Vikan 6.-12. febrúar 2023
Þið þekkið þetta, framkvæmdaráðsfundur á mánudagsmorgnum og byggðarráðsfundir eftir hádegið. Þessi mánudagur var í takt við þá hefðbundnu dagskrá. Á byggðarráðsfundinum bar hæst heimsókn Björns Líndal kaupfélagsstjóra þar sem hann fór yfir áform um skógarplöntuframleiðslu á Laugarbakka. Virkilega spennandi áform sem eru á frumstigum og verður vonandi hægt að segja meira frá á komandi mánuðum. Einnig var lagt fram kort af bekkjum á Hvammstanga og Laugarbakka og tillögur um viðbótarbekki. Kortin hafa verið sett í samráð á heimasíðu sveitarfélagsins og hvetjum við öll sem hafa áhuga á málefninu að kynna sér tillögurnar og koma með ábendingar. Sjá nánar hér. Einnig var fjallað um samning við eldri borgara um framkvæmd sumardagsins fyrsta sem ég fjallaði um í síðustu dagbókarfærslu sem og uppsögn Jóhannesar Kára Bragasonar úr starfi slökkviliðsstjóra sem hann lagði fram fyrir mánaðamótin. Þakkaði ráðið Kára fyrir vel unnin störf. Ég tek heilshugar undir þær þakkir. Mér var falið að gera drög að auglýsingu um starfið og leggja fyrir næsta fund. Fundargerð byggðarráðsfundarins er hér.
Önnur verkefni mánudagsins auk þessara tveggja funda voru fjölbreytt, fjallskil komu við sögu, félagsheimilið, málefni Grunnskólans, fundarboð sveitarstjórnarfundar sem var á dagskrá á fimmtudaginn, ráðningarsamningar, starfsmannamál, tölvumál og fleira.
Þriðjudagurinn var skrifborðsdagur. Engir bókaðir fundir en það þýðir ekki að ekkert hafi verið fundað. Hinir og þessir reka stundum inn nefið í Ráðhúsið til skrafs og ráðagerða sem er vel. Ég gekk frá dagbókarskrifum fyrri viku, sendi út fundarboð sveitarstjórnarfundarins, fór aðeins yfir verkáætlun vatnslagnar fram á Laugarbakka og svo tók ég svolítið til. Ég er að gera gangskör í að fara í gegnum pappíra og láta skrá í skjalakerfið það sem ekki er þar fyrir og henda því sem henda má. Sveitarfélögum eru settar stífar skorður um varðveislu gagna en í gegnum árin hafa safnast upp pappírar sem engin ástæða er til að geyma. Ég reyni að temja mér að vera sem mest pappírslaus. Enn á ég eftir nokkrar hillur með pappírum en það saxast á þetta.
Miðvikudagurinn var óvenjulegur fyrir þær sakir að ég sat námskeið á netinu í meðferð Me Too mála. Virkilega gagnlegt námskeið sem ég vona samt að ég komi aldrei til með að þurfa að nýta mér. Það er þó afar gott að hafa verkfæri til að takast á við slík mál ef þau koma upp. Eftir hádegið fór ég yfir drög að fundargerð sveitarstjórnarfundar og ýmis gögn sem lágu fyrir fundinum, átti samtöl við skólastjóra, heyrði í fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga um ýmis mál, átti gott samtal um Vatnsnesveg o.fl.
Fimmtudagurinn var að mestu helgaður sveitarstjórn enda fundur eftir hádegið. Við byrjuðum þó daginn á því að funda með forstöðumanni safna og starfsmanni Byggðasafnsins á Reykjum. Fórum við yfir nokkur brýn málefni sem þarf að leysa úr og settum niður næstu skref í þeim efnum. Ég gaf mér í framhaldinu svolítinn tíma til að hlusta á námskeið sem ég hafði skráð mig á í síðustu viku en ekki náð að sitja. Það er gott að geta fengið upptökur af námskeiðum þegar svoleiðis stendur á. Þetta námskeið fjallaði um skyldur sveitarfélaga í Loftslagsmálum. Mjög áhugavert eins og námskeiðið sem ég sat deginum áður. Það er verk að vinna í þessum efnum.
Sveitarstjórnarfundurinn var svo eftir hádegið. Þar voru fundargerðir nefnda og ráða staðfestar eins og venja er. Einnig var endurnýjuð samþykkt um tímabundinn afslátt af gatnagerðagjöldum nokkurra gatna á Hvammstanga og Laugarbakka. Sjá nánar hér. Einnig var samþykkt að auglýsa starf sviðsstjóra fjölskyldusviðs en Sigurður Þór hefur gengt því síðustu mánuði og var ráðinn til eins árs. Það ber því að auglýsa það aftur. Einnig voru staðfestar reglur um skólaakstur sem taka gildi 1. ágúst. Reglur vegna styrkja til fjallskiladeilda til viðhalds girðinga, skála og styrkvega voru einnig staðfestar. Sjá hér. Reglunum er ætlað að skerpa á vinnulagi við ýmsa þætti, svo sem uppáskrift reikninga, skil á fundargerðum, skil á reikningum, efniskaup o.s.frv. Að síðustu var lagt fram erindi frá lögmanni vegna athugasemda við ráðningu sviðsstjóra frá því í mars 2022. Var mér falið að svara því í samvinnu við lögmann sveitarfélagsins.
Á meðan á sveitarstjórnarfundi stóð fékk ég þær fregnir að grunur lægi á að yfirborðsvatn hefði mengað vatnsból okkar. Kom sá grunur upp við reglubundið eftirlit sem leiddi til þess að sýni voru tekin úr þeim þremur lindum sem vatn er tekið úr. Þrátt fyrir að bíða þyrfti nákvæmari niðurstaðna er verklagið þannig að ítrustu varúðar er gætt og íbúar því strax hvattir til að sjóða vatn þar til tilkynnt yrði um annað. Eftir helgina fengum við ítarlegri niðurstöður sem leiddu í ljós að ein af þremur lindunum var menguð. Henni var strax kúplað frá vatnstankinum og hann hreinsaður. Ný sýni verða tekin í vikunni og vonandi verða niðurstöðurnar góðar svo ekki þurfi að sjóða vatn áfram. Við biðjum fólk að fylgjast vel með tilkynningum á heimasíðunni. Talið er að tíðarfarið geri það að verkum að leysingavatn komist í vatnsbólið en þær bakteríur sem fundust eru jarðvegsbakteríur. Þó ætla megi að orsökina megi rekja til móður náttúru vil ég engu að síðu biðjast afsökunar á þeim óþægindum sem þetta veldur. Okkur finnst þetta óskaplega leiðinlegt og ég fullvissa lesendur um að kappkostað hefur verið að koma þessu í lag eins fljótt og auðið er. Ég segi fyrir mína parta og vona að ég móðgi engan en fyrir mig er þetta ágætis áminning um þau lífsgæði sem við Íslendingar búum við í hreina vatninu okkar. Við munum svo í framhaldinu skoða hvað gera þarf til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.
Föstudagurinn var stuttur vegna útfarar Arnars Páls Ágústssonar eftir hádegið. En um morguninn fundaði ég eins og vant er með oddvita og formanni byggðarráðs. Ég átti einnig fund með lögmanni sveitarfélagsins um ýmis mál og sömuleiðis stuttan fund með sveitastjórum sveitarfélaganna í Húnavatnssýslum um sorpmál. Einnig undirbjó ég fundarboð veituráðs en fundur ráðsins var á dagskrá í vikunni á eftir.
Á laugardagsmorgninum hafði þingflokkur Sjálfstæðisflokksins boðað til morgunverðarfundar á Hótel Laugarbakka sem ég hóf daginn á. Kjördæmavika stendur nú yfir og fara þá þingmenn um héröð og hitta kjósendur. Misjafnt er með hvaða hætti flokkarnir haga heimsóknunum. Sjálfstæðisflokkurinn fer hringferð og var fyrsti flokkurinn á ferðinni. Framsókn hefur boðað fund í vikunni en ég hef ekki heyrt af öðrum flokkum á ferðinni hér. Það er hluti af störfum mínum að sækja þessa fundi. Á fundinum gáfust tækifæri til að ræða nokkur mikilvæg mál sem væntanlega verða líka tekin upp á Framsóknarfundinum.
Að fundi loknum fór ég ásamt krökkunum mínum suður til Reykjavíkur og vorum við þar þangað til seinnipartinn á mánudeginum. Vetrarfríið var því notað til samveru með fólkinu okkar fyrir sunnan. Fórum við í heimsóknir og fengum góða gesti. Ég játa það hér og nú að ég tók tölvuna ekkert upp fyrr en ég kom heim og leit aðeins í vinnuna undir kvöldmat á mánudag. Helgin einkenndist því að kærkominni samveru með mínu besta fólki.