Heimilisfang: Garðavegi 7, 530 Hvammstanga.
Sími: 451-2343
Netfang: leikskoli@hunathing.is
Heimasíða: https://www.asgardur.leikskolinn.is
Leikskólastjóri: Kristinn Arnar Benjamínsson
Aðstoðarleikskólastjóri: Guðný Kristín Guðnadóttir
Leikskólinn Ásgarður er *flæðis leikskóli með fjölbreytta vistunarmöguleika, allt frá 4 til 8 klst. daglega. Aðalaðsetur skólans er við Garðaveg 7, Hvammstanga. Þar er eldra stig og yngra stig. Nemendur geta hafið leikskólagöngu frá eins árs aldri á Hvammstanga.
*Mihaly Csikszentmihalyi er ungverskur sálfræðiprófessor fæddur árið 1934. Hann útskrifaðist með B.A. gráðu árið 1960 og Ph.D. gráðu árið 1965, báðar frá háskólanum í Chicago. Hann er þekktur fyrir rannsóknir sínar á hamingju og sköpunargleði. Þekktastur er hann þó fyrir að vera upphafsmaður hugmyndafræðinnar flæði. Hann hefur skrifað fjölda bóka og greina og er meðal annars höfundur bókarinnar „Finding Flow“ (Psychology.about.com, e.d.).
Samkvæmt kenningum Mihaly er flæði þær stundir sem við njótum okkar best. Einstaklingurinn er svo niðursokkinn í athöfn að ekkert annað kemst að, verkefnið á hug hans allan og hann gleymir jafnvel stund og stað. Hlutirnir virðast gerast án áreynslu og hæfileikar hans eru fullnýttir. Reynslan sem einstaklingurinn öðlast í þessu ferli er svo gefandi að hann leggur töluvert á sig til að upplifa hana aftur. Hægt er að skapa aðstæður eða ástand þar sem líklegra er að einstaklingur geti upplifað flæði, en þá má verkefnið sem hann tekur sér fyrir hendur hvorki vera of létt né of erfitt. Þannig viðheldur það áhuga hans. Mikilvægt er að hafa skýr markmið vilji maður ná fram flæði. Ekki vegna þess að það eitt og sér að ná markmiðunum sé mikilvægt heldur vegna þess að án markmiða reynist mörgum erfitt að einbeita sér og forðast truflanir. Hvíld, sköpun, að nærast og að hafa samskipti eru jafn stór þáttur og skilningarvit okkar í því hvernig við upplifum lífið (Csikszentmihalyi, 1997).
Með því að skipuleggja námsumhverfi og viðfangsefni barna út frá kenningum Mihaly leggjum við grunninn að því að börnin læri að þekkja sig sjálf, móta sína eigin sjálfsmynd og finna út hver þau eru og að þau læri að taka stjórn á sínu eigin lífi, axla ábyrgð á gjörðum sínum og láti ekki erfðir, menningu eða aðra einstaklinga hafa áhrif á líðan sína.
Frekari upplýsingar og umsóknir um leikskólavist má finna á heimasíðu leikskólans Ásgarðs.