Vikan 12.-18. febrúar
Vikan hófst á hefbundnum fundi framkvæmdaráðs og í kjöflarið fundi með verkefnisstjóra umhvrfismála. Á síðari fundinn kom leikskólastjóri og fórum við yfir hugmyndir að notkun kvenfélagsgarðsins í starfi leikskólans en Kvenfélagið Björk afsalaði sér garðinum í þágu starfs grunn- og leikskóla. Hugsa þarf til langs tíma og draga sem flesta að borðinu og verður það gert. Að þessum fundum loknum tók við undirbúningur byggðarráðsfundar og svo fundurinn sjálfur eftir hádegið. Þar var samþykkt málstefna sveitarfélagsins sem hafið verið til umsagnar í tvær vikur þar á undan á heimasíðu sveitarfélagsins. Einnig var tekið fyrir erindi Meistaraflokksráðs Kormáks um að fá að selja nafnarétt Hvammstangavallar í fjáröflunarskyni. Var mér falið að kalla eftir umsögnum Ungmennafélagsins Kormáks og USVH áður en ákvörðun yrði tekin. Þá voru teknar fyrir nýjar reglur um útgáfu stöðuleyfa í sveitarfélaginu og þeim vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar. Þörf er á að skerpa á reglum og vinnulagi við útgáfu stöðuleyfa. Gera má ráð fyrir að í kjölfar umfjöllunar sveitarstjórnar um reglurnar verði farið í átak í útgáfu stöðuleyfa. Á það við um stöðu hjólhýsa yfir veturinn, gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum sem ætluð eru til flutnings og stór samkomutjöld. Fundargerð byggðarráðsfundar er hér.
Þriðjudagurinn hófst á starfsmannafundi starfsmanna Ráðhússins. Við hittumst reglulega og förum yfir helstu mál. Ég fór t.d. yfir mál sem tekin voru fyrir á síðasta sveitarstjórnarfundi og eitt og annað. Það er nauðsynlegt að allur hópurinn hittist öðru hvoru því mörg erum við út og suður og ekki endilega öll í húsi á sama tíma. Þá tók við fundur í stjórn framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og eftir hádegið fundur með formanni Skógræktarfélagsins hér í héraði varðandi skógræktina í Kirkjuhvammi ásamt verkefnisstjóra umhverfismála. Síðasta sumar var settur upp frisbíbolfvöllur í skógræktinni og vildum við heyra hljóðið í félaginu varðandi umhirðu á vellinum og áform félagsins. Við eigum þarna í hvamminum frábært útivistarsvæði sem ég vil hvetja fólk til að nýta til útivistar. Og auðvitað til að taka nokkra frisbígolfhringi næsta sumar. Önnur verkefni dagsins voru hefðbundin við skrifborðið, hin ýmsu símtölu, starfsmannamál, samþykkt reikninga, gerð minnisblaða o.fl.
Miðvikudagsmorguninn hófst á fundi sveitarstjóra. lögreglunnar og Rauða krossins vegna fjöldahjálparmiðstöðva. Verið er að endurskoða skilgreiningar þeirra í héraðinu og ganga frá samningum um þær þar sem við á. Í kjölfar fundar hafði ég samband við UMFÍ vegna möguleikans á fjöldahjálparmiðstöð í húsakynnum skólabúðanna og var það auðsótt. Einnig sendi ég erindi á tvær húsnefndir félagsheimila þar sem hafa verið miðstöðvar en þörf á að gera samninga þar um. Eins hefur verið fjöldahjálparmiðstöð í Félagsheimilinu Hvammstanga sem einnig þarf að ganga frá samningi um. Það er gott að fara í gegnum mál af þessum toga reglulega til að allt sé á hreinu ef upp koma neyðartilfelli. Þá er ekki gott að þurfa að byrja á að leita að húsnæði fyrir fólk í neyð. Í kjölfarið fundaði ég með fulltrúa HMS varðandi mögulegt samstarf um frekari uppbyggingu íbúða í sveitarfélaginu. Eins og fram kemur í húsnæðisáætlun okkar er þörf á áframhaldandi uppbyggingu. Ræddum við mögulegar leiðir og staðsetningar slíks húsnæðis. Vonandi mun draga til tíðinda í þeim efnum fljótlega. Ég sinnti svo ýmsum verkefnum þennan daginn. M.a. kom Leigufélagið Bústaður við sögu, úrgangsmál, landamerki og skipulag heimsóknar þingmanna á næstu vikum. Einnig var krafa óbyggðanefndar um eyjar og sker áberandi í samtölum dagsins. M.a. átti ég stutt spjall við blaðamann Morgunblaðsins vegna málsins. Einnig heyrði ég í nokkrum áhyggjufullum landeigendum. Fólk er sammála um að í kröfugerðinni sé ríkið að seilast ansi langt. Við bíðum nákvæmari útlistingar á þeim stöðum sem krafa er gerð í í Húnaþingi vestra frá nefndinni en ljóst að hljóðið í landeigendum er á þann veg að þeir muni ekki láta þetta yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust. Ég var einnig í sambandi við Vegagerðina vegna sjóvarna á sunnanverðum Borðeyrartanga en við höfum áhyggjur af hröðu landbroti þar. Ekki er gert ráð fyrir uppbyggingu sjóvarnargarðs þar fyrr en 2028 sem við teljum of seint. Vonandi tekst að þoka því framar í framkvæmdaröðina. Ég hugaði svo að skipulagi námskeiðs fyrir stjórnendur stofnana sveitarfélagsins sm á dagskrá er í komandi viku. Ráðgjafi okkar hjá Attentus mun koma og fjalla um endurgjöf. Nokkuð sem alltaf er hægt að bæta sig í (svo ég tali fyrir sjálfa mig).
Á fimmtudeginum komu endurskoðendur sveitarfélagsins og voru við störf í Ráðhúsinu við að yfirfara gögn í tengslum við ársuppgjör. Elín Jóna, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs bar hitann og þungann af því að finna til gögn fyrir þau svo ég gat sinnt öðrum verkefnum. M.a. fundi almannavarnanefnda á Norðurlandi vestra þar sem aðstaða fyrir aðgerðastjórn var megin fundarefnið. Ég undirbjó í kjölfarið dagskrá byggðarráðsfundar komandi viku. Þær ánægjulegu fréttir bárust svo rétt undir hádegið að styrksumsókn sem sveitarfélagið vann og sendi inn í lið C1 á byggðaáætlun hlaut brautargengi. Fengust 10,5 milljónir til tækjakaupa vegna uppsetningar tæknismiðju í anda Fab Lab í Félagsheimilinu Hvammstanga. Ég sagði frá vinnu við umsóknina í dagbókarfærslu á dögunum þar sem ég vonaðist til að geta sagt frá góðum tíðindum innan tíðar. Umsóknin hljóðaði upp á 13 milljónir svo eitthvað þarf að forgangsraða hvaða tæki verða keypt en rúmar 10 milljónir gera okkur kleift að setja upp nokkuð vel tækjum búna tæknismiðju. Klisjan um að framundan séu spennandi tímar á því svo sannarlega við. Þetta verkefni er liður í að efla nýsköpun í sveitarfélaginu sem er afar brýnt til að fjölga hér atvinnutækifærum og styrkja búsetu.
Eftir hádegið á fimmtudaginn var ég svo starfsmaður í þjálfun á bóka- og héraðsskjalafninu undir dyggri leiðsögn Sólveigar forstöðumanns, Lillýar og Guðmundar. Mér var falið að skanna inn gjörðabók Kirkjuhvammshrepps fyrir árin 1933-1948 og átti ég til að gleyma mér við að lesa í gegnum beiðnir um lán úr sveitarstjóði, óskir um kaup á eldavél og kúm, kærur vegna útsvarsálagningar og eitt og annað áhugavert. Skemmtilegast þótti mér þó að við kjölinn í flesum opnum bókarinnar þurfti að bursta neftóbaki fundarmanna í burtu. Menn fengu sér auðvitað í nefið á fundum. Við skönnunina notaði ég forláta skanna sem keyptur var á síðasta ári og er bylting í yfirfærslu þessara mikilvægu gagna yfir á rafrænt form. Ég fékk líka kennslustund í plöstun bóka hjá Sólveigu og fékk að spreyta mig á nokkrum og eins sýndi Guðmundur mér hvernig nýjar bækur eru skráðar inn í skráningarkerfi safnsins. Þar er hann svo sannarlega á heimavelli en ég var aðeins lengur að þessu en hann. Heimsóknin er liður í viðleitni minni við að kynnast betur starfi stofnana sveitarfélagsins. Ég hef þegar heimsótt grunn- og leikskóla og er búin að setja fleiri heimsóknir á dagskrá á næstu vikum. Ég þakka okkar góða starfsfólki á bóka- og héraðskjalasafninu kærlega fyrir góðar móttökur og leiðsögn.
Skanninn góði sem notaður er við skönnun á gögnum.
Föstudagurinn hófst á hefðbundin hátt með fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Með því að hafa fastan vikulegan fundartíma má fækka símtölum og tölvupóstum en ég safna upp málum inn á fundina alla vikuna. Förum við líka yfir dagskrá byggðarráðsfundar komandi viku. Góðir og gagnlegir fundir. Ég settist í kjöflarið niður með slökkviliðsstjóra og ræddum við ýmis mál er slökkviliðið varða. Eftir hádegið fundaði ég með rekstaraðila skjalakerfisins sem notað er hjá sveitarfélaginu og fékk leiðbeiningar hjá þeim um nokkur atriði sem við getum gert til að spara vinnu enn frekar. Það er um að gera að nýta sér tæknina eins og hægt er. Ég yfirfór líka tímaskýrslur starfsmanna, samþykkti reikninga og gekk frá dagbók vikunnar til birtingar eftir helgina.