10. febrúar 2025

Vikan 3.-9. febrúar 2025

Vikan hófst með hefðbundnum hætti með fundi framkvæmdaráðs. Í framkvæmdaráði sitja sveitarstjóri og sviðsstjórar. Fórum við eins og jafnan yfir helstu mál og lögðum línurnar fyrir vikuna. Síðar um morguninn undirritaði ég afsal vegna sölu á íbúðinni að Hlíðarvegi 25 sem seld var á dögunum. Eftir hádegið var á dagskrá byggðarráðsfundur. Efst á baugi á þeim fundi voru sérreglur vegna úthlutunar byggðakvóta en sveitarfélagið fékk 130 tonn til úthlutunar sem er sama magn og í fyrra. Einnig voru lögð fyrir drög að stefnu um vellíðan án tóbaks, áfengis og annarra vímuefna sem samþykkt var að setja í opið samráð á heimasíðu. Það hefur nú verið gert og hvet ég öll áhugasöm til að skoða skjalið og koma með ábendingar. Við höfum í sí auknu mæli sett hin ýmsu skjöl í opið samráð og hefur það gefist afar vel og verið viðkomandi verkefnum til mikilla bóta. Í því skiptir þátttaka öllu máli og vil ég þakka þeim sem gefa sér tíma til umsagna fyrir þeirra framlag. Fundargerð byggðarráðsfundarins er hér. Að fundi loknum tók við úrvinnsla fundar eins og hægt var en flestum erindum er svarað þegar sveitarstjórn hefur staðfest ákvarðanir. Ef mál eru með skilafrest áður en sá fundur fer fram eru þau eðlilega afgreidd fyrr og þá með fyrirvara um staðfestingu sveitarstjórnar. Allt verður þetta að fara sína leið í stjórnsýslunni.

Á þriðjudagsmorgni hófust leikar á upplýsingafundi Sambands íslenskra sveitarfélaga um stöðu mála í kjaraviðræðum en Sambandið fer með samningsumboð fyrir hönd sveitarfélaganna. Síðar um morguninn hitti ég svo skólastjóra leik-, grunn- og tónlistarskóla vegna stöðunnar sem ég hef þungar áhyggjur af. Vonandi nást samningar sem allra fyrst. Dagurinn fór að öðru leyti í ýmis skrifborðsverkefni og símtöl, svo sem mannauðsmál, yfirferð á nokkrum reglum og samþykktum o.fl. Undir lok vinnudags komu fulltrúar Qair Energy til fundar við sveitarstjórn vegna áforma um vindorkugarð í landi Sólheima í Dölum. Ef af verður koma sjónræn áhrif til með að verða nokkur í Húnaþingi vestra og því full ástæða til að fá góða kynningu á verkefninu. Í framhaldi af þeim fundi var haldinn opinn íbúafundur í Félagsheimilinu þar sem forsvarsmenn verkefnisins fóru yfir áformin og svöruðu fjölmörgum spurningum fundargesta.

Frá fundi sveitarstjórnar með Qair Energy.

Miðvikudagurinn hófst á fundi starfs- og kjaranefndar sem ég hef áður nefnt í dagbókarfærslum. Því næsta fundaði ég með Mílu vegna samkomulags okkar um lok á lagningu ljósleiðara í þéttbýli í sveitarfélaginu. Samkvæmt samkomulaginu á því verkefni að vera lokið eigi síðar en í lok árs 2026. Í ár eru uppi áform um að leggja ljósleiðara í öll íbúðarhús með skráð lögheimili á Laugarbakka. Þau áform hafa nú verið auglýst. Sjá hér. Í framhaldi af Laugarbakka verður lokið við tengingar á Hvammstanga en óvíst hvort það verður á þessu ári eða því næsta. Fram að hádegi vann ég svo í ýmsum verkefnum. Meðal annars í greinargerð vegna framkvæmda við Félagsheimilið á síðasta ári vegna styrks frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Fengum við 40 milljóna króna styrk í verkefnið á síðasta ári og á þessu ári verða veittar 43 milljónir í verkefnið sem nýtt verður til að klæða húsið að utan. Ég átti svo samtal við sýslumann vegna leyfismála í tengslum við skemmtanir og rekstrarleyfi fyrir samkomuhús og fleira. Veðurspáin ákvarðaði að einhverju leyti dagskrá síðari hluta miðvikudags enda rauðar viðvaranir seinnipart dags og fimmtudagsmorgun. Aðgerðastjórn var virkjuð og hættuástandi lýst yfir vegna viðvarananna og tilmæli um að fella niður skólahald sem við og gerðum. Hins vegar reyndist veðrið á fimmtudeginum ekki ná þeim styrk sem spáð hafði verið – langt frá því. Allur er varinn góður engu að síður enda veðurspár ekki óbrigðul vísindi. Öryggi skólabarna er alltaf í forgrunni og var ekki verjandi að halda úti skólastarfi með rauðar viðvaranir í gildi. Landbúnaðarráð var með boðaðan fund eftir hádegið á miðvikudeginum sem tekin var ákvörðun um að fresta um viku vegna veðurs. Ég tók þó tíma í að undirbúa hann, meðal annars að skoða fjallskil í sveitarfélaginu þar sem formenn fjallskiladeilda hafa verið boðaðar til fundar við ráðið. Það er ekki eftir það sem búið er.

Á fimmtudeginum skoðaði ég lítillega landeignaskrá HMS sem var gefin út í vikunni. Sveitarfélagið fékk tilkynningu um 10 jarðir í þess eigu sem búið er að áætla eignamörk á og fær 6 vikur til að gera athugasemdir. Ljóst er að gera þarf athugasemdir við nokkrar þessara jarða og vandséð að 6 vikur dugi til þess. Ég vil hvetja landeigendur í sveitarfélaginu til að skoða vel skráningu HMS og athuga hvort þeirra jarðir eru rétt afmarkaðar í skránni. Að þessu loknu tók við undirbúningur byggðarráðsfundar komandi mánudags ásamt yfirferð yfir umsóknir í Atvinnu- og nýsköpunarsjóð Húnaþings vestra sem verður til umfjöllunar byggðarráðs á næsta fundi. Í lok dags fór fram annar fundur verkefnisstjórnar óformlegra viðræðna um mögulega sameiningu Húnaþings vestra og Dalabyggðar. Á þeim fundi kynntu ráðgjafar frá KPMG fyrstu drög að rekstrarlíkani sveitarfélaganna til næstu 10 ára ásamt öðrum samanburði á sveitarfélagunum. Áfram verður haldið með þá vinnu og hún svo kynnt á íbúafundum sem eru áformaðir þegar líða fer að vori – en þó vel fyrir sauðburð.

Föstudagur hófst á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs eins og vanalega. Gengum við frá dagskrá byggðarráðsfundar. Að loknum fundi gekk ég frá henni og sendi út fundarboð ásamt því að undirbúa fundargerð fundarins. Ég svaraði jafnframt ýmsum fyrirspurnum og eitt og annað við skrifborðið. Ég hætti óvenju snemma og brá mér suður yfir heiðar en tók aðeins fram tölvuna í lok dags. Meðal annars til að taka saman niðurstöður starfsmannakönnunar sem lögð var fyrir nýlega.

Á laugardagskvöldinu var þorrablót Ungmennafélagsins Kormáks haldið í 68. sinn. Var blótið hin besta skemmtun, maturinn mjög góður og skemmtiatriðin frábær. Einn og hálfur tími af heimatilbúnu gríni um atburði liðins árs. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka þeim sem gáfu sér ómældan tíma í að undirbúa þessa skemmtun fyrir sín góðu störf. Það er ekki sjálfgefið að fólk gefi sér tíma í verkefni af þessum toga og hvað þá að þau séu innt eins vel af hendi og raunin er ár eftir ár. Sannir fagmenn á ferð.

Ég greip aðeins í tölvuna á sunnudeginum og vann meðal annars drög að umsögn um umhverfismatsskýrslu vegna Holtavörðuheiðarlínu 3 sem er til umsagnar hjá Skipulagsstofnun. Starfsmannamál fengu jafnframt athylgi en annar liður í geðheilbrigðisátaki sveitarfélagsins hefst í komandi viku. Ég yfirfór að lokum skipulag komandi viku en það er gott að skipuleggja sig vel áður en mætt er til vinnu á mánudagsmorgni til að vera búin að forgangsraða verkefnum – af nógu er að taka.

Var efnið á síðunni hjálplegt?