera klár með hana vel fyrir þann tíma ef allt gengur eftir. Hlutverk húsnæðisáætlana er að draga fram mynd af því hver staða húsnæðismála er í hverju sveitarfélagi fyrir sig, greina framboð og eftirspurn eftir margvíslegum húsnæðisformum og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörf heimila, bæði til skemmri og lengri tíma. Megin markmið með gerð húsnæðisáætlana er því að stuðla að auknu húsnæðisöryggi heimilanna. Ég skoðaði gildandi áætlun vel í kjölfar fundarins og setti hana svo inn á dagskrá komandi byggðarráðsfundar til að fá línur frá ráðinu um forsendur áætlunarinnar.
Í framhaldi af þessu birti ég að beiðni Bjarka Þórs Gröndfeldt Gunnarssonar lektors á Bifröst frétt um könnun sem unnin er á þeirra vegum um byggðabrag í sveitarfélaginu. Er könnunin liður í verkefninu Margur er knár þó hann sé smár þar sem Vífill Karlsson ásamt Bjarka greindu ólíka niðurstöðu úr íbúakönnunum milli nágrannasveitarfélaganna Húnabyggðar, Húnaþings vestra og Dalabyggðar. Það er vert að taka fram að þessar rannsóknir eru alfarið unnar að frumkvæði þessara fræðimanna og sveitarfélagið hefur enga aðkomu að þeim að öðru leyti en því að aðstoða með að hvetja fólk til þátttöku. Í frétt um könnunina er slóð inn á hana og hvet ég íbúa í Húnaþingi vestra til að taka þátt.
Samþykktir sveitarfélagsins hafa verið í endurskoðun og er þeirri vinnu að ljúka. Ég varði nokkrum tíma í það verkefni á þriðjudeginum. Stefnt er að því að taka uppfærðar samþykktir til fyrri umræðu á sveitarstjórnarfundi í nóvember og þá seinni í desember. Ekki er um að ræða neinar stórvægilegar breytingar heldur uppfærslur í tengslum við breytingar á lagaumhverfi og kröfum innviðaráðuneytis. Það kostar nokkra yfirlegu að yfirfara samþykktirnar enda um að ræða mikilvægt plagg sem leggur línur í öllu starfi sveitarfélagsins. Höfum við fengið ráðgjöf frá KPMG við verkið auk þess að vera í góðu sambandi við innviðaráðuneytið um óvissuatriði.
Á miðvikudeginum hélt ég áfram vinnu við kynninguna um sameiningar hreppanna árið 1998. Ég grúskaði svolítið í gömlum blaðagreinum og fundargerðum um helstu mál sem komu upp í kjölfarið sem var bæði áhugavert og gagnlegt. Ég var ekki búsett í sveitarfélaginu þegar sameiningin fór fram en fylgdist auðvitað með úr fjarlægð. Af blaðageinum að dæma virtist ekki mikil andstaða við sameininguna sem slíka þó tæpt hafi staðið í einum hreppanna þar sem aðeins munaði 2 atkvæðum. Hins vegar komu upp ýmis erfið mál í kjölfarið eins og við er að búast. Ég sat einnig stjórnarfund Íslandsstofu á miðvikudeginum í fjarfundi og var í samskiptum við Brák íbúðafélag vegna yfirtöku þeirra á eignum Bústaðar hses. sem ég fjallaði um í síðustu dagbókarfærslu o.m.fl.
Á fimmtudeginum sinnti ég ýmsum skrifborðsverkefnum fyrir hádegið og eftir hádegið voru lóða- og skipulagsmál í brennidepli.
Föstudaginn hóf ég á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs eins og alla jafna. Lokadrög að fjárhagsáætlun lágu þá fyrir og fórum við yfir þau með Elínu Jónu sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs. Á föstudeginum var bleikur dagur og fór ég af því tilefni með bleikar kökur með morgunkaffinu í stofnanir sveitarfélagsins. Nokkur tími fór í að undirbúa byggðarráðsfund komandi viku sem og sveitarstjórnarfund, útsendingu fundarboða og undirbúning fundargerða. Það er mikill léttir að fjárhagsáætlunin er tilbúin og er að fara í umræðu sveitarstjórnar. Vissulega gæti eitthvað átt eftir að breytast á milli umræðna, þó það hafi þó yfirleitt ekki tíðkast hér, en megin línurnar eru klárar og mjög líklega verður ekki þörf á að gera miklar breytingar á milli umræðna, gott samstarf meiri- og minnihluta við vinnslu áætlunarinnar á að mínu mati stóran þátt í því að alla jafna þarf ekki að gera miklar breytingar á milli umræðna.
Ég vil nota þetta tækifæri og þakka forstöðumönnum okkar fyrir vel unnin störf í tengslum við fjárhagsáætlunargerðina. Þau hafa sýnt mikla skynsemi í nálgunum sínum að verkefninu svo ekki sé talað um augljósan metnað fyrir sínum stofnunum. Elín Jóna sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs hefur sem fyrr unnið sleitulaust að þessu verkefni undarnfarnar vikur og haldið utan um alla þræði af mikilli röggsemi og festu. Ég er afskaplega lánsöm með það fólk sem hjá sveitarfélaginu starfar.