Vikan 7.-13. nóvember
Vikurnar þjóta hjá og líður að jólum. Starfsmenn áhaldahúss hófsut handa við að hengja upp jólaskreytingar í vikunni. Einhverjum finnst það snemmt en öðrum ekki eins og gengur. Ég fagna aukinni birtu í sveitarfélaginu nú í svartasta skammdeginu.
Daníel starfsmaður áhaldahúss við uppsetningu jólaskreytinga.
Vikan hófst á hefðbundinn hátt með fundi framkvæmdaráðs þar sem farið var yfir ýmis mál. Því næst tók við yfirferð yfir gjaldskrár sveitarfélagsins fyrir næsta ár sem er hluti af fjárhagsáætlunarvinnuni. Gjaldskrárnar voru hluti af fundargögnum sveitarstjórnarfundar sem var á dagskrá á fimmtudeginum og hluti af undirbúningi hans. Eftir hádegið var byggðarráðsfundur líkt og vanalega. Hann var tíðindalítill ef svo má segja. Tilnefning í verkefnaráð Holtavörðuheiðarlínu 3, sem mun liggja frá tengivirki í Hrútafirði yfir í Blöndu. Landsnet skipar ráð sem þetta í tengslum við allar sínar framkvæmdir til að tryggja samráð og samtal. Ég hef verið fulltrúi í ráðum sem þessu og get vottað um að vinnulagið er til fyrirmyndar. Tvær umsagnir voru teknar fyrir á fundinum, annars vegar um flutning Innheimtustofnunar sveitarfélaga til sýslumannsins á Blönduósi. Var lýst yfir stuðningi við þá tillögu. Jafnframt var lýst yfir stuðningi við þingsályktunartillögu um úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara. Að lokum kom rekstarstjóri til fundar við ráðið og fór yfir stöðu helstu framkvæmda. Fundargerð fundarins er hér.
Að byggðarráðsfundi loknum lauk ég undirbúningi erindis fyrir Hagsmunaráð Landsnet sem ég hafði tekið að mér að halda á þriðjudeginum sem kallaði á suðurferð. Ég náði þó að sinna ýmsum verkefnum á þriðjudagsmorgninum áður en ég lagði af stað suður. Fundargögn sveitarstjórnarfundar lágu fyrir og ég sendi þau út en sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs tekur þau saman og undirbýr til útsendingar. Í Samþykkt um stjórn sveitarfélagsins er kveðið á um að þau skulu send út með að minnsta kosti tveggja sólarhringa fyrirvara. Reglur þær sem bundnar eru í samþykktunum er eins gott að halda í heiðri í hvívetna enda geta fundir verið ógildir, og þar með allar ákvarðanir sem á þeim eru teknar, ef svo er ekki. Ég lagði af stað um 10 leytið og var komin suður í tæka tíð fyrir kynninguna. Ég sat fund ráðsins í heild og fræddist meðal annars um vinnulag í tengslum við rammaáætlun þar með talið vindmyllur, fékk kynningu á uppbyggingaráætlun Landsnets og orkuskiptahermi Landverndar. Erindi mitt bar yfirskriftina Orkuleysi og áhrif þess á samfélög. Í því fjallaði ég um annars vegar orkuleysi í skamman tíma og vitnaði í ástandið sem skapaðist í desember 2019. Hins vegar fjallaði ég um áhrif orkuskorts til langs tíma og vitnaði þá m.a. í skýrslu um töpuð tækifæri vegna takmarkana í flutningskerfinu. Í henni er m.a. fjallað um greiningu sem sýnir jákvætt samband á milli svigrúms í flutningskerfinu og launaþróunar. Með öðrum orðum að í sveitarfélögum þar sem hlutfallsleg afhendingargeta í flutningskerfinu er hvað lægst vaxa tekjur og laun hægar en í sveitarfélögum þar sem afhendingargetan er meiri. Athyglisverðar niðurstöður svo ekki sé meira sagt. Mikilvægi aðgengis að orku er því mikilvægt byggðamál auk þess að vera öryggismál og nauðsynlegt að bæta sem allra fyrst til að styrkja samkeppnishæfni okkar svæðis. Er það eitt af baráttumálum sveitarstjórnar.
Yfirskrift erindis fyrir hagsmunaráð Landsnets.
Eftir skottúr suður var kærkomið að fá skrifborðsdag á miðvikudeginum. Ég sinnti ýmsum verkefnum, m.a. úrvinnslu úr kynningu Húnaklúbbsins sem við fengum á dögunum og skoðaði hvernig hrinda mætti hugmyndum ungmennanna í framkvæmd. Meira um það síðar. Ég sendi inn umsagnir þær sem bókaðar voru á byggðarráðsfundinum. Það er vert að benda á að allar umsagnir, hvort sem þær eru sendar inn á samráðsgátt stjórnvalda eða til nefndasviðs Alþingis eru birtar á vefnum. Það er oft forvitnilegt að skoða umsagnir um hin ýmsu mál. Samráðsgátt stjórnvalda er hér og dæmi um málsmeðferð máls á nefndasviði Alþingis er hér.
Fimmudagurinn var þéttskipaður vegna sveitarstjórnarfundar eftir hádegið. Það gafst þó tóm til ýmissa mála fyrripart dagsins og komu m.a. fjallskil, jöfnunarsjóður, undirritun lóðaleigusamninga, málefni fatlaðs fólks og hitaveita við sögu. Eftir hádegi var svo fundur meirihluta til undirbúnings sveitarstjórnarfundar og í kjölfarið fundurinn sjálfur. Á fundinum fór fram staðfesting fundargerða og fyrri umræða fjárhagsáætlunar. Eins og fram hefur komið í dagbókarfærslum taka ákvarðanir nefnda ekki gildi fyrr en staðfesting sveitarstjórnar liggur fyrir. Einnig hefur komið fram að fjárhagsáætlun þarfnast tveggja umræðna í sveitarstjórn með að minnsta kosti 2ja vikna millibili. Fyrri umræðunni er því lokið og bókaður var aukafundur þann 24. nóvember til að ljúka umfjöllun um áætlunina. Ég mun fjalla betur um áætlunina þegar seinni umræðan hefur farið fram enda er áætlunin ekki endanlega samþykkt fyrr en þá.
Föstudagsmorguninn hófst á hefðbundinn hátt með fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Við sátum í framhaldi fund vegna hitaveitu en að honum loknum tók við úrvinnsla úr sveitarstjórnarfundi frá því deginum áður sem tók meirihluta dagsins. Ég var komin heim á skikkanlegum tíma til að aðstoða krakkana við að hafa sig til fyrir árshátíð Grunnskólans sem fram fór um kvöldið. Ég leyfi mér að segja að árshátíðin er einstök og hefur verið um áratugaskeið. Allir nemendur, hver einn og einasti, hafa hlutverk í kringum árshátíðina. Allir bekkir flytja atriði og eru þau fjölbreytt og skemmtileg. Undanfarin ár hefur skapast sú hefð að 10. bekkur býr til myndband þar sem létt gaman er gert að skólastarfinu. Það hitti beint í mark í ár eins og fyrri ár. Þó ég hafi ekki verið í embættiserindum á árshátíðinni heldur sem foreldri get ég samt ekki látið hjá líða að nefna hana og þakka kennurum og starfsfólki skólans fyrir ómetanlegt starf í kringum þetta kvöld. Árshátíðarvikan gefur tækifæri til náms með öðrum hætti en alla jafna, þróun atriða, gerð búninga og leikmynda, æfinga í framkomu og margt margt fleira. Frábært dæmi um samþættingu námsgreina þar sem allir nemendur fá tækifæri til að blómstra á sínum áhugasviðum.
Ég nefndi að árshátíðin væri áratuga gömul hefð. Undirrituð á góðar minningar frá henni frá sinni setu í Grunnskóla Húnaþings vestra á ofanverðri síðustu öld. Ég man til dæmis eftir að hafa sungið með flutningi laga af MiniPops plötunum ódauðlegu (þær eru aðgengilegar á Spotify fyrir áhugasöm :)). Mig minnir líka að í tengslum við árshátíðarnar hafi verið leikfimissýningar (það leiðréttir mig vonandi einhver ef mig er að misminna) ég man í það minnsta eftir að hafa tekið þátt í nokkrum slíkum. Ég vona að mér fyrirgefist að birta hér óborganlega mynd frá einni slíkri þar sem undirrituð stendur einbeitt og teinrétt, líklega í kringum 9 ára aldur, og býr sig undir að fara „í flugvél“ líklega við lok sýningar.
Frá leikfimisýngu í Félagsheimilinu (mynd fengin af facebook) myndin er í eigu Írisar Fjólu.
Til gamans læt ég hér fylgja með fyrir þau sem hafa gaman af tölfræði, samantekt á skiptingu tíma sveitarstjóra niður á málaflokka frá 1. september þegar ég hóf störf. Lang stærsti flokkurinn er Sameiginlegt en undir hann fellur vinna með sveitarstjórn og byggðarráði, starfsmannamál, fjármál, rekstur skrifstofunnar o.s.frv. Næst mestur tími fer svo í atvinnumál en þar undir er m.a. landbúnaðarráð. Leigufélagið Bústaður og skipulags- og byggingamál koma þar á eftir. Þar næst fræðslu- og uppeldismál.
Ég vil að lokum þakka fyrir ákaflega góðar viðtökur við dagbók sveitarstjóra. Í upphafi ákvað ég að reyna þetta til reynslu, óviss um hvort nokkur maður myndi nenna að lesa þessa pistla. Ég hef fengið fjölmargar kveðjur þar sem fólk lýsir yfir ánægju sinni með þá og ég þakka kærlega fyrir þær allar. Þar sem ég mæli í hvað tíminn fer þá sé ég að í þetta fer þónokkur tími, gjarnan um helgar, en miðað við viðtökurnar þá er það klárlega tíma vel varið. Auk þess að vera upplýsandi fyrir íbúa færa skrifin mér tækifæri til að líta yfir liðna viku og skoða hvað ég var að sýsla við – sem ég myndi líklega ekki gefa mér tíma til annars. Ég mun því halda ótrauð áfram að miðla upplýsingum með þessum hætti.