Sveitarstjóri

Sveitarstjóri Húnaþings vestra er Unnur Valborg Hilmarsdóttir.

Netfang Unnar er unnur@hunathing.is

Hægt er að bóka viðtal við sveitarstjóra hér.

Á árunum 2018-2022 starfaði Unnur sem framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Þar áður var hún framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands, einn stofnenda Vendum stjórnendaþjálfunar, framkvæmdastjóri DaleCarnegie á Íslandi og aðstoðarframkvæmdastjóri Hreyfingar heilsuræktar. Auk þessa starfaði Unnur sjálfstætt sem ráðgjafi og markþjálfi um árabil. Á kjörtímabilinu 2014-2018 var Unnur oddviti sveitarstjórnar í Húnaþingi vestra. Hún hefur jafnframt setið í fjölda nefnda og ráða, meðal annars í nefnd um endurskoðun landsskipulagsstefnu, verið formaður Ferðamálaráðs og Flugþróunarsjóðs og setið í stjórn Íslandsstofu.

Unnur er með meistarapróf (MPA) í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og B.Ed. próf frá Kennaraháskóla Íslands.  Hún hefur einnig lokið diplomanámi í rekstri og stjórnun frá Endurmenntun Háskóla Íslands og stjórnendamarkþjálfanámi frá Opna háskólanum og CoachU.  

Eiginmaður Unnar er Alfreð Alfreðsson, húsasmíðameistari og eiga þau 3 börn og eitt barnabarn. Unnur og fjölskylda eru búsett á Hvammstanga.

Samkvæmt 47. gr. samþykkta um stjórn Húnaþings vestra er hlutverk sveitarstjóra eftirfarandi:

Sveitarstjóri er æðsti yfirmaður annars starfsliðs Húnaþings vestra. Hann skal sjá um að stjórnsýsla sveitarfélagsins samræmist lögum, samþykktum og viðeigandi fyrirmælum yfirmanna.

Sveitarstjóri skal sitja fundi sveitarstjórnar. Þar hefur hann málfrelsi, tillögurétt og rétt til bókana en ekki atkvæðisrétt nema hann sé jafnframt kjörinn fulltrúi í sveitarstjórninni. Hann hefur jafnframt rétt til setu á fundum nefnda og ráða sem sveitarstjórn skipar.

Sveitarstjóri skal sjá um að fundir sveitarstjórnar, byggðarráðs og annarra nefnda sveitarstjórnar séu vel undirbúnir, m.a. í þeim tilgangi að mál sem þar eru afgreidd séu vel upplýst. Hann sér einnig um að ákvarðanir þær sem teknar eru af hálfu sveitarstjórnar og annarra nefnda komist til framkvæmda, hafi sveitarstjórn ekki falið það öðrum.

Sveitarstjóri er prókúruhafi Húnaþings vestra. Honum er heimilt að veita öðrum starfsmanni sveitarfélagsins prókúru að fengnu samþykki sveitarstjórnar. Prókúruhafar skulu vera fjár síns ráðandi. Sveitarstjóri undirritar skjöl varðandi kaup og sölu fasteigna sveitarfélagsins, lántökur og ábyrgðir, svo og önnur skjöl sem fela í sér skuldbindingar eða ráðstafanir sem samþykki sveitarstjórnar þarf til.

Staðgengill sveitarstjóra er sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

Sveitarstjóri situr fyrir hönd sveitarfélagins í almannavarnanefnd Húnvavatssýslna, framkvæmdaráði um samning um málefni fatlaðs fólks, framkvæmdaráði um samning um barnaverndarmál, verkefnaráði um Holtavörðuheiðarlínur I og III, fulltrúaráði Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands  og sem varamaður í heilbrigðisnefnd.

Unnur situr einnig í ráðgjafanefnd um endurskoðun landsskipulagsstefnu, ráðgjafanefnd um rannsóknir í ferðaþjónustu og í stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða skipuð af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. 

Auk þess hefur sveitarstjóri seturétt á þingum Sambands íslenskra sveitarfélaga og þingum Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra fyrir hönd sveitarfélagsins, með málfrelsi og tillögurétt. 

Var efnið á síðunni hjálplegt?