24. febrúar 2025

Vikan 17.-23. febrúar 2025

Vikan hófst á hefðbundnum hætti á fundi framkvæmdaráðs. Í kjöflarið tókum við Þorgils viðtal við einn umsækjanda um starf verkefnisstjóra umhverfismála sem auglýst var á dögunum. Sex umsóknir bárust og voru tekin upphafsviðtöl við fjóra umsækjendur. Því næst tók við undirbúningur fyrir byggðarráðsfund. Hófst hann á innkomu sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs. Fór hann yfir helstu verkefni á döfinni. Undirbúningur fyrir verkefni sumarsins er í fullum gangi en það þarf að ganga frá útboðsgögnum og finna verktaka í hin ýmsu verk. Af öðrum liðum má nefna afgreiðslu umsóknar um byggingarlóð, tilkynning um styrk til úrbóta í aðgengismálum fatlaðs fólks, áskorun um fjölgun stöðugilda í rannsóknardeild lögreglunnar í umdæminu og umsögn um umhverfismatsskýrslu Holtavörðuheiðarlínu 3. Fundargerðin er aðgengileg hér. Í kjölfar fundar sendi ég umsögnina inn til skipulagsstofnunar. Sjá hér. Einng fór ég í gegnum spurningar frá endurskoðanda sveitarfélagsins í tengslum við uppgjör ársins 2024 sem er í fullum gangi.

Þriðjudagsmorgun hófst á starfsmannafundi starfsmanna Ráðhússins. Í kjölfarið horfðum við á annað fræðslumyndbandið í geðheilsuátaki meðal starfsmanna sem stendur sem hæst. Um er að ræða þrjá rafræna fyrirlestra og verkefni á milli þeirra. Þar á eftir undirbjó ég kynningu fyrir þingmenn kjördæmisins sem höfðu boðað komu sína í komandi viku. Við tökum ætíð saman helstu áhersluatriði og kynnum fyrir þingmönnum í slíkum heimsóknum. Í hádeginu skrapp ég niður í Félagsheimili í viðtal hjá RÚV um áformin þar. Afraksturinn var svo sýndur í fréttum nokkrum dögum seinna. Sjá hér. Síðan tók við ýmsikonar skrifborðsvinna þar til íbúafundur vegna opnunartíma leik- og grunnskóla vegna styttingar vinnuviku. Alls mættu um 40 manns sem áttu líflegar umræður um viðfangsefnið.

Frá fundi um opnunartíma grunn- og leikskóla.

Á miðvikudagsmorgni hófum við leika á starfsdegi stjórnenda. Á fundinum fórum við yfir niðurstöður könnunar meðal starfsmanna sveitarfélagsins og fórum svo í hugmyndavinnu um hvað við getum gert til að bæta úr þeim atriðum sem þar komu fram og þarf að bregðast við. Tek þó fram að almennt eru starfsmenn ánægðir með að starfa hjá sveitarfélaginu en í könnun sem þessari koma alltaf fram atriði sem þörf er að bregðast við. Til þess er leikurinn gerður – við leitumst auðvitað við að vera góður og hvetjandi vinnustaður.

Frá starfsdegi stjórnenda.

Á fimmtudeginum tók svo við sumarfrí en sveitarstjóri þarf líkt og aðrir starfsmenn að ljúka sínu fríi áður en nýtt orlofstímabil tekur við. Það hittist þó þannig á að nokkrir þingmenn höfðu boðað komu sína í vikunni á eftir svo ég var eitthvað við vinnu í vikunni á eftir. Fundir með þingmönnum, viðtöl vegna starfs verkefnisstjóra umhverfismála og eitt og annað. Vikuna á eftir var ég þó alfarið í fríi.

Þessi færsla er vegna orlofsins í stysta lagi. Næsta dagbókarfærsla verður svo ekki skrifuð fyrr en eftir vikuna 10.-16. mars.

Var efnið á síðunni hjálplegt?