Vikan 28. janúar – 2. febrúar 2025
Síðasta vikan í janúar að baki. Einhver tala um að janúar sé lengsti mánuður ársins en ég get ekki tekið undir það. Hann hefur flogið hjá enda verkefnin ærin.
Mánudagurinn hófst á fundi framkvæmdastjóra sveitarfélaga á landinu með Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga. Að þeim fundi loknum fundaði starfs- og kjaranefnd sveitarfélagsins en í henni sitja ásamt mér sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs og launafulltrúi. Á þeim fundum er farið yfir mál sem tengjast launavinnslu og ýmsu tengdu kjaramálum. Nefndin fundar alla jafna mánaðarlega. Að þessum fundum loknum voru aldrei slíku vant engir fundir bókaðir út daginn en byggðarráðsfundi hafði verið frestað þar sem lítið lá fyrir fundi. Nýtti ég daginn í ýmis verkefni við skrifborðið, svo sem samþykkt reikninga, stafsmannamál ýmiskonar, skoðun á tækifærum til að nýta kortavefsjá sveitarfélagsins meira en gert er o.m.fl. Einnig átti ég samtal við fréttamann á RÚV vegna umsagnar sveitarfélagsins um beiðni Landsnets um skipan raflínunefndar fyrir umfjöllun í Speglinum.
Þriðjudagurinn hófst á undirbúningi landbúnaðarráðsfundar sem á dagskrá er vikuna eftir. Það er gott að hefja undirbúning í tíma svo ekkert gleymist. Landbúnaðarráð eins og önnur ráð er búið að setja sér starfsáætlun fyrir árið og byrja ég á því að skoða hvað liggur fyrir á henni þegar dagskráin er sett upp í samráði við formann. Svo er skoðað hvort einhver önnur mál hafi komið inn sem ráðið þarf að fjalla um. Eftir það sat ég veffund á vegum Mannauðs félags mannauðsfólks á Íslandi. Fundurinn fjallaði um strauma og stefnur í mannauðsmálum á árinu og voru það mínir fyrrum vinnufélagar hjá Dale Carnegie sem fræddu fundarmenn um efnið. Mjög áhugaverður og gagnlegur fundur. Ég sat í framhaldinu stuttan fund með stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða en þar sit ég fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Því næst sat ég ásamt sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs fund með Wise, þjónustuaðila bókhaldskerfis sveitarfélagsins um næstu uppfærslu kerfisins sem er á döfinni á næstu vikum. Þar voru kynntar nokkrar nýjungar sem við hlökkum til að innleiða. Að þessu loknu hélt ég heim á leið – aðeins fyrr en alla jafna þar sem ég varð að játa mig sigraða fyrir leiðinda kvefpest sem er búin að vera að hrjá mig í vikunni. Ég hafði hugsað mér að vera í fríi á miðvikudeginum en hann fór hins vegar í almennan slappleika.
Á fimmtudeginum fundaði ég ásamt sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs með fulltrúa Vinnuverndar sem veitir sveitarfélaginu trúnaðarlæknisþjónustu. Fórum við yfir samstarfið sem er nauðsynlegt að gera reglulega. Þar á eftir fundaði ég ásamt sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs með fulltrúum Húnabyggðar og Skagafjarðar vegna fyrirhugaðs sameiginlegs útboðs á hreinsun rotþróa í sveitarfélögunum. Þarft verkefni sem miðar að því að bæði bæta þjónustu og vonandi lækka kostnað. Verkið er það stórt að bjóða þarf það út á evrópska efnahagssvæðinu. Með útboðinu munum við einnig setja allar rotþrær inn í kortasjá sveitarfélagsins og láta þjónustu við þær færast sjálfkrafa þangað inn. Þá er skráð hvenær er tæmt og skráð ef einhver frávik verða. Íbúar geta þá nálgast allar upplýsinga um sínar rotþrær á kortasjánni. Rotþrær í sveitarfélaginu eru í eigu fasteignaeiganda en sveitarfélagið sér um að hreinsa þær og innheimtir raunkostnað verkfaka við þá vinnu.
Eftir hádegið skaust ég á Blönduós og fundaði með samráðshópi lögreglustjóra og framkvæmdastjórum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Gott og gagnlegt að setjast niður reglulega og fara yfir sameiginlega hagsmuni. Í framhaldi af þeim fundi fundaði almannavarnanefnd Húnavatnssýslna en fyrir dyrum stendur stækkun nefndarinnar en um langt árabil hefur hún verið skipuð sveitarstjórum sveitarfélaganna í sýslunni. Nú á að taka inn í nefndina fagaðila, eins og slökkviliðsstjóra og lækni til að nefndin geti betur rækt hlutverk sitt. Afar brýn og löngu tímabær breyting.
Föstudagurinn hófst eins og jafnan á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Gengum við frá dagskrá byggðarráðsfundar ásamt því að fara yfir helstu mál. Það sem eftir lifði dags sinnti ég ýmsum verkefnum við skrifborðið svo sem samskiptum við blaðamann vegna gjafa til ungbarna í sveitarfélaginu, skoðun á tilboðum í þjónustu persónuverndarfulltrúa fyrir sveitarfélagið, úrvinnslu úr vinnustaðagreiningu meðal starfsmanna, samskipti við ráðuneyti með beiðnum um fundi til að kynna áherslur sveitarfélagsins, samtal við þingmann kjördæmisins, undirbúning fundargerðar byggðarráðsfundar svo fátt eitt sé nefnt. Umsóknarfrestur í Atvinnu- og nýsköpunarsjóð Húnaþings vestra rann út í lok dags og yfirfór ég stuttlega innkomnar umsóknir og skráði í skjalakerfi.
Ég var í vinnunni frameftir degi á laugardeginum til að ganga frá ýmsum málum sem setið höfðu á hakanum yfir vikuna. Til dæmis undirbúning landbúnaðarráðsfundar en inn á hann koma í þetta skiptið formenn fjallskiladeilda og tók ég þessvegna saman stutt yfirlit yfir fjallskil í sveitarfélaginu og samanburð á gjaldheimtu deildanna. Dagbókarskrifum var líka sinnt, persónuverndarmálunum, frágangi á einni lokaskýrslu verkefnis sem hlaut styrk úr Atvinnu- og nýsköpunarsjóði á síðasta ári o.fl. Tíminn nýtist vel um helgar þó það sé auðvitað ekki ákjósanlegt að eyða löngum stundum í vinnunni á frídögum. Eðli starfsins er hins vegar það að verkefnin krefjast þess stundum og þá er ekkert annað að gera en að svara kallinu.
Þegar þetta er skrifað er dagur kvenfélagskonunnar og 95 ára afmæli Kvenfélagasambands Íslands. Ég vil því nota tækifærið og þakka kvenfélagskonum þeirra ómetanlega framlag til samfélagsins í Húnaþingi vestra um langa hríð. Án þeirra er óhætt að segja að samfélagið okkar væri fátækara. Þeirra störf eru ómetanleg.
Lýk þessari færslu á því að vekja athygli á áhugaverðri starfsauglýsingu á heimasíðu sveitarfélagsins. Starf verkefnisstjóra umhverfismála er laust til umsóknar. Þetta er fjölbreytt og spennandi starf og ég hvet öll áhugasöm til að sækja um. Sjá hér.