Enn og aftur var vinnuvikan stutt þar sem frí var á mánudeginum, annan í hvítasunnu. Á þriðjudeginum hófst vinnuvikan á fundi með samgöngunefnd Alþingis vegna umsagnar sveitarfélagsins um þingsályktunartillögu um samfélagsvegi. Er um að ræða tillögu sem Haraldur Benediktsson, þáverandi þingmaður, kynnti á fundi á Hvammstanga í vetur. Umsögn sveitarfélagsins var almennt jákvæð og ræddum við hana ásamt fleiri vinklum málsins við nefndina. Það er alltaf gott að fá tækifæri til að fylgja umsögnum eftir. Við höfum lagt áherslu á að veita umsagnir um þau mál sem okkur varða og eru í meðferð þingsins.
Síðar um daginn funduðu sveitarstjórar á Norðurlandi vestra með ráðgjafa SSNV á sviði ferðamála og framkvæmdastjóra samtakanna um ferðamál. Þessi hópur hefur fundað reglulega ásamt fagráði ferðaþjóustunnar á Norðurlandi vestra um stöðu ferðamála og málefnum þeim tengdum í landshlutanum. Að þeim fundi loknum fundaði ég ásamt sveitarstjóra Skagastrandar um áhugaverðar lausnir í afsetningu lífræns úrgangs frá heimilum. Var fundurinn í tengslum við fyrirhugað sorpútboð en þessi tiltekna lausn of stutt á veg komin til þess að hún gæti nýst okkur strax. Hins vegar var hún ákaflega áhugaverð og við fylgjumst með hvernig þróun hennar vindur fram.
Á þriðjudeginum fengu fleiri mál athygli – svo sem sorpútboðsgögnin margumtöluðu, styrkvegir í sveitarfélaginu, samþykkt reikninga, starfsmannamál og margt fleira.
Til að bæta gráu ofan á svart í stuttri vinnuviku þurfti ég óvænt að skjótast til Reykjavíkur í persónulegum erindagjörðum á miðvikudeginum. Ég náði þó að koma stuttlega í vinnu áður en ég lagði af stað. Á leiðinni út úr bænum á heimleiðinni gat ég nú samt komið að einhverju gagni því ég sótti peysur fyrir grunnskólann sem nemendafélagið hafði látið gera og selt til fjáröflunar. Gott að geta nýtt ferðina og sparað sendingarkostnðinn.
Á fimmtudeginum vann ég að undirbúningi fundar veituráðs sem á dagskrá var vikunni á eftir og skoðaði einnig mál á dagskrá fyrir næsta fund landbúnaðarráðs sem var ákveðið að fresta þar til fleiri mál liggja fyrir. Alger óþarfi að funda bara til að funda. Á fimmtudeginum vann ég líka að undirbúningi stjórnarfundar Leigufélagsins Bústaðar en nýverið var auglýst íbúð til leigu á Lindarvegi. Ég vann einnig að undirbúningi hátíðarfundar sveitarstjórnar sem líka var á dagskrá vikunnar á eftir. Tilefnið er að í júní eru 25 ár síðan sveitarfélagið var stofnað. Fundurinn er öllum opinn eins og sveitarstjórnarfundir eru jafnan og við hvetjum íbúa sérstaklega til að koma. Öllum aðalmönnum í sveitarstjórn frá stofnun sveitarfélagsins hefur verið boðið sérstaklega til fundarins. Að honum loknum verður boðið upp á kaffiveitingar að hætti kvenfélagskvenna.
Föstudagurinn hófst eins og jafnan á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Að honum loknum tók við ánægjulegt embættisverk þegar undirritaður var samningur um 15 milljóna króna styrk milli SSNV og Húnaþings vestra vegna vatnslagnar frá Hvammstanga að Laugarbakka. Þó styrkurinn dekki aðeins hluta kostnaðar við verkið munar þó sannarlega um hann. Útboð verksins hefur þegar farið fram og fyrir næsta sveitarstjórnarfundi liggur tillaga um að ganga að tilboði Agnars Sigurðssonar í verkið. Gera má ráð fyrir að það hefjist innan tíðar.
Frá undirritun samkomulagsins um styrkinn.
Það sem eftir lifið föstudags kláraði ég og sendi út fundarboð byggðarráðs sem og veituráðs. Ég skoðaði jafnframt styrkúthlutanir Atvinnu- og nýsköpunarsjóðs sveitarfélagsins frá upphafi en umsóknarfrestur til næstu úthlutunar rennur út 8. júní. Hvet ég öll þau sem hafa hugmynd að nýsköpunarverkefni að sækja um.
Sjómannadagurinn var á sunnudaginn og var sérstaklega ánægjulegt að fyrir tilstuðlan nokkurra öflugra aðila í Félagi eldri borgara undir forystu Jónínu Sigurðardóttur voru hátíðarhöld á Hvammstanga. Hófust þau á sjómannadagsmessu á Bangsatúni. Þaðan var gengið með blómsveig að minnismerkinu um drukknaða sjómenn í garðnum við VSP húsið. Þar var í framhaldinu kaffisala á vegum Félags eldri borgara ásamt glæsilegri sýningu á munum sem tengjast sjómennsku og félagsmenn höfðu sett upp. Meðan gestir nutu glæsilegra veitinga voru sungin sjómannalög með hárri raust. Ég vil þakka þeim sem að þessum hátíðarhöldum stóðu kærlega fyrir þetta frábæra framtak. Mér þykir sérstaklega vænt um sjómannadaginn og mér hlýnaði um hjartarætur við að fá að taka þátt í hátíðarhöldunum. Fjölmenni var við messuna og söng kirkjukórinn einstaklega vel. Ég fékk kusk í augað þegar þau sungu Ísland ögrum skorið dásamlega fallega raddað við minnismerkið þegar blómsveigurinn var lagður þar að.
Sjómannadagsmessa á Bangsatúni.
Ég læt að lokum fylgja með mynd af vélbátnum Valborgu GK243 sem fórst í febrúar 1965. Skipverjarnir á bátnum, Hreinn og Skúli Húnn Hjartarsynir, bræður pabba, fórust með bátnum. Hreinn var þá 28 ára og Skúli tvítugur. Ég ber nafn bátsins sem mér þykir óskaplega vænt um.