7. apríl 2025

Vikan 31. mars-6. apríl 2025

Mánudagurinn hófst á hefðbundnum fundi framkvæmdaráðs. Í framhaldinu tók við undirbúningur byggðarráðsfundar sem var á dagskrá eftir hádegið og önnur hefðbundið „mánudagsstörf“ svo sem dagbókarskrif, samþykkt reikninga ásamt boðun landbúnaðarráðsfundar sem var á dagskrá miðvikudags o.fl. Á byggðarráðsfundinum kenndi ýmissa grasa. Fundarboð á hina ýmsu aðalfundi eins og gjarnan á þessum tíma árs. Einnig var lagt fram svar félags- og húnsæðismálaráðuneytis vegna beiðnar Landsnets um skipan raflínunefndar en ráðuneytið hafnaði beiðninni í annað sinn. Umsögn Húnaþings vestra um erindi Landsnets er að finna hér. Einnig var á fundinum fjallað um tilboð sem bárust í klæðningu á Félagsheimilinu Hvammstanga og gengið að tilboði Hvammstaks ehf. Sömuleiðis voru lagðar fram tillögur að starfsemi samfélagsmiðstöðvar og samþykkt að þær færu í opið samráð á heimasíðunni. Ég hvet íbúa til að skoða tillögurnar og koma með hugmyndir, athugasemdir og ábendingar um það sem betur má fara. Betur sjá augu en auga. Fundargerð byggðarráðsfundarins er aðgengileg hér.

Þriðjudagurinn hófst á sameiginlegu áhorfi starfsmanna Ráðhússins á þriðja og síðasta fyrirlesturinn í geðheilbrigðisátaki sem staðið hefur yfir frá því í janúar í samstarfi við Mental ráðgjöf. Að því loknu hitað ég vöfflujarnið og steikti nokkrar vöfflur en alþjóðlegi vöffludagurinn var viku fyrr en þá gafst ekki tími til að skella í vöfflur svo því var frestað um viku. Að því loknu tók við ýmiskonar skrifborðsvinna, samskipti við Orkusjóð, innsending á umsögn um borgarstefnu, undirbúningur landbúnaðarráðsfundar sem var á dagskrá daginn eftir, yfirferð gagna vegna ársreiknings og yfirferð minnisblaðs til ráðherra vegna verkefnisins Gott að eldast ásamt því að senda minnisblaðið í ráðuneytið. Einnig gengum við frá því að foreldrafélag leikskólans tekur að sér framkvæmd sumardagsins fyrsta í ár og kann ég þeim bestu þakkir fyrir það. Ég setti líka inn auglýsingar á miðla sveitarfélagsins vegna íbúafunda sem áformaðir eru í komandi viku til að fá fram sjónarmið í tegslum við óformlegar viðræður Dalabyggðar og Húnaþings vestra um hugsanlega sameiningu. Fundurinn í Húnaþingi vestra verður miðvikudaginn 9. apríl kl. 17 í Félagsheimilinu Hvammstanga. Ég hvet íbúa til að fjölmenna en boðið verður upp á dýrindis kjötsúpu að fundi loknum. Samtal við íbúa í þessu ferli er afar mikilvægt og nauðsynlegt að fá sem flest sjónarmið upp á borðið áður en sveitarstjórn tekur ákvörðun um hvort farið verði í svokallaðar formlegar viðræður. Fyrir áhugasöm er hér tengill inn á ferli sameiningarviðræðna á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.

Á miðvikudagsmorgninum fundaði ég með fulltrúum samtakanna Landsbyggðin lifi um hugsanlegt samstarf við þau í verkefni sem miðar að því að bæta búsetuskilyrði í dreifbýlum sveitarfélögum með auknu samráði við íbúa. Áhugavert verkefni. Ég tengdi þau við forsvarsmenn Húnaklúbbsins þar sem augljós samlegð er með verkefninu og starfsemi klúbbsins. Í framhaldinu grúskaði ég svo í stjórnendamælaborðinu sem við höfum nýverið tekið í notkum sem ég er ákaflega ánægð með þar sem það bætir yfirsýn til mikilla muna. Við höfum á kjörtímabilinu gert fjölmargt í stafrænum málum í stjórnsýslunni og þetta er eitt af því. Mælaborðið auðveldar forstöðumönnum yfirsýn yfir sínar einingar til mikilla muna og stuðlar að enn betri fjármálastjórn. Eftir hádegið var svo landbúnaðarráðsfundur sem var óvenju tíðindalítill. Fundargerðin er aðgengileg hér.

Á fimmtudaginn hóf ég daginn á að yfirfara gögn vegna ársþings Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem er á dagskrá í komandi viku. Því næst skoðaði ég næstu skref í kjölfar geðheilsuátaksins sem staðið hefur yfir en við fengum styrk úr Lýðheilsusjóði til að vinna áfram að þessum málum meðal starfsmanna sveitarfélagsins. Þessu verkefni verður aldrei lokið. Ég er stolt af þessari vinnu og þakklát fyrir hversu vel starfsmenn hafa tekið í aukna áherslu á þessi mikilvægu mál. Eftir hádegið tók við yfirferð yfir fyrstu drög ársreiknings sveitarfélagsins sem verður tekinn til fyrri umræðu sveitarstjórnar í komandi viku. Þar á eftir sótti ég formlega opnun á skrifstofu RML á Höfðabrautinni eftir gagngerar endurbætur. Þar var fjöldi fólks samankominn til að fagna með starfsmönnum. Eru skrifstofurnar þær glæsilegustu en þar starfa nú þrír starfsmenn. Seinnipartinn var opið hús í Félagsheimilinu þar sem nokkur fjöldi gesta kom til að kynna sér hugmyndir um samfélagsmiðstöð. Röltum við um húsið og fram kom fjöldi hugmynda sem verða teknar til skoðunar í vinnunni.

Föstudagsmorguninn hófst á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs eins og jafnan. Fórum við yfir helstu mál á döfinni og m.a. fór ég yfir drögin að ársreikningnum og greiningu á frávikum frá áætlun. Að fundi loknum tók við undirbúningur byggðarráðsfundar komandi viku, undirbúningur viðauka við fjárhagsáætlun sem lagður verður fyrir ráðið á fundinum ásamt frekari yfirferð yfir ársreikning. Starfsmannamál fengu nokkra athygli ásamt samskiptum við lögmann sveitarfélagsins vegna ýmissa mála.

Á laugardeginum sat ég aðalfund Veiðifélags Miðfjarðarár í umboði sveitarfélagsins og var jafnframt fundarstjóri. Um kvöldið var svo kótilettukvöld skipulagt af góðum hópi fólks til að safna fé til áframhaldandi vinnu við að koma Bangsabát í skjól og ganga frá Norðurbrautarhúsinu við Verslunarminjasafnið. Kvöldið heppnaðist með eindæmum vel, frábærir kynnar þeir Gunnar Rögnvaldsson og Gísli Einarsson og skemmtiatriðin frábær. Ekki síst voru kótiletturnar einstaklega góðar. Ég vil þakka öllum þeim sem hönd lögðu á plóg fyrir sín óeigingjörnu störf í tengslum við kvöldið og verkefninu um Norðurbraut í heild sinni. Það eru ekki mörg ár síðan ég fékk kynningu á áformunum og það hefur verið frábært að sjá það verða að veruleika undir stjórn öflugs fólks sem vinnur af skynsemi og ráðdeild. Húsnæðið á eftir að verða bæjarprýði þegar framkvæmdum verður lokið.

Meðal þeirra sem tróðu upp á kótilettukvöldinu var Rokkkórinn.

Hér að framan hefur verið farið yfir það helsta sem sveitarstjóri sýslaði í liðinni viku. Sem fyrr er listinn alls ekki tæmandi. Sveitarstjóra berast fjölmörg erindi og símtöl um hin ýmsu málefni. Það er alltaf gott að heyra í íbúum og ég hvet þau til að hafa samband með hvers kyns spurningar og/eða athugasemdir. Ég vek athygli á því að hægt er að panta símtal á heimasíðu sveitarfélagsins sem er til hægðarauka. Sjá hér.

Var efnið á síðunni hjálplegt?