Vikan 15. – 21. janúar 2024
Það er óhætt að segja að lífið sé komið í sitt eðlilega horf eftir jólahátíðina. Einhver sagði að janúar væri lengsti mánuður ársins en ég ætla að leyfa mér að vera ósammála þeirri fullyrðingu. Janúar hefur rokið áfram á ógnarhraða. Enda í mörg horn að líta.
Vikan hófst með hefðbundnum hætti. Framkvæmdaráðsfundi, fundi með verkefnisstjóra umhverfismála og undirbúningi fyrir byggðarráðsfund sem fram fór eftir hádegið. Örn eigandi Hótels Laugarbakka kom inn á fundinn og fór yfir starfsemi Hótelsins. Á fundinum var bókað um styrk sem sveitarfélagið fékk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu til samþættrar sumarfrístundar á miðstigi. Um 1,5 millj. kr. styrk er að ræða. Það er ástæða til að þakka fyrir þann styrk því þó upphæðin sé ekki há þá munar sannarlega um allt. Verkefnið hjálpar okkur vonandi að bæta frístundastarf í sumar og gera betur við unga fólkið okkar í anda vinnu við innleiðingu verkefnisins um Barnvænt sveitarfélag.
Þriðjudagurinn hófst á mánaðarlegum stjórnendafundi með forstöðumönnum stofnana sveitarfélagsins. Á fundunum förum við yfir það sem efst er á baugi í hverri stofnun fyrir sig, mikilvægir upplýsingafundir með þessu einvala liði. Ég sat fund stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða en stjórnin hittist nú reglulega til að fara yfir umsóknir í sjóðinn. Þess utan sinnti ég ýmsum verkefnum, starfsmannamálum, var í samskiptum við lögmann sveitarfélagsins vegna ýmissa mála, fundaði með forstöðumanni einnar stofnunar og eitt og annað. Einnig fór ég yfir tímaskráningar þeirra starfsmanna sem undir mig heyra en launatímabil sveitarfélagsins er frá 16.-15. hvers mánaðar. Þegar tímaskráningar eru orðnar réttar fara þær til launafulltrúa sem sér um að reikna launin.
Á miðvikudagsmorgninum átti ég ásamt oddvita og formanni byggðarráðs fróðlegan fund með forstjóra byggðastofnunar, Arnari Má, og Sigríði Elínu og Hrund forstöðumönnum á stofnuninni. Þau kynntu starfsemi Byggðastofnunar og við ræddum samstarfsfleti. Eftir hádegið fékk ég svo kynningu á fyrstu niðurstöðum rannsóknar á byggðabrag í Húnaþingi vestra sem lögð var fyrir á vegum Bifrastar síðasta haust. Þegar niðurstöðurnar liggja endanlega fyrir er áætlað að halda opinn fund þar sem farið verður yfir þær. Það er gaman að segja frá því að þær eru í takt við fyrri niðurstöður þar sem íbúar Húnaþings vestra virðast vera ánægðari en íbúar nágrannasveitarfélaganna. Að þeim fundi loknum átti ég stuttan fund með Örvari framkvæmdastjóra Selasetursins um ýmis mál sem tengjast setrinu. Ég var framkvæmdastjóri Selasetursins í rúmlega tvö ár og átti þar mjög góðan tíma. Ég þekki því starfsemi þess nokkuð vel og fylgist alltaf með því úr fjarlægð. Starfsemi þess er samfélaginu mikilvæg en þar starfa nokkrir fræðimenn við rannsóknir. Til loka dags sinnti ég nokkrum starfsmannamálum, samþykkti reikninga og tók saman upplýsingar sem kjörinn fulltrúi hafði óskað eftir. Þar á eftir hringdi ég nokkur símtöl sem ég skuldaði. Ég vil nota tækifærið til að vekja athygli á því að nú er hægt að bóka símtal með sveitarstjóra (og reyndar fleiri starfsmönnum sveitarfélagsins) á vefnum. Sjá hér. Það er óskaplega gott þegar fólk bókar tíma – og ég tala nú ekki um lætur erindið fylgja með. Þá þarf enginn að bíða eftir að ná sambandi eða hringja mörgum sinnum ef fólk er vant við látið. Einnig er þá hægt að undirbúa samtalið til að nýta tímann sem allra best. Ég hvet fólk til að nýta sér þennan möguleika. Ég vann einnig í drögum að málstefnu Húnaþings vestra sem voru til umfjöllunar á síðasta byggðarráðsfundi. Ég segi betur frá henni í næstu dagbókarfærslu.
Fulltrúar Byggðastofnunar ásamt oddvita, sveitarstjóra og formanni byggðarráðs (við Kalli vorum vakandi á fundinum þó myndin gefi annað til kynna :))
Fimmtudagurinn var afar óhefðbundinn í starfi sveitarstjóra en ég var þá starfsmaður í þjálfun á leikskólanum. Ég setti mér það markmið um áramótin að vera starfsmaður í þjálfun í einn dag í öllum stofnunum sveitarfélagsins og var leikskólinn fyrstur í röðinni. Ég átti frábæran dag og eignaðist nokkra litla vini. Það vildi þannig til að óvenju margir starfsmenn voru veikir þennan dag svo ég var allan tímann með elstu börnunum og tók þátt í þeirra starfi. Það var gaman að fá að kynnast því. Ég þakka starfsfólkinu sem ég fékk að vinna með kærlega fyrir góðar móttökur og ekki síst krökkunum sem skildu ekkert í hvaða nýi kennari þetta væri. Næsta heimsókn mín verður í Grunnskólann innan tíðar. Ég hlakka til en fyrir þau sem ekki vita þá er ég kennari að mennt þó ég hafi aldrei starfað sem slíkur (nema í námskeiðahaldi fyrir fullorðna).
Nokkrir litlir vinir í skemmtilegum leik í stóru kubbunum. Í leiknum tóku þátt ýmsar kynjaverur, hundar, mömmur, pabbar, systur, bræður, frændur og frænkur :)
Föstudagurinn hófst eins og jafnan á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Þar förum við yfir dagskrá byggðarráðsfundar í komandi viku og þau mál sem efst eru á baugi. Yfir vikuna safna ég saman á lista málum sem þarf að ræða og við tökum snúning á þeim á skrifstofu sveitarstjóra. Nauðsynlegir fundir að mínu mati til að leggja línur og ekki síður upplýsa um stöðu mála. Að þeim fundi loknum heyrði ég í fréttamanni á RÚV á Akureyri sem tók við mig stutt viðtal um mönnuðu lögreglustöðina á Hvammstanga sem var formlega opnuð á dögunum. Viðtalið var svo leikið í hádegisfréttum á sunnudeginum. Í lok dags kom ég nýjum fjarfundabúnaði í fundarherbergi á neðri hæð ráðhússins í gagnið. Nýverið gerðum við breytingar á skrifstofuskipan í ráðhúsinu sem gerði okkur kleift að bæta við einu fundarherbergi sem nú er komið í gagnið með fullkomnum fjarfundabúnaði. Tilgangur breytinganna var ekki bara til að fjölga fundarherbergjum heldur líka til að auka öryggi starfsmanna en því miður færist í vöxt að opinberum starfsmönnum sé ógnað við störf sín þó á það hafi ekki reynt hjá okkur í Húnaþingi vestra. Ég vona svo sannarlega að svo verði áfram en ég vil vera við öllu búin og alls ekki að starfsfólk upplifi óöryggi við störf. Við munum því vinna í frekari breytingum til að bæta öryggi í Ráðhúsinu á næstu vikum og mánuðum. Ekki er um flóknar eða kostnaðarsamar breytingar að ræða heldur meira skipulagslegar og breytingar á vinnulagi – en þó þarf að ráðast í smávægilegar breytingar á húsakynnum. Ég segi betur frá því þegar þar að kemur.
Yfir vikuna hafði ég þegar tími gafst til unnið í umsókn í lið C1 á byggðaáætlun – sértæk verkefni sóknaráætlunarsvæða. Síðari hluti föstudags fór jafnframt í þá umsókn sem og helgin nær öll. Verkefni sem þetta er erfitt að hlaupa í heldur verður að gefa sér tíma til að leggjast yfir, verkefnislýsing, verkáætlun, kostnaðaráætlun og allt sem því fylgir. Við fengum einmitt 15 millj. kr. styrk úr þessum potti á síðasta ári til lagningar vatnslagnarinnar fram á Laugarbakka og því eftir nokkru að slægjast. Á landsvísu eru 130 milljónir í pottinum. Verkefnið sem nú var sótt um til er afar spennandi og snýr í mjög stuttu máli að eflingu nýsköpunar í sveitarfélaginu. Greini betur frá því þegar ljóst verður hvort styrkur fæst eða ekki.
Ég vil þakka þeim sem hafa heyrt í mér og lýst ánægju með dagbókarfærslurnar. Ég geri mitt allra besta til að birta þær vikulega en þó verður einstaka sinnum messufall og bið ég áhugasama lesendur að fyrirgefa það. Það kann líka að vera að eitthvað markvert gleymist hreinlega og ekki er unnt að greina frá öllu sem fram fer en ég stikla á stóru og reyni að greina frá því helsta hverju sinni.