Vikan 22. apríl – 20. maí
Nú er orðið ansi langt síðan síðasta dagbókarfærsla var sett inn. Er beðist afsökunar á því. Óvenju margir frídgagar hafa verið á þessu tímabili, undirrituð vann niður nokkra frídaga áður en þeir runnu út og skrapp í utanlandsferð. Vikurnar hafa því verið nokkuð sundurslitnar en þó nóg að gera sem endranær. Fylgir hér á eftir upptalning á helstu fundum sem sveitarstjóri hefur setið frá því síðasta færsla var skrifuð:
- Fundur orkusveitarfélaga um skattlagningu orkuvinnslu.
- 1211. fundur byggðarráðs. Á þann fund komu fulltrúar Náttúrustofu Norðurlands vestra og kynntu starfsemina sem er fjölbreytt.
- Vinnustofa vegna vinnu við gerð loftslagsstefnu sveitarfélagsins.
- Móttaka fyrir Félag fræðslustjóra sem funduðu á Hótel Laugarbakka sem haldin var á Byggðasafninu á Reykjum.
- 1212. fundur byggðarráðs. Á þeim fundi var m.a. samþykkt að gera viðauka vegna hitaveituframkvæmda á Höfðabrautinni í sumar sem reyndust kostnaðarsamari en fjárhagsáætlun sagði til um. Vegna mikilvægis framkvæmdarinnar var gerður viðauki til að mæta því. Einnig var tekin fyrir beiðni innviðaráðuneytis um skipan raflínunefndar vegna Holtavörðuheiðarlína 1 og 3 sem ráðið telur ekki tímabært að skipað sé þar sem ekki er uppi ágreiningur um framkvæmdirnar auk þess sem reglugerð vegna slíkra nefnda er ekki tilbúin.
- Kynningarfundur um lokun pósthússins á Hvammstanga sem sveitarfélagið hefur mótmælt áformunum, sjá hér. Vel mætt var á fundinn og var greinileg óánægja fundarmanna með þessa breytingu og fjölmörgum spurningum ósvarað.
- Aðalfundur veiðifélags Tjarnarár en sveitarfélagið er aðili að félaginu sem eigandi Engjabrekku.
- Starfshópur um lífsgæðakjarna fyrir eldri borgara fundaði á þessum tímabili.
- Sýslumaður kom til að fara yfir framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu en sem fyrr fer hún fram í Ráðhúsinu á opnunartíma þess.
- Fundur með fulltrúa Samgöngustofu vegna siglingaverndar í tengslum við rekstur hafnarinnar.
- Sveitarstjórnarfundur var haldinn miðvikudaginn 8. maí. Þar bar hæst seinni umræða um ársreikning ársins 2023 sem var samþykktur samhljóða. Ítarlega er farið yfir niðurstöðu ársreikningsins hér. Bókaði sveitrstjórn þakkir til forstöðumanna við sitt framlag til þessarar niðurstöðu og vil ég taka heilshugar undir þær. Á fundinum var einnig bókað um fyrirhugaðar breytingar á sveitarstjórn. Þorgrímur Guðni, fulltrúi N-lista, óskaði eftir lausn frá störfum vegna flutninga úr sveitarfélaginu. Hans varamaður, Hallfríður Sigurbjörg óskaði jafnframt eftir leyfi til áramóta og mun Viktor Ingi því kom inn í sveitarstjórn um næstu mánaðamót. Ég vil nota tækifærið og þakka Þorgrími Guðna fyrir gott samstarf og óska honum velfarnarðar í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Einnig var lagt fram minnisblað með tillögu að breytingu á starfi í Ráðhúsinu sem nú hefur verið auglýst ásamt tillögu að breytingu á opnunartíma ráðhúss tímabundið í sumar og varanlega frá 1. september. Breyttur opnunartími verður með þeim hætti að á tímabilinu 15. júní til 15. ágúst verði opið kl. 10-13 mánudag til fimmtudags og 10-12 á föstudögum vegna undirmönnunar. Frá og með 1. september verði opnunartíminn 10-14 mánudag til fimmtudags en 10-12 á föstudögum. Helgast þessi breyting af því að heimsóknum í Ráðhúsið hefur fækkað verulega.
- 1213. fundur byggðarráðs. Þar bar hæst umsögn ráðsins um frumvarp til laga um lagareldi sem ráðið gerði nokkrar athugasemdir við. Einnig samþykkti ráðið að gert verði vegglistaverk á vigtarskúrinn við höfnina. Samþykktar voru óbreyttar reglur Atvinnu- og nýsköpunarsjóðs og hefur úthlun verið auglýst.
- Haldinn var fundur á vegum umhverfisráðuneytis um starfsemi Náttúrustofa sem lið í endurskoðun samninga um stofurnar.
- Fundur með ráðgjafa á sviði ferðamála hjá SSNV um ýmislegt sem tengist ferðamálum.
- Ráðstefna Selaseturs þar sem ýmsar rannsóknir á vegum setursins voru kynntar. Frábær ráðstefna hjá mínum fyrrverandi samstarfsmönnum. Safnabúðin á Selasetrinu er nú troðfull af fallegum varningi sem hentar vel til ýmisskonar gjafa og ég hvet heimamenn til að nýta sér það.
Auk þessa sat ég fjölmarga fundi er varða eitt og annað í rekstri sveitarfélgsins, með forstöðumönnum, starfsmannafundi, framkvæmdaráðsfundi, vikulega fundi með oddvita og formanni byggðarráðs o.m.fl. Sem fyrr fékk ég fjölmörg símtöl, tölvupósta og nokkrar heimsóknir frá íbúum um hin ýmsu málefni.
Á þessu tímabili sem dagbókarfærslan nær yfir var sumardagurinn fyrsti haldinn hátíðlegur. Voru hátíðarhöldin í höndum okkar öfluga Félags eldri borgara og kann ég þeim miklar þakkir fyrir sína góðu vinnu sem fyrr. Því miður gat ég ekki verið viðstödd hátíðarhöldin þar sem bróðir minn var að ferma í Reykjavík en þó fóru vel fram sem endranær og voru í góðri samvinnu við Hestamannafélagið Þyt. Þakka ég þeim sömuleiðis fyrir sitt framlag.
Um mánaðamótin fór hópur starfsmanna úr Ráðhúsinu í kynnisferð til Helsinki þar sem áhersla var á atvinnuuppbyggingu, græn svæði og almannarými. Starfsmenn leggja í ferðasjóð mánaðarlega og fengu auk þess styrk frá stéttarfélögum sínum til að fjármagna ferðina. Var ferðin lærdómsrík og fengum við fjölmargar hugmyndir sem munu nýtast okkur í okkar störfum. Við heimsóttum einnig sendiherrahjónin í Helsinki og fengum kynningu á hlutverkum sendiráða og áttum mjög góða stund í sendiráðinu.
Um miðjan maí var starfsdagur starfsmanna í Ráðhúsinu. Í þetta skiptið var honum varið í tiltekt og var farið í allar geymslur og skápa og farið í gegnum dót. Ýmislegt kom í ljós bæði sem mátti henda en einnig sem fært var í varanlega geymslu í skjalageymslu, þónokkuð fór til Gæranna í Nytjamarkaðinn, upp úr kafinu komu fjöldi skóhlífa og Covid-gríma sem heilsugæslan fékk til að nýta svo dæmi séu tekin. Heilmikið var svo sent í Hirðu, gömul og úr sér gengin raftæki, pappírsrusl o.þ.h. Í kjallaranum var nokkuð magn fyrra bindis bókarinnar um sögu Hvammstanga. Í stað þess að hún rykfalli í geymslu ákváðum við að gefa áhugasömum íbúum bókina og er hún til afhendingar í Ráðhúsinu. Endilega lítið við og nælið ykkur í eintak.
Loksins er farið að vora og sumarið framundan. Götusópurinn er búinn að fara um og fljótlega verða götumerkingar málaðar. Umhirða grænna svæða fer að hefjast og vinnuskólinn hefst fljótlega. Áburðarpokarnir tínast af höfninni hver af öðrum. Ferðamönnum er farið að fjölga og senn hefst sunnudagsopnun í Kaupfélaginu. Allt ljúfir vor- og sumarboðar. Ég mun halda uppteknum hætti með dagbókarskrif næstu tvær til þrjár vikur og gefa dagbókinni svo sumarfrí þar til í lok ágúst líkt og í fyrra.