Vikan 10.-16. október 2022
Leonardo da Vinci á að hafa sagt: Tíminn er þeim nægur sem nota kann. Orð að sönnu. Ég hef fundið í starfi sveitarstjóra að það að nýta tímann vel er lykilatriði. Sérstaklega þegar koma vikur þar sem fjarverur eru miklar. Eins og þessa vikuna.
Ég hóf vikuna á spjalli við Björn Þór í morgunútvarpi Rásar 1. Þar ræddum við veður og vegi auk frétta úr sveitarfélaginu. Fyrir áhugasama er viðtalið hér og hefst á 59. mínútu. Að því loknu brunaði ég yfir í austursýsluna. Þar byrjaði ég á að hitta Birnu Ágústsdóttur sýslumann. Ræddum við leiðir til að bæta þjónustu sýslumanns í Húnaþingi vestra. Að þeim fundi loknum fundaði almannavarnanefnd Húnavatnssýslna. Í henni sitja sveitarstjórar sveitarfélaganna auk fulltrúa lögreglunnar. Megin umræðuefnið var störf nefndarinnar og efling þeirra. Strax í kjölfarið settist ég stuttlega niður með nýjum sveitarstjóra Húnabyggðar. Ræddum við ýmis sameiginleg hagsmunamál sveitarfélaganna.
Byggðarráðsfundur var á sínum stað strax eftir hádegið. Þar bar hæst opnun tilboða í húseignina Hvammstangabraut 10, þar sem tónlistarskólinn var til húsa. Tvö tilboð bárust og var mér falið að ganga til samninga við hæstbjóðanda. Af öðrum liðum má nefna drög að endurskoðuðum reglum um úthlutun byggingarlóða, var farið yfir drögin og mér falið að gera athugasemdir. Stefnt er að því að reglur í Húnavantssýslunum verði samræmdar þar sem byggingafulltrúaembættið er sameiginlegt. Aðiri liðir voru hefðbundnir, mál lögð fram til kynningar, fundargerðir og umsagnarbeiðnir. Fundargerðin er hér. Að byggðarráðsfundi loknum kom Magnús Barðdal verkefnissjóri fjárfestinga hjá SSNV og fór yfir hugmyndir að vinnu til að marka stefnuna með tilliti til uppbyggingar atvinnulífs í sveitarfélaginu. Þarfur og góður fundur og vilji til að vinna málið áfram.
Ég tók þriðjudaginn snemma sem endranær. Mér finnst mjög gott að mæta upp úr kl. 7 á skrifstofuna og nýta fyrsta klukkutímann í ró og næði. Morgunverkin eru nefnilega drjúg. Um hádegið lagði ég af stað suður svo ég notaði morguninn til að ganga frá ýmsum málum. Auk þess hitti ég Björn Líndal, kaupfélagsstjóra. Fórum við yfir ýmis mál, m.a. ganginn í Kaupfélaginu, hugmyndir um atvinnuuppbyggingu og margt fleira. Það verður seint ofsögum sagt að við búum ákaflega vel að eiga eins öflugt kaupfélag hér í sveitarfélaginu. Það geta ekki öll samfélög af okkar stærðargráðu státað af því.
Um hádegið lagði ég af stað suður eins og fram hefur komið. Ég var farþegi svo ég notaði tímann til ýmissa verkefna í tölvunni. Seinnipartinn var ég svo við jarðarför góðs vinar Gísla J. Friðjónssonar sem lést 1. október sl. Gísli var pabbi einnar af mínum bestu vinkonum og var ég heimagangur hjá þeim á menntaskólaárunum. Hann og Hafdís kona hans hafa alla tíð reynst mér afar vel. Ég minnist Gísla með mikilli hlýju og væntumþykju. Hann var stórmenni á allan hátt, traustur, afburða greindur, vinnusamur og snjall í viðskiptum, bóngóður og treysti fólki. Með honum er genginn drengur góður.
Ég var því fjarverandi á sveitarstjórnarfundinum sem fór fram síðdegis á þriðjudeginum. Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs er staðgengill sveitarstjóra og sat því fundinn fyrir mína hönd. Á fundinum voru fundargerðir yfirfarnar og staðfestar auk þess sem tilnefndir voru varamenn í stjórn Selaseturs og kjörstjórn. Sveitarstjórn staðfesti tillögu byggðarráðs um að stofnaður yrði starfshópur til að móta stefnu um eignir, jarðir og lendur sveitarfélagsins. Voru Magnús Magnússon, Friðrik Már Sigurðsson og Magnús Vignir Eðvaldsson skipaðir í hópinn. Erindisbréf hópsins er aðgengilegt hér. Fundargerð fundarins er svo aðgengileg hér.
Ég var áfram í Reykjavík þar sem fjármálaráðstefna Sambands Íslenskra sveitarfélaga var haldin fimmtudag og föstudag. Á miðvikudeginum áttum við svo bókaðan fund með RARIK og heimsókn á Alþingi. Fyrri hluta dags nýtti ég ásamt sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs í ýmsar útréttingar fyrir sveitarfélagið. Náðum að taka með ýmislegt sem annars hefði verið pantað og sent til að spara sendingarkostnað. Það munar um hverja krónu.
Fundurinn með RARIK var mjög góður. Við fengum kynningu á stöðu mála í sveitarfélaginu og fórum yfir okkar helstu áherslumál. VIð þökkuðum þá flýtingu sem orðið hefur á lagningu raflína í jörð og lögðum áherslu á að áætlanir um lok þess verkefnis myndu ganga eftir.
Sveitarstjórn og fulltrúar RARIK.
Að fundi loknum ókum við sem leið lá í Alþingishúsið. Þar tók Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra á móti okkur og fór með okkur í kynnisferð um húsið. Það var gama að fara um þetta sögufræga hús og hitta þingmenn og aðra starfsmenn.
Sveitarstjórnarfulltrúar og sveitarstjóri ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra.
Fjármálaráðstefnan hófst á fimmtudagsmorgun. Dagskráin var fjölbreytt og upplýsandi. Fyrir áhugasöm þá var hún tekin upp og eru erindin aðgengileg hér. Ráðherrar fluttu ávörp og eðli málsins samkvæmt voru fjármál fyrirferðamikil í erindum. Erindin fjölluðu meðal annars um afkomu sveitarfélaga og horfur til næstu ára, þjónustu við fatlað fólk, úrgangsmál, gagnasöfnun og farsæld barna. Um kvöldið voru svo haldin hóf fyrir ráðstefnugesti. Er þeim skipt eftir kjördæmum og hittust ráðstefnugestir úr NV kjördæmi á Hilton og gerðu sér glaðan dag.
Fulltrúar Húnaþings vestra á fjármálaráðstefnnunni.
Hefðbundinn föstudagsfundur með oddvita og formanni byggðarráðs var með óvenjulegu sniði í morgunverðarsal hótelsins. Fórum við yfir helstu mál og settum saman dagskrá byggðarráðsfundar mánudagsins sem ég náði að setja upp og senda út á milli stríða á ráðstefnunni sem stóð til hádegis.
Að henni lokinni fórum við á fund með Vegagerðinni í höfuðstöðvunum í Suðurhrauni. Þar tóku Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri og Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs á móti okkur. Áttum við góðar umræður um vegamál og eðlilega var Vatnsnesvegurinn nefndur nokkrum sinnum. Er þetta annar fundurinn með Vegagerðinni á mjög stuttum tíma enda er það mikið áhersluatriði sveitarstjórnar að gera allt sem hægt er til að hraða framkvæmdum við veginn hvort sem það er í gegnum samgönguáætlun eða nýstarlegri hugmyndum líkt og þeim sem kynntar voru í síðustu viku. Glöggir lesendur kannast líklega við Guðmund Val en hann er sonur Guðmundar Sigurðssonar sem starfað hefur um árabil á starfsstöð Vegagerðarinnar á Hvammstanga. Hann var ekki sá eini sem við hittum sem á ættir að rekja í Húnaþing vestra. Í anddyrinu rákumst við á mann sem var með Kormáks trefil og húfu. Engan annan en Björgvin Brynjólfsson. Við máttum til með að smella af honum mynd með þessa fallegu fylgihluti. Það er nú ekki svo að hann klæðist þeim alla jafna en þennan föstudag var bleikur dagur.
Björgvin Brynjólfsson sveitungi okkar og forstöðumaður hjá Vegagerðinni með fylgihlutina á hreinu.
Þá var ekkert annað eftir en að halda heim á leið. Vorum við komin í eftirmiðdaginn. Ekki fór ég nú í vinnuna þann daginn heldur beint heim til að hitta börnin enda búin að vera að heiman frá því á þriðjudeginum. Urðu fagnaðarfundir. Eiginmaðurinn hafði farið til vinnu um morguninn svo hann hitti ég ekki fyrr en á sunnudag. Við nánast mættumst á heiðinni – ekki í fyrsta skiptið. Eitthvað verður um fjarveru í næstu viku en svo fer nú að hægjast um sem er vel. Það verður að vera tími til að ”vinna”. Þar sem skrifborðstíminn var takmarkaður í vikunni nýtti ég tímann á heimleiðinni til að skrifa dagbók sveitarstjóra þar sem oddviti tók að sér aksturinn. Á sunnudeginum leit ég við á skrifstofunni og tók aðeins til, undirbjó fund byggðarráðs og gekk frá ýmsum málum til að ég myndi byrja komandi vinnuviku með nokkuð hreint borð. Þess utan átti ég góða helgi með mínu besta fólki.