25. dagbókarfærsla sveitarstjóra lítur hér dagsins ljós. Það hefur reynst mér góð yfirferð yfir liðna viku að skrifa dagbókina hverju sinni. Það rifjast oft upp verkefni sem annars hefðu hugsanlega gleymst svo ekki sé minnst á að þessi stuttu skrif minna mann á að þrátt fyrir allt og allt þá vinnst nú ýmislegt þó margt vildi maður sjá gerast hraðar.
En nóg um það.
Mánudagurinn var með hefðbundnu sniði. Byggðarráðsfund bar þar hæst. Þar kenndi ýmissa grasa. Lögð var fram skýrsla um stjórnsýsluskoðun Húnaþings vestra í tengslum við endurskoðun sveitarfélagsins. Kom skýrslan ljómandi vel út. Einnig var lögð fram kæra vegna álagningar fjallskila á jörðina Flatnefsstaði og mér falið að svara kærunni í samráði við lögmann sveitarfélagsins. Nokkur fundarboð voru lögð fram enda fer nú í hönd tími ársfunda. Einnig voru samþykktar breyttar reglur um námsstyrki til starfsmanna Húnaþings vestra. Þeir styrkir eiga við þegar fólk sækir nám sem tengist starfi viðkomandi hjá sveitarfélaginu og er á formi leyfa frá vinnu vegna náms. Nokkuð er um að starfsmenn nýti sér þetta sem er vel. M.a. var umsóknarfresti seinkað um mánuð þar sem brögð voru að því að fólk væri ekki búið að fá svar um skólavist þegar umsóknarfresturinn rann út. Byggðarráð samþykkti reglurnar og vísaði þeim til afgreiðslu sveitarstjórnar. Fundargerðin er aðgengileg hér. Að byggðarráðsfundi loknum sat ég svo fund um fjallskilamál.
Á mánudeginum birtum við auglýsingu um starf verkefnistjóra umhverfismála. Virkilega spennandi starf sem m.a. felur í sér umsjón með vinnuskóla, ábyrgð á útliti og ásýnd sveitarfélagsins auk umsjónar með fjölbreyttum innleiðingaverkefnum. Umsóknarfrestur er til 4. apríl nk. Nánari upplýsingar eru hér. Við hvetjum öll áhugasöm til að sækja um. Heyrst hefur að næsti yfirmaður sé alveg ágætur ;)
Þriðjudagurinn hófst á fundi með stjórnendum stofnana sveitarfélagsins. Eins og áður hefur komið fram í dagbókarfærslum hittist hópurinn mánaðarlega. Hver og einn fer yfir það sem efst er á baugi í sinni stofnun/sviði og ég fer yfir helstu atriði síðasta sveitarstjórnarfundar auk annarra atriða til upplýsinga. Það er brýnt að hittast reglulega til að fara yfir helstu mál, miðla upplýsingum og fá upplýsingar. Deginum lauk svo á fundi með sveitarstjórn og framkvæmdastjóra ásamt verkefnisstjóra fjárfestinga hjá SSNV. Til umræðu var aðstoð SSNV við að skilgreina helstu áherslur í atvinnumálum sveitarfélagsins. Brýnt verkefni sem farið verður í á næstu vikum. Á milli þessara tveggja funda var skrifborðstími. Ég fór yfir ýmis mál, svo sem skrif á dagbók síðustu viku, hófst handa við gerð lokaskýrslu vegna styrks frá Orkustofnun vegna uppsetningar rafhleðslustöðva, samþykkti reikninga, vann í ýmsum málum sem tengjast sorpútboði og nokkur starfsmannamál fengu athygli. Eftir vinnu brenndi ég svo suður þar sem ég sat ársfund Íslandsstofu seinnipartinn á miðvikudeginum. Til að þurfa ekki að taka miðvikudaginn í akstur vann ég þaðan áður en fundurinn hófst. Sat m.a. fund um hringrásarhagkerfið sem var á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Auk þess vann ég áfram í að skoða gögn í tengslum við sorpútboð, fjallskilamál fengu athygli, var í samskiptum við fréttamann vegna fréttar á Vísi um vegaframkvæmdir á Vatnsnesi og vann í samantekt á innviðum sveitarfélagsins svo fátt eitt sé talið.
Á fimmtudeginum hóf ég undirbúning næsta fundar landbúnaðarráðs með því að skoða starfsáætlun og hvað liggur fyrir fundinum. Einnig rýndi ég ásamt sviðsstjóra fjölskyldusviðs tilboð sem barst í ræstingu á stofnunum sveitarfélagsins. Þvínæst fundaði ég vegna grenjavinnslu í sveitarfélaginu og átti svo góðan fund með forsvarsmönnum hesteigendafélagsins vegna beitarlands sem félagið hefur haft til umráða mörg undanfarin ár. Annað á borðinu þann daginn voru sorpmál, málefni slökkviliðs en fljótlega verður auglýst eftir nýjum slökkviliðsstjóra, starfsmannamál voru til umfjöllunar og einnig verkefnið Barnvænt sveitarfélag sem við munum gerast aðilar að innan tíðar. Ég átti svo stutt samtöl annars vegar við sviðsstjóra fjölskyldusviðs og formann öldungaráðs og hins vegar við sviðsstjóra fjölskyldusviðs og forstöðumann íþróttamiðstöðvar. Í íþróttamiðstöðinni eru nú að hefjast umfangsmiklar framkvæmdir sem leiða til lokunar laugarinnar fram á sumar. Nánari upplýsingar er að finna hér. Í lok dags hitti ég Ágúst Ólafsson fréttamann á RÚV ásamt myndatökumanni við Kárastaði. Tók hann við mig stutt viðtal um fyrirhugaðar framkvæmdir við Vatnsnesveg sem loksins hafa verið boðnar út. Þó svo að áfanginn sé mikilvægur er þó enn nóg eftir og brýnt að halda til haga mikilvægi þess að þoka verkefninu framar á samgönguáætlun. Viðtalið er að finna hér og hefst ca. á 19. mínútu. Óhætt að segja að dagurinn hafi verið viðburðaríkur og fjölbreyttur. Alveg eins og við viljum hafa það.
Það var napurt við Kárastaði þegar viðtalið var tekið. Blés köldu að norðan.
Eins og vant er hófst föstudagurinn á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Eftir hádegið voru svo opnuð tilboð í skólaakstur og akstur með eldri borgara. Tilboð bárust í allar leiðir og nú stendur yfir úrvinnsla úr tilboðum. Á laugardeginum átti ég æsispennandi dag við skrifborðið þar sem ég vann minnisblað fyrir byggðarráð um sorpmál, stöðu mála í tengslum við fyrirhugað útboð og þau mál sem taka þarf afstöðu til svo ljúka megi við útboðsgögn. Einnig vann ég minnisblað fyrir byggðarráð um fyrirhugaðar breytingar á regluverki jöfnunarsjóðs en það mál er í umsagnarferli í samráðsgátt stjórnvalda. Miðað við þær breytingar sem lagt er upp með munu framlög til Húnaþings vestra standa í stað.
Eftir langan laugardag var kærkomið að fá frí á sunnudeginum. Þann dag hófst afmælismaraþon fjölskyldunnar en frá 26. mars til 1. apríl eiga þrír heimilismeðlimir afmæli (fjórir ef Perla hundurinn okkar er talin með) auk brúðkaupsafmælis. Guðni Þór er fyrstur í röðinni og bauð hann fjölskyldunni í vöfflukaffi í tilefni dagsins.