Vikurnar 18.-27. mars 2024
Í þetta skiptið er tveimur vikum slegið saman þar sem seinni vikan er styttri en alla jafna vegna páska.
Mánudagur fyrri vikunnar var hefðbundinn. Hófst á fundum framkvæmdaráðs og með verkefnisstjóra umhverfismála. Í hádeginu sat ég fund stjórnar Íslandsstofu á Teams og kl. 13 hófst undirbúningsfundur byggðarráðsfundar sem tók svo við kl. 14. Á þeim fundi var m.a. samþykkt að sveitarfélagið verði aðili að svæðisbundnum samstarfi sem miðar að öruggara Húnaþingi vestra, virkilega spennandi verkefni. Sjá meira hér. Einnig var lagt fram bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna framkvæmdar á gjaldskrárbreytingum í tengslum við kjarasamninga. Þar kom fram að ekki er gert ráð fyrir að gjaldskrárhækkanir verði afturvirkar né heldur að þær nái til málaflokka sem eiga að standa undir sér skv. lögum eins og úrgangsmál, né heldur skatta, þ.e. útsvars og fasteignagjalda. Sveitarstjórn hafði áður samþykkt að verði sambærilegir samningar gerðir á opinberum markaði muni það fylgja tilmælum sambandsins og er útfærsla á því í vinnslu. Horft verður á gjaldskrár sem snúa að barnafólki og einnig hefur verið samþykkt að skólamáltíðir verði gjaldfrjálsar frá og með næsta hausti. Hér er því verið að stíga þau skref sem lagt var upp með við kjarasamningsgerð sem er ánægjulegt. Fundargerð byggðarráðsfundar er hér.
Á þriðjudeginum hóf ég leika á samþykkt reikninga og ýmsum skrifborðsverkefnum áður en að fundur stjórnar framkvæmdasjóðs ferðamannastaða tók við. Þar á eftir átti ég fund með atvinnuráðgjafa hjá SSNV um uppbyggingarverkefni í sveitarfélaginu sem unnið er að. Þar á eftir spjall við íbúa um Engjabrekku en auglýst var eftir tilboðum í jörðina á dögunum. Loks tók við fundur með rekstrarstjóra og verkefnisstjóra umhverfismála um sorpmál og í framhaldinu með rekstrarstjóra um ýmis mál. Að hefðbundnum vinnudegi loknum undirbjó ég fyrirlestur um samstarf sveitarfélaga við veitingu þjónustu sem ég hafði tekið að mér að halda í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Námi sem ég lauk sjálf fyrir tveimur árum. Virkilega ánægjulegt að fá tækifæri til að ræða við nemendur um þessi mál en fyrirlesturinn sjálfur fór fram á fimmtudeginum í gegnum Teams.
Á miðvikudeginum skrapp ég til Reykjavíkur og sat tvo fundi á vegum Íslandsstofu, annars vegar aðalfund og hins vegar ársfund. Á aðalfundi lauk þriggja ára stjórnarsetu minni sem hefur verið mjög ánægjuleg og lærdómsrík. Hjá Íslandsstofu er unnið mikilvægt starf í kynningu lands með áherslu á allar helstu atvinnugreinar. Ég er sérstakleg ánægð með stóraukið samstarf Íslandsstofu við landshlutasamtökin sem ég er viss um að á eftir að skila sér í auknum fjárfestingum í landshlutunum á komandi árum. Á milli þessara funda stakk ég mér inn hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fékk hjá þeim skrifborð til að sinna ýmsum verkefnum. Það er nú einu sinni þannig að skrifstofan er í tölvunni og vel flest verkefni er hægt að vinna hvar sem er. Á meðan ég var þar sat ég tvo fundi sem tengjast starfsmannamálum, samþykkti reikninga og eitt og annað.
Á fimmtudeginum var skrifborðsdagur þar sem ég hreinsaði upp ýmis mál, svaraði tölvuóstum, undirbjó byggðarráðsfund vikunnar á eftir og skrifaði drög að umsögn um fyrirhugaðar breytingar á afgreiðslu Póstsins sem lögð voru fyrir byggðarráðsfundinn. Einnig vann ég í umsókn sveitarfélagsins í styrkvegapott Vegagerðarinnar. Seinnipart dags flutti ég svo fyrirlesturinn í meistaranáminu sem ég minntist á hér að framan.
Föstudagurinn hófst með hefðbundnum fundi með oddvita og formanni byggðarráðs þar sem við fórum yfir helstu mál að vanda. Þar á eftir gekk ég frá styrkvegaumsókninni og sendi hana inn. Ég fór þá yfir mín mál í skjalakerfinu og lokaði þeim málum sem hægt var, einnig lauk við undirbúning byggðarráðsfundar og sendi út boð á fundinn. Seinnipart dags var fundur veiðifélags Miðfirðinga á dagskrá en honum var frestað vegna veðurs. Helgin hófst því fyrr en ég hafði áætlað.
Vikuna eftir var augljóst að páskafrí var í nánd. Fjöldi tölvupósta dróst saman enda mörg sem nýta þessa daga til að lengja páskafríið. Framkvæmdaráðsfundur féll niður af þeim sökum og eins fundur með verkefnisstjóra umhverfismála. Alþjóðlegi vöffludagurinn var þennan dag og að sjálfsögðu skellti ég í vöfflur fyrir samstarfsfólk mitt í Ráðhúsinu. Ég átti þar á eftir fund með íbúa um uppbyggingarverkefni í dreifbýli sveitarfélagsins. Það eru ýmsar hugmyndir uppi um uppbyggingu sem er vel.
Byggðarráðsfundur var svo á sínum stað eftir hádegið. Á honum kom rekstrarstjóri til fundar og fór yfir helstu verkefni, fyrirhugaðar hitaveituframkvæmdir, framkvæmdir í Nestúni og undirbúning framkvæmda á þaki Félagsheimilisins. Einnig var tekin fyrir beiðni Félags eldri borgara um afslátt af leigu á Félagsheimilinu á sumardaginn fyrsta en félagið hefur samþykkt að sjá um hátíðarhöldin í ár sem ég er afar þakklát fyrir og veit að þau munu leysa með miklum sóma eins og allt annað sem þau taka sér fyrir hendur. Einnig var bókuð umsögn sveitarfélagsins um fyrirhugaðar breytingar á afgreiðslu póstsins á Hvammstanga sem byggðarráð leggst alfarið gegn. Bókunin er aðgengileg hér. Ég hef óskað eftir því að Íslandspóstur haldi opinn fund þar sem þessi áform eru kynnt fyrir íbúum.
Á þessum sama byggðarráðsfundi voru líka öllu ánægjulegri mál á dagskrá þegar samþykkt var viljayfirlýsing um samtarf við Leigufélagið Bríeti um uppbyggingu leiguíbúða, yfirtöku eigna og styrkingu leigumarkaðar í sveitarfélaginu á vegum Bríetar. Í samkomulaginu felst að Bríet muni kaupa tvær eignir í byggingu á Hvammstanga auk þess að auglýsa eftir byggingaraðilum til samstarfs vegna kaupa Bríetar á tveimur íbúðum til viðbótar á árinu 2025. Húnaþing vestra muni leggja 6 eignir í eigu sveitarfélagsins inn í Bríeti 2025 í gegnum svokölluð yfirtökuverkefni og mun Bríet annast útleigu á þeim eignum. Jafnframt muni Húnaþing vestra tryggja aðgengi að lóðum vegna þeirrar íbúðauppbyggingar sem fyrirhuguð er. Þessi uppbygging ásamt uppbyggingu sem þegar hefur verið samið um við innviðaráðuneytið og HMS mun ef allt gengur eftir leiða til stórfelldrar íbúðauppbyggingar í sveitarfélaginu í samræmi við þá þörf sem kemur fram í Húsnæðisáætlun sveitarfélagsins. Það er ástæða til að fagna því.
Á mánudagkvöldinu sat ég fund fjallskiladeildarinnar í Víðidalnum og átti þar gott spjall við bændur.
Þriðjudagurinn fór í ýmis verkefni, kynningarmál, starfsmannamál, samþykktir reikninga og undirbúning næsta byggðarráðsfundar svo fátt eitt sé talið. Nokkur starfsmannamál fengu athygli. Einnig voru opnuð tilboð í Engjabrekku sem ég nefndi hér að framan. Alls bárust þrjú tilboð og mun byggðarráð bóka niðurstöðuna og taka afstöðu til tilboðanna á næsta fundi ráðsins.
Á miðvikudagsmorgninum fór ég ásamt Boga skipulags- og byggingarfulltrúa og Jóni Rafnari Benjamínssyni landslagsarkitekti í vettvangsheimsókn að Hvítserki en Jón Rafnar mun leiða heildarhönnun á svæðinu sem er að fara af stað með stuðningi úr Landsáætlun. Veðrið var fullkomið til slíkrar ferðar og eftir kaffisopa og pönnukökur heima í bæ á Ósum fór Knútur með okkur niður á svæðið. Það kom á óvart að það var heilmikið af ferðamönnum að njóta náttúrunnar en umferð þangað fer sívaxandi. Við stíginn niður að útsýnispallinum er teljari á vegum Ferðamálastofu. Samkvæmt mælaborði ferðaþjónustunnar komu þangað tæplega 82 þúsund ferðamenn á árinu 2023 sem er gríðarlegur fjöldi og fjölgun um 7000 frá árinu 2022. Þegar mest er fara þarna um yfir 600 manns á dag. Þetta sýnir svo ekki er um villst þörfina á uppbyggingu á svæðinu en til stendur að stækka bílastæði, hanna stígakerfi og fleiri áningarsvæði. Einnig er gert ráð fyrir hönnun á aðstöðuhúsi. Virkilega spennandi verkefni sem ég hlakka til að sjá raungerast.
Það var fallegt við Sigríðastaðarósinn í vetrarríkinu.
Það sem eftir lifir dags fór í undirbúning landbúnaðarráðsfunds, byggðarráðsfundar, starfsmannamál, dagbókarskrif og eitt og annað uppsóp fyrir páskafrí. Veit ekki hvort það á við um fleiri en ég hef fundið fyrir því að dagarnir fyrir frí eru oft drjúgir í frágangi á ýmsum málum sem hafa setið á hakanum.
Það er gaman að segja frá því að á síðustu tveimur vikum hef ég farið með tvær gjafir til nýfæddra barna í sveitarfélaginu. Í fyrra byrjuðum við að færa nýfæddum íbúum litla gjöf sem hefur mælst vel fyrir. Fá þau meðal annars bleiur, pela, snuð, smekk og samfellu. Set hér með mynd af gjöfinni til gamans. Í ár lítur út fyrir metfjölda fæðinga í sveitarfélaginu. Ég óska nýbökuðum foreldrum innilega til hamingju :)