24. október 2022

Vikan 17.-23. október

Vikan hófst með hefðbundnum hætti á fundi framkvæmdaráðs. Óvenju mikið var á dagskrá fundarins svo honum var frestað eftir hefðbundinn fundartíma og lokið í lok dags. Að morngunfundinum loknum sat ég fund með framkvæmdastjórum sveitarfélaganna í V- og A-Hún vegna sorpmála en til stendur að bjóða sorphirðu sveitarfélaganna á svæðinu út sameiginlega. Verkfræðistofan EFLA hefur verið að leggja okkur lið í þessu verkefni og vonandi verða útboðsgögn tilbúin innan tíðar. Um áramót taka ný lög gildi sem gera meiri kröfur bæði hvað varðar hirðingu sorps en einnig varðandi gjaldtöku. Samkvæmt nýju lögunum verður sveitarfélögunum óheimilt að greiða með sorpinu eins og flest sveitarfélög hafa gert fram til þessa. Því er afar mikilvægt að ná fram sem allra mestri hagkvæmni og þess vegna var ákveðið að bjóða út sameiginlega.

Næsta vers var svo spjall við mannauðsstjóra Fjarðabyggðar um reglur um símanotkun hjá sveitarfélaginu. Símareglur eru meðal þeirra reglna sem þarf að uppfæra til að skýrt sé hvaða kostnað sveitarfélagið tekur á sig og hvaða kostnað ekki hjá þeim sem starfs síns vegna þarf að vera hægt að ná í utan vinnutíma. Það er gott að bera saman bækur í þessu sambandi og alger óþarfi að finna upp hjólið. Þess má geta að í Húnaþingi vestra gegnir sveitarstjóri hlutverki mannauðsstjóra sem er enn einn hatturinn af fjölmörgum. Þessir mörgu hattar eru einmitt eitt af því sem gera starf sveitarstjóra svo áhugavert.

Ég átti svo stuttan fund með Jessicu Húnaklúbbnum vegna hugmynda sem hún hefur um samfélagið og uppbyggingu þess en einnig fyrirhugaðrar heimsóknar finnskra ungmenna í næstu viku. Þeirra dagskrá er orðin þétt en þau munu meðal annars kynna verkefni sín fyrir byggðarráði. Mikilvægt og gott starf.

Byggðarráð fundaði svo að venju eftir hádegið. Fulltrúar úr stjórn Elds í Húnaþingi komu til fundar við ráðið og fóru yfir framkvæmd hátíðarinnar. Það er nauðsynlegt að taka stöðuna reglulega. Síðasta hátíð var sú 20. í röðinni og við erum afskaplega stolt af henni. Einnig var farið yfir styrkbeiðnir, erindi frá Veiðifélagi Miðfirðinga og fleira. Undir liðnum umsagnarbeiðnir var færð til bókar umsögn ráðsins um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum. Lýsti ráðið áhyggjum sínum af breytingunni og telur að með henni sé gengið á skipulagsvald og sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga. Fundargerðin er hér.

Þriðjudagurinn hófst á starfsmannafundi. Slíkir fundir eru haldnir mánaðarlega og farið yfir helstu atriði sveitarstjórnarfunda auk ýmissa mála sem ræða þarf. Vorum við m.a. að skipuleggja hvenær við ætluðum að setja jólaskraut upp í ráðhúsinu o.s.frv. Það þarf að sinna þeim hlutum líka. Þvínæst tók við fundur um málefni hinsegin fólks í sveitarfélaginu. Afar lærdómsríkur og góður fundur. Loks fundur með fulltrúa fjallskiladeildar Miðfirðinga og Vegagerðarinnar vegna hliða við Austurá. Góður fundur með farsælli niðurstöðu.

Að vinnu lokinni á þrðjudeginum fórum við hjónin svo suður til Reykjavíkur til að vera viðstödd kótilettukvöld Samhjálpar sem er aðal fjáröflun samtakanna. Alli minn starfar fyrir Samhjálp en samtökin sinna okkur minnstu bræðrum og systrum og vinna afar mikilvægt starf. Ég varð svo eftir í bænum. Á miðvikudagsmorguninn vann ég þaðan. Eftir hádegið og fram á miðjan fimmtudag var ég á ferð með stjórn Íslandsstofu um Suðurland. Ég hef setið í stjórninni í rúmt ár. Ferðin var afar lærdómsrík og nýtist mér ekki bara í störfum fyrir Íslandsstofu heldur líka í starfi mínu sem sveitarstjóri. Ég kom með fjölmargar hugmyndir í farteskinu. Fyrrum kollegar mínir hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga skipulögðu heimsóknina. Komið var við hjá Vaxa technologies á Hellisheiði, Ölfus Cluster þar sem við fræddumst um mikla uppbyggingu landeldis í sveitarfélaginu o.fl. Við fengum líka kynningu á starfsemi Sets á Selfossi en Hitaveita Húnaþings vestra hefur verslað mikið við þá í tengslum við framkvæmdir veitunnar undanfarin ár. Við fengum einnig kynningu á uppbyggingu miðbæjarins á Selfossi og heimsóttum Friðheima. Mjög lærdósrík ferð. Þegar við komum til baka hittum við stuttlega fulltrúa færeyska símafélagsins sem voru í heimsókn. Ég var komin heim um kvöldmat á fimmtudeginum.

Stjórn Íslandsstofu ásamt forstöðumönnum, fulltrúum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og Bergsteini Einarssyni hjá Set.

Föstudagurinn var langþráður skrifborðsdagur framan af. Raunar hefði hann ekki átt að vera slíkur þar sem haustþing SSNV var á dagskrá. Ég fór hins vegar í jarðarför Ölmu Levý Ágústsdóttur eftir hádegið svo það tók því ekki að fara á þingið sem var í Skagafirði um morguninn. Mér fannst ekki annað koma til greina en kveðja hana Ölmu vinkonu mína sem var alltaf svo yndisleg við mig og mitt fólk. Það mun aldrei renna mér úr minni kvöldið sem við sátum í stofunni í Valhöll með henni og Sigga heitnum Eiríks frænda mínum og skoðuðum gamlar myndir. Þá voru sagðar sögur og mikið hlegið.

Þing SSNV stóð fram eftir kvöldi með kynnisferð um Skagafjörð og kvöldverði að henni lokinni í Árgarði. Ég fór í kvöldverðinn og hitti þar samstarfsmenn í landshlutanum. Það var gaman og gott að gera sér glaðan dag með skemmtilegu fólki. Á heimleiðinni tók ég að mér akstur og skildi fólk eftir við gatnamótin að Húnavöllum, í Vatnsdal og Miðfirði áður en ég hélt heim á leið. Ég var á Land Rovernum og nokkrum sinnum var haft á orði að hann væri hastur þrátt fyrir að ekið væri á slitlagi alla leið. Nokkuð sem maður venst bara.

Gunni og Felix voru veislustjórar á kvöldverði SSNV. Auðvitað fékk ég mynd af mér með þeim. Eftir Eld í Húnaþingi í sumar var mér strítt á því að vera þeirra helsti aðdáandi þar sem ég birti svo margar myndir af mér með þeim á samfélagsmiðlum :) Við gerum enga breytingu á því enda þeir óskaplega skemmtilegir :)

Helgin var ljómandi góð. Ég kíkti aðeins á skrifstofuna á laugardagsmorgni, hreinsaði upp nokkra óafgreidda tölvupósta. Á sunnudeginum settist ég aðeins við tölvuna m.a. til að skrifa þennan pistil. Við vorum svo heppin að vera með vini krakkanna í næturgistingu á laugardeginum og því fjör í húsinu. Fátt finnst mér betra en að vera með mörg börn í húsi – þá er allt eins og það á að vera.

Að síðstu læt ég fylgja með stutt yfirlit yfir eðli þeirra tölvupósta sem ég fékk í vikunni – rétt til að sýna fram á fjölbreytnina sem einkennir starfið. Listinn er hvorki tæmandi né ítarlegur:

  • Refa og minkaveiði
  • Fjallskil
  • Fjáhagsáætlun
  • Umdæmisráð barnavernda
  • Fjölmenningarverkefni
  • Skipulagsmál
  • Tónlistariðkun
  • Reikningar
  • Starfsmannamál
  • Æskulýðsstarf
  • Sorpmál
  • Flugklasinn
  • Hafnarmál
  • Upplýsingaskilti í sveitarfélaginu
  • Framkvæmdir í sveitarfélaginu
  • Skjalamál
  • Skólahúsið á Borðeyri
  • Hundahreinsun
  • Farsældarlög
  • Spurningar frá fjölmiðli
  • Jólahlaðborð starfsmanna sveitarfélagsins
  • Lögreglan
  • RARIK
  • Vegagerðin
  • Barnvæn sveitarfélög
  • Heimsmarkmið
  • Störf landbúnaðarráðs
  • Fjármál sveitarfélagsins
  • Skólabúðir á Reykjum
  • Leigufélagið Bústaður
  • Kjarasamningar
  • Veraldarvinir
  • Málefni fatlaðs fólks
  • Hrekkjavaka
  • Rjúpnaveiði
Var efnið á síðunni hjálplegt?