Líklega er vískí það sem Skotland er þekktast fyrir en oft eru líka sagðar gamansögur af meintri nísku Skota. Ekki gat ég sannreynt mýtuna um níska skotann í kynnisferð sveitarstjórnarmanna á Norðurlandi vestra og Vesturlandi til Skotlands í liðinni viku. Var ferðin skipulögð af Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um byggðamál þar í landi í mjög víðu samhengi, einkum í hinum dreifðari byggðum. Hvarvetna var vel tekið á móti hópnum og engin níska þar við völd.
Lagt var af stað frá Keflavík eldsnemma á mánudagsmorgni og flogið til Glasgow. Þaðan var ekið sem leið lá til Inverness með viðkomu á Loch Ness þar sem skimað var eftir Nessie án árangurs. Í Inverness var gist í tvær nætur. Dagskráin þar samanstóð af heimsóknum í Highlands and Islands Enterprise sem er nokkurskonar atvinnuþróunarfélag svæðisins, Inverness Campus sem er þróunarfélag sem byggir upp aðstöðu fyrir samfélag fyrirtækja, einhverskonar suðupott samstarfs og nýsköpunar, og heimsókn í WASPS sem byggir upp aðstöðu fyrir vinnustofur listamanna ásamt sýningarrýmum og fleiru. Allar þessar heimsóknir voru afar áhugaverðar. Það sem stendur upp úr er hversu líkar áskoranir dreifðra byggða í Skotlandi eru áskorunum okkar í hinum dreifðu byggðum á Íslandi. Þar eins og hér felast áskoranirnar m.a. í húsnæðismálum, atvinnumálum, samgöngumálum, orkumálum, uppbyggingu innviða af ýmsum toga, lægri atvinnutekjum en á þéttbýlli svæðum o.s.frv. Munurinn felst hins vegar meðal annars í stuðningi hins opinbera við þróun þessara svæða sem virðist af því sem við sáum í ferðinni vera mun meiri og markvissari en raunin er hér á landi. Byggðastefnan í Skotlandi er ekki bara i orði heldur á borði. Með stuðningi sem munar um er hægt að gera magnaða hluti eins og við sáum til dæmis á Inverness Campus þar sem búið er að byggja upp aðstöðu fyrir fyrirtæki sem eru á heimsmælikvarða auk tækniskóla sem menntar nemendur í tækni- og iðngreinum.
Hópurinn í heimsókn í nýjustu byggingu Inverness Campus.
Eftir þessar heimsóknir var ekið til Edinborgar þar sem dvalið var í tvær nætur. Á leið þangað stoppuðum við í bænum Grantown on Spey og fengum kynningu á Cairngorms þjóðgarðinum, sögu hans og starfsemi. Hann er um margt sérstakur, m.a. fyrir þær sakir að innan marka hans eru nokkur þorp, heilmikil atvinnustarfsemi auk þeirrar starfsemi sem fer fram á vegum þjóðgarðsins svo sem í tengslum við ferðaþjónustu.
Caringorms þjóðgarðurinn.
Þegar til Edinborgar var komið heimsóttum við skoska sveitarfélagasambandið COSLA sem hefur það hlutverk að styðja við sveitarfélög í að takast á við áskoranir og grípa þau tækifæri sem þau standa frammi fyrir. Mér fannst erfitt að staðsetja sambandið í takt við veruleika okkar á Íslandi en það mætti segja að þau væru sambland af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, atvinnuþróunarfélögum og gömlu Nýsköpunarmiðstöðinni. Þar er unnið fjölbreytt starf á mörgum sviðum í stuðningi við sveitarfélögin.
Hópurinn í húsakynnum COSLA.
Það var mjög lærdómsríkt að kynnast byggðamálum í Skotlandi og sjá hvar við getum lært af þeim en ekki síst á hvaða sviðum við erum komin lengra því við erum svo sannarlega ekki eftirbátar á þeim öllum. Að fá tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn með þessum hætti er ómetanlegt ekki síst vegna þess að með því leyfir maður sér að hugsa stærra í þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir. Það er engin ástæða til að hugsa smátt í sveitarfélagi eins og Húnaþingi vestra þar sem allt er til alls og pláss bæði fyrir fleira fólk og fjölbreytta atvinnustarfsemi. Grunnurinn til að byggja á er sterkur og á sterkum grunni er hægt að byggja stórt.
Skotar eru mikið fyrir orðatiltæki. Þetta rakst ég á í hádegisverði við Loch Lochy (sem útleggst Vatnavatnið á íslensku) og mátti til með að smella af því mynd. Í þessu felst mikill sannleikur sem gott er að minna sig á þegar gefur á bátinn.