3. júní 2024

Vikan 27. maí – 2. júní

Enn halda vikurnar áfram að vera stuttar. Ekki vegna lögbundinna frídaga í þetta skiptið heldur persónulegra frídaga. Það komst engu að síður þónokkuð í verk í liðinni viku.

Framkvæmdaráð fundaði á mánudagsmorgni og í kjölfarið fundaði ég eins og jafnan með verkefnisstjóra umhverfismála. Nú fara ungmenni í vinnuskólanum að hefjast handa við að fegra umhverfi okkar og hefur Ólöf undirbúið komu þeirra undanfarnar vikur. Ég sinnti skrifborðsverkefnum í framhaldinu áður en ég fór í frí sem varði eftir hádegi á mánudag og allan þriðjudag.

Landbúnaðarráð fundaði svo á miðvikudeginum. Þar var veitt leyfi fyrir fjallagrasatínslu, fjármagni til viðhalds heiðagirðinga deilt niður og veitt umsögn um landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu sem byggðarráð hafði áður veitt umsögn um. Þar sem umsagnarfrestur var framlengdur eftir miklar athugasemdir frá bændum ákvað ráðið að veita sína eigin umsögn. Fundargerðin er hér. Því næst hóf ég undirbúning fyrir byggðarráðsfund komandi viku og svaraði nokkrum erindum sem biðu.

Fyrripartur fimmtudagsins fór í skrifborðsvinnu svo sem samþykkt reikninga, lokun mála í skjalakerfinu, innsendingu umsagna sem og undirbúning byggðaráðsfundar. Ég reyni að hafa dagskrá byggðarráðsfunda tilbúna fyrir föstudagsfund með oddvita og formanni byggðarráðs til að við getum farið yfir það sem liggur fyrir og rætt bókanir og slíkt. Fundarboðið er svo sent út í framhaldinu en samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins þarf það að vera farið út með að minnsta kosti 48 klst. fyrirvara. Ég gekk jafnframt frá kaupsamningi og afsali vegna sölu á Engjabrekku en undirritun fór fram á föstudeginum. Einnig fór ég yfir samantekt starfshóps um dreifnám sem verið hefur að störfum. Eftir hádegi á fimmtudeginum skaust ég svo á Blönduós þar sem sveitarstjórar á Norðurlandi vestra funduðu með lögreglustjóra en við komum saman á nokkurra mánaða fresti til að fara yfir ýmis sameiginleg mál. Góðir og gagnlegir fundir.

Föstudagurinn hófst með fundi með oddvita og formanni byggðarráðs líkt og áður. Að honum loknum var undirritun kaupsamnings og afsals vegna Engjabrekku og strax að því loknu fór ég í kaffi á pósthúsinu. Það var ekki gleðilegt tilefni heldur var um að ræða kveðjukaffi á síðasta opnunardegi pósthússins. Við færðum þeim Mögnu, Auðbjörgu og Söru blóm með kærum þökkum frá sveitarfélaginu fyrir þeirra frábæru þjónustu í gegnum árin. Ég var döpur að þessari kveðjustund lokinni en auk þess að sjá á eftir starfseminni og þeim störfum sem tapast við lokunina hef ég taugar til þessarar starfsemi þar sem ég var þar mikið sem barn en mamma vann hjá símanum um árabil. Við höfum mótmælt lokuninni harðlega m.a. með umsögn til Byggðastofnunar sem fer með póstmál og hefur satt að segja ekki enn afgreitt beiðni Póstsins um lokun og þær umsagnir sem bárust þrátt fyrir að pósthúsinu hafi þegar verið lokað og húsið sett á sölu. Það eru skrítin vinnubrögð.

Magna, Sara og Auðbjörg.

Eftir hádegið var ég í sambandi við mannauðsráðgjafa sveitarfélagsins út af viðveru- og mannauðsstefnum sem eru í vinnslu, hugði að leigufélaginu Bústað ásamt fleiru. Undir lok dags tók ég þátt í perluviðburði á vegum Krafts í grunnskólanum. Þar komu fjölmargir saman og perluðu armbönd með orðunum Lífið er núna sem félagið selur til að fjármagna starfs sitt. Það var gott að geta lagt þeim lið með þessum hætti og gaman að sjá hversu mörg mættu til að taka þátt.

Perluviðburðurinn fór fram í Grunnskólanum. Myndin er tekin við upphaf hans en þegar líða tók á fjölgaði verulega í salnum og var nánast hvert sæti setið.

Helgin var svo viðburðarrík með kosningum á laugardeginum og sjómannadeginum á sunnudeginum. Ég tók þátt í sjómannadagsmessu sem vera átti á Bangsatúni en var flutt inn í VSP húsið vegna veðurs. Í kjölfar hennar var lagður blómsveigur að minnismerki um drukknaða sjómenn en milli Kvennabandsins og sveitarfélagsins er samningur um kostun á kransinum sem lagður er við minnismerkið. Félag eldri borgara stóð svo fyrir kaffi í VSP húsinu þar sem borð svignuðu undan kræsingum. Þar var einnig sett upp sýningin Gullin okkar með handavinnu sem fólk á í fórum sér eftir afa og ömmur eða aðra forfeður. Virkilega vel heppnuð sýning. Ég vil þakka félaginu fyrir að taka sjómannadaginn upp á sína arma að sínu eigin frumkvæði. Að öllum ólöstuðum á Jónína Sigurðardóttir mikinn heiður skilinn fyrir það og vil ég þakka henni sérstaklega, ásamt öðrum félagsmönnum kærlega fyrir það frumkvæði og vinnuna sem fer í skipulag sem þetta. 

Var efnið á síðunni hjálplegt?