Vikurnar 2. - 14. apríl
Aftur er hér slegið saman tveimur vikum og stiklað á stóru í upptalningarstíl.
Vikan hófst á þriðjudegi í þetta skiptið eftir ágætt páskafrí þó veðrið hefði mátt vera betra. Á þriðjudeginum sat ég við skrifborðið fyrri hluta dags og undirbjó meðal annars landbúnaðarráðsfund. Eftir hádegið átti ég stutt spjall við fréttamann RÚV vegna fyrirhugaðrar lokunar á póstafgreiðslunni á Hvammstanga. Afstaða sveitarfélagsins kemur skýrt fram í umsögn byggðarráðs um málið sem sveitarstjórn gerði að sinni. Seinnipart dags og fram yfir kvöldmat sat ég áhugavert námskeið á vegum lögreglunnar um hlutverk aðgerðastjórna í héraði. Rögnvaldur Ólafsson frá almannavörnum fór ítarlega yfir þetta mikilvæga viðfangsefni.
Auk landbúnaðarráðsfundar á miðvikudeginum fengu starfsmannamál nokkra athygli og sömuleiðis málefni hitaveitunnar. Eftir vinnu sat ég svo fund Rótarýklúbbsins míns. Vissulega ekki hluti af störfum mínum sem sveitarstjóri en starf sem er mér mikilvægt. Rótarýklúbbar eru starfræktir um allan heim og sá sem ég er félagi í hittist hálfsmánaðarlega á netinu sem hentar mér mjög vel. Á fundum fáum við fræðsluerindi frá hinum ýmsu aðilum í þetta skiptið fengum við kynningu á starfsemi Íslandsbanka frá einum framkvæmdastjóra bankans. Mjög fróðlegt. Þau sem eru áhugasöm um starf Rótarý geta haft samband við mig og ég býð þeim á fund :)
Á fimmtudeginum hóf ég svo leika á því að vera starfsmaður í þjálfun í áhaldahúsinu. Ég sat hefðbundinn morgunfund þar sem farið var yfir verkefni dagsins. Þennan morguninn var vatnsveitan áberandi en einhver bilun hafði komið upp um nóttina sem gerði það að verkum að vatnsstaðan í vatnstankinum á Hvammstanga var óvenjulega lág. Fór hluti starfsmanna í að skoða málið. Við Beggi, leiðtogi veitna, fórum hins vegar rúnt í dæluhús hitaveitunnar til að skoða hvort ekki væri allt eins og það á að vera og ræsa varaafls-dísilvélar. Þær þarf að ræsa reglulega til að tryggja að þær fari í gang ef rafmagn fer af. Ég var í áhaldahúsinu til hádegis. Ég leit að því loknu aðeins við í Nestúni til að skoða framkvæmdir við endurbætur á einni íbúð þar. Þvínæst fór ég á skrifstofuna þar sem ég sinnti ýmsum verkefnum þar til ég lagði af stað til Reykjavíkur.
Hluti veitukerfisins á Reykjum.
Á föstudeginum vann ég stuttan dag. Ég hóf leika á Teams fundi með oddvita og formanni byggðarráðs eins og vant er þar sem við fórum yfir dagskrá byggðarráðsfundar og það sem efst var á baugi. Ég hafði fengið tvær beiðnir um símafund að þeim fundi loknum. Áður hefur komið fram að hægt er að panta tíma hjá starfsmönnum ráðhússins á netinu og hringja þeir þá á fyrirfram bókuðum tíma. Þetta hefur reynst til mikilla hægðarauka fyrir bæði þjónustuþega og starfsfólk ráðhússins. Sjá hér. Þá er einfaldlega valinn dagur og tími í boði, fundarbeiðandi skráir upplýsingar um sig og stuttlega lýsingu á erindi. Ég vil hvetja fólk til að nýta sér þennan möguleika.
Mánudagurinn í síðari vikunni sem her er til umfjöllunar hófst á fundi framkvæmdaráðs þar sem við fórun yfir helstu verkefni en einnig drög að ársreikningi sveitarfélagsins. Að þeim fundi loknum brunaði ég á Blönduós á fund með Vegagerðinni og fulltrúum sveitarfélaganna í V- og A-Hún um almenningssamgöngur. Vegagerðin er að hefja vinnu við endurskoðun almenningssamgangna á landsbyggðinni og áttum við mikilvægt samtal um þjónustuna. Það var gott að fá tækifæri til að koma á framfæri því sem íbúar í Húnaþingi vestra hafa kvartað um í gegnum tíðina og vonandi verður tekið tillit til þeirra athugasemda við endurskoðun þjónustunnar. Því miður er það svo að þjónustan eins og hún hefur verið nýtist íbúum ekki nema að takmörkuðu leyti. Á milli messa þarna um morguninn sendi ég út fundarboð sveitarstjórnarfundar sem var í þetta skiptið á dagskrá á miðvikudegi þar sem ársþing SSNV bar upp á fimmtudag. Eftir hádegið var svo byggðarráðsfundur. Þar bar hæst að tilboði hæstbjóðanda í jörðina Engjabrekku var tekið og samþykkt á slagorði fyrir sveitarfélagið. Það síðarnefnda kemur til vegna hugmynda sem komu fram í íbúakönnun á síðasta ári. Þar komu fram fimm góðar tillögur og var íbúum boðið að kjósa um þær. Var kosningin kynnt á heimasíðu sveitarfélagsins og á facebook. Tillagan sem var hlutskörpust var Húnaþing vestra – lifandi samfélag, sem eru svo sannarlega orð að sönnu. Á fundinum var ég einnig skipuð í starfshóp að beiðni Félags eldri borgara í Húnaþingi vestra. Hefur hópurinn það hlutverk að vinna að þróun sk. lífsgæðakjarna á svæðinu vestan við Nestún. Virkilega spennandi verkefni sem ég hlakka til að vinna með okkar öfluga Félagi eldri borgara. Að síðustu var farið yfir ársreikning ársins 2023 og honum vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar. Fundargerð byggðarráðs er hér.
Á þriðjudeginum hóf ég leika á undirbúningi fyrir sveitarstjórnarfund og þar á eftir sat ég fund Umhverfissofnunar sem bar yfirskriftina Saman gegn sóun. Fundur sem haldinn var í Hofi á Akureyri en ég sat hann í streymi. Áhugaverður og hvetjandi fundur um leiðir til að minnka úrgang. Eftir hádegið sat ég fund með Hesteigendafélagi Hvammstanga um ýmis málefni sem tengjast starfsemi félagsins. Ég fundaði þar á eftir með fulltrúa Terra í tengslum við sorpmál í sveitarfélaginu en eins og oft hefur verið nefnt í dagbókarfærslum er unnið að því að leysa sorpmál í sveitarfélaginu. Markmið okkar hefur verið að finna leiðir til að uppfylla þær stórauknu kröfur sem settar eru með lögum á sveitarfélög án þess að það kalli á aukinn kostnað fyrir íbúa. Með lögum er sveitarfélögum ekki heimilt að greiða með þjónustunni eins og tíðkast hefur í Húnaþingi vestra um langt árabil þar sem málaflokkurinn hefur verið greiddur niður um allt að helming. Kröfur sem nú eru settar á sveitarfélög kalla á að í þéttbýli sé fjórum úrgangsflokkum safnað við húsvegg, þ.e. almennu sorpi, lífrænum úrgangi, pappa og plasti. Engu af þessu má blanda saman. Þessar auknu kröfur flækja málið og kalla á stóraukinni kostnað, sérstaklega í víðfeðmum sveitarfélögum sem ríkið mætir ekki nema að mjög takmörkuðu leyti. Því má færa rök fyrir því að þessar auknu lagakröfur séu enn einn landsbyggðaskatturinn. Sorpmálin eru sem sagt ennþá í vinnslu og vonandi náum við að kynna lausn í sumar og hefja framkvæmd skv. henni með haustinu.
Á miðvikudagsmorgun fundaði starfshópur um lífsgæðakjarna sem ég nefndi hér að framan. Fórum við yfir fyrstu skref og fékk ég nokkur verkefni til að sinna eftir fund. Undirbúningur sveitarstjórnarfundar tók svo nokkurn tíma og fundurinn sjálfur var svo eftir hádegið. Meirihluti sveitarstjórnar hittist kl. 13 og fer yfir helstu mál. Minnihlutinn kemur svo til fundar kl. 14 til undirbúnings og fundurinn hefst svo kl. 15. Fundurinn var óvenju langur í þetta skiptið þar sem endurskoðandi sveitarfélagsins kom til fundar og kynnti ársreikning ársins 2023. Ársreikning þarf að taka til tveggja umræðna skv. sveitarstjórnarlögum og mun seinni umræðan fara fram á maí fundi sveitarstjórnar. Niðurstaða reikningsins verður kynnt að þeim fundi loknum. Ég get þó sagt að útkoman var mun betri en gert hafði verið ráð fyrir. Kemur það til vegna aukinna tekna, m.a. frá útsvari sem er afar gleðilegt, en einnig eru nær allar deildir undir áætlun ársins. Segir það til um ráðdeild forstöðumanna stofnana sveitarfélagsins. Það er ábyrgðarhluti að fara með skattfé. Ég er afar stolt af okkar fólki sem fer vel með sameiginlega sjóði okkar allra.
Á fimmtudeginum var svo ársþing SSNV haldið á Blönduósi. Þar fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf og kynning á starfsemi samtakanna. Þar sem ég áformaði að sitja ráðstefnu á Akureyri daginn eftir þá fundaði ég með oddvita og formanni byggðarráðs að þeim fundi loknum í stað þess að funda á föstudagsmorgni. Ég ók svo til Akureyrar að þeim fundi loknum en á leiðinni sat ég fulltrúaráðsfund Stapa lífeyrissjóðs en þar er ég fulltrúi sveitarfélagsins. Ekki ónýtt að ná að nýta tímann á leiðinni til fundarsetu.
Á föstudeginum sat ég mjög áhugaverða ráðstefnu um skólamál í Hofi á Akureyri sem haldin var af Ásgarði skólaráðgjöf sem einnig rekur Skóla í skýjunum. Virkilega áhugaverð ráðstefna um strauma og stefnur í þessum mikilvæga málaflokki í rekstri sveitarfélaga. Mér fannst sérstaklega gaman að sjá að á ráðstefnunni voru "litlu" skólarnir á landsbyggðinni áberandi og þær leiðir sem þar hafa verið farnar til að stórbæta skólastarf. Það er nefnilega ekki endilega samasem merki á milli stærðar og gæða í skólastarfi.
Ég leit við á skrifstofunni á laugardagsmorgni til að hreinsa eitt og annað upp. Á sunnudeginum sat ég svo fund Veiðifélags Miðfjarðarár sem fulltrúi sveitarfélagsins. Þess á milli átti ég góða helgi með fólkinu mínu.