Vikan 6.-12. janúar 2025
Nú er hversdagurinn að taka við eftir jól- og áramót. Það er því ekki úr vegi að segja frá helstu verkefnum liðinnar viku og taka upp þráðinn við reglubundin dagbókarskrif eins og ég lofaði hér í síðasta pistli.
Vikan var viðburðarrík. Hún hófst á undirbúningsfundi geðheilbrigðisátaks starfsfólks sveitarfélagsins sem við erum að fara að hrinda úr vör á næstunni í samstarfi við Mental ráðgjöf. Er átakið liður í því að bæta starfsumhverfi starfsfólks sveitarfélagsins sem mörg hver eru undir miklu álagi í sínum störfum. Umræða um geðheilsu er oft á tíðum „tabú“ og getur leitt af sér mikla vanlíðan. Við viljum reyna að opna umræðuna og þannig bæta starfsumhverfið. Ég er mjög spennt fyrir þessu verkefni. Eftir hádegið var svo fyrstu fundur byggðarráðs á nýju ári. Hann var „þéttur“ ef svo má segja, óvenju mikill fjöldi reglna og áætlana sem afgreidd voru. Má þar nefna uppfærða Húsnæðisáætlun sveitarfélagsins, úthlutunarreglur Atvinnu- og nýsköpunarsjóðs en nú verður framvegist auglýst eftir umsóknum í janúar og hefur það þegar verið gert. Við hvetjum þau sem ganga með spennandi verkefni í maganum að skoða hvort þau samræmist reglum sjóðsins og þá sækja um.
Á byggðarráðsfundinum var einnig samþykkt að skipa starfshóp um byggingu björgunarmiðstöðvar. Spennandi verkefni sem hefur verið í óformlegri umræðu um nokkurt skeið en er nú búið að setja í formlegan farveg. Hugmyndin er að hópurinn skoði möguleikann á því að reisa hér miðstöð viðbragðsaðila, slökkviliðs, björgunarsveitar, lögreglu og sjúkrabíla. Verður spennandi að sjá að hvaða niðurstöðu hópurinn kemst. Erindisbréf hópsins er að finna hér. Á fundnum var líka samþykkt erindisbréf starfshóps um opnunartíma grunnskóla og leikskóla í tengslum við breytingar á vinnutíma starfsmanna. Erindisbréf þess hóps er að finna hér.
Einnig voru samþykktar reglur um birtingu gagna með fundargerðum. Einhver hafa mögulega tekið eftir breytingu á birtingu fundargerða upp á síðkastið en við höfum verið að innleiða fundargerðakerfi í smáum skrefum undanfarna mánuði. Nú er þeirri innleiðingu að ljúka með birtingu fylgigagna með fundargerðum, þ.e. þeirra sem heimilt er að birta. Er það til mikilla bóta og eykur upplýsingamiðlun til muna. Til að gæta að öllum lögum, reglugerðum og auðvitað persónuverndar eru reglurnar sem afgreiddar voru leiðbeiningar til okkar starfsmanna sveitarfélagsins hvað má og hvað má ekki birta. Við gerum ráð fyrir að hér eftir verði viðeigandi gögn birt með fundargerðum í samræmi við reglurnar.
Fleiri reglur voru samþykktar á fundinum. Innkaupareglur sveitarfélagsins voru uppfærðar. Snérist það að mestu upp uppreikning fjárhæða í samræmi við lagaheimildir þar um. Efnislega voru ekki gerðar breytingar á reglunum. Nýjar reglur eru hér.
Byggðarráð samþykkti líka líkt og undanfarin ár að fella niður gatnagerðargjöld á völdum lóðum í sveitarfélaginu. Um er að ræða lóðir við Bakkatún, Grundartún og ein á Hlíðarvegi á Hvammstanga auk lóða við Teigagrund og Gilsbakka á Laugarbakka. Þessum lóðum sem gjöldin eru felld niður á fækkar jafnt og þétt og hvetjum við þá sem eru í byggingahugleiðingum að skoða þær, sjá hér.
Jafnréttisáætlun sveitarfélagsins var samþykkt í lok árs 2023 en nú var samþykkt stöðumat og uppfærsla á áætluninni en endurskoða þarf áætlunina árlega. Það var ánægjulegt að sjá hversu margar aðgerðir í áætluninni eru í góðri vinnslu og nokkrum lokið. Eðli áætlunarinnar er hins vegar það að fæstum verkefnunum verður nokkurn tíma alveg lokið. Við endurskoðunina lögðum við könnun fyrir starfsfólk sveitarfélagsins sem var afar jákvæð og vil ég nota tækifærið til að þakka starfsmönnum fyrir þátttökuna. Uppfærð áætlun ásamt stöðumati er hér.
Á fundinum var einnig bókuð umsögn um drög að flokkun tíu vindorkuverkefna sem var til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda og einnig samþykktur endurskoðaður lóðaleigusamningur lóða í Húnaþingi vestra. Fundargerð byggðarráðsfundar er að finna hér.
Eftir byggðarráðsfund lauk ég svo við undirbúning sveitarstjórnarfundar sem var haldinn á fimmtudeginum þar sem þau mál byggðarráðsfundar sem hér hafa verið rakin voru samþykkt.
Þriðjudeginum varði ég í Reykjavík við ýmis fundahöld og útréttingar fyrir sveitarfélagið. Á heimleiðini heimsótti ég kollega í Borgarbyggð og skoðaði nýjar og glæsilegar skrifstofur þeirra og við bárum saman bækur í leiðinni um hin ýmsu mál.
Á miðvikudagsmorgninum tók ég svo á móti nýjum sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs. Þorgils Magnússon er nýráðinn í það hlutverk og tekur við verkefunum Björns rekstrarstjóra sem nú lætur af störfum eftir um 5 ára starf hjá sveitarfélaginu. Vil ég þakka honum fyrir gott og gefandi samstarf og óska honum alls hins besta í nýjum verkefnum. Við Þorgils sátum góða stund og fórum yfir ýmis mál við upphaf starfs. Að ýmsu er að hyggja. Hann fór svo ásamt Birni í rúnt um eignir sveitarfélagsins. Eðli málsins samkvæmt mun það taka nokkurn tíma fyrir nýjan mann að komast inn í starfið. Þorgils er svæðinu að góðu kunnur enda starfaði hann hér um hríð sem byggingarfulltrúi meðan Húnaþing vestra og Húnabyggð voru í samstarfi um verkefni skipulags- og byggingafulltrúa. Ég býð Þorgils velkominn til starfa og ég hlakka til samstarfsins við hann.
Eftir hádegið fór ég svo á Hótel Laugarbakka þar sem við höfum fengið aðstöðu til að taka upp nokkur viðtöl við valda íbúa. Um var að ræða kynningarmyndbönd sem vekja athygli á Húnaþingi sem ákjósanlegum búsetukosti. Fengum við Helga Sæmund Guðmundsson til að vinna myndböndin fyrir okkur en ég átti mjög gott samstarf við hann um sambærilegt verkefni þegar ég var hjá SSNV. Hugmyndin er að myndböndin verði birt á samfélagsmiðlum innan tíðar.
Á bak við tjöldin :) Kiddi og Fjóla í viðtali.
Á fimmtudeginum var sveitarstjórnarfundur eins og áður hefur komið fram. Er ég þegar búin að rekja helstu mál sem þar voru afgreidd. Fundargerðin er hér. Þá daga sem sveitarstjórnarfundir eru haldnir fer megnið af deginum í undirbúning. Undirbúa þarf fundargerð, ég flyt skýrslu sveitarstjóra og fer yfir helstu verkefni frá síðasta fundi o.s.frv. Um morguninn fengum við okkur gott kaffi og „meððí“ til að kveðja Björn rekstrarstjóra en dagurinn var síðasti dagur hans í vinnu formlega.
Föstudagurinn hófst eins og vanalega á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Ekkert lá fyrir byggðarráðsfundi sem var á dagskrá komandi mánudags svo tekin var ákvörðun um frestun hans. Að fundi loknum settist ég niður með Þorgils sviðsstjóra og við fórum yfir ýmis mál. Við tók svo skrifborðsvinna. Úrvinnsla sveitarstjórnarfundar sem þó er að mestu komin í hendurnar á Daníel verkefnisstjóra. Ég skoðaði samþykktir sveitarfélagsins en kominn er tími á nokkrar smávægilegar lagfæringar á henni. Einnig skoðaði ég hafnarreglugerð. Ég og sviðsstjór fjármála- og stjórnsýslusviðs funduðum með persónuverndarfulltrúum nokkurra sveitarfélaga og ég leitaði í framhaldinu tilboða í þjónustu til að sinna því hlutverki fyrir sveitarfélagið. Ég svaraði nokkrum tölvupóstum sem hafa setið á hakanum og ýmislegt fleira.
Laugardagsmorguninn var drjúgur í vinnu sömuleiðis við að hreinsa upp ýmis mál. Ef ég fer í burtu einn dag líkt og í vikunni þá safnast gjarnan upp eitt og annað sem þarf að sinna og því gott að taka smá tíma til að hreinsa það upp og fara með minni hala á eftir sér inn í komandi viku. Við erum meðal annars að undirbúa viðhorfskönnun meðal starfsmanna, ég sinnti úrvinnslu í tengslum við mannauðsstefnu sveitarfélagsins en sveitarstjóri er jafnframt mannauðsstjóri. Á laugardeginum fór ég svo með gjöf til yngsta íbúans í sveitarfélaginu, síðasta barnsins sem fæddist á árinu 2024. Var það 17. gjöfin sem færð var börnum sem fæddust á síðasta ári. Sem er með mesta móti sem er afar ánægjulegt. Þessi siður að færa foreldrum nýfæddra barna litla gjöf hefur mælst vel fyrir og eitt af því skemmtilegasta við starf sveitarstjórans :) Á árinu 2025 verður bætt lítillega í gjöfina og segi ég betur frá því fljótlega. Þessi siður er vonandi kominn til að vera.
Fyrsta heila vinnuvika ársins var því eins og sjá má viðburðarrík og gefur góð fyrirheit um að árið verði það sömuleiðis, viðburðarríkt og krefjandi. Alveg eins og við viljum hafa það :)
Ekki úr vegi að enda þessa fyrstu dagbókarfærslu nýs árs með fallegri sólarupprás sem blasti við mér á leið í Fitjárdalinn á laugardaginn.