Vikan 7.-13. október 2024
Haustin eru annasamur tími með tilliti til ráðstefna og funda. Fjármálaráðstefna sveitarfélaganna sem haldin er af Sambandi íslenskra sveitarfélaga er einn þessara árvissu viðburða og var haldin í síðustu viku. Þar er fjallað um málefni sveitarfélaga með áherslu á fjármál en einnig var í þetta skiptið nokkuð rætt um stafrænar lausnir, snjallvæðingu og gervigreind. Ég brá því á það ráð að gefa gervigreindinni nokkur stikkorð um fundi síðustu viku og bað hana um að skrifa dagbókarfærslu út frá þeim. Þetta er afraksturinn:
Í vikunni tók ég þátt í byggðarráðsfundi þar sem við ræddum mikilvæg málefni sveitarfélagsins, framkvæmdir og fjárhagsáætlun. Einnig sat ég stjórnendafræðslu um geðheilbrigði, sem var mikilvæg til að auka vitund um geðheilbrigði í samfélaginu.
Á miðvikudag var ég á fundi vegna loka ljósleiðaravæðingar, þar sem við ræddum stöðu verkefnisins og næstu skref. Ég tók einnig þátt í fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna til að fræðast um nýjustu þróun í fjármálum sveitarfélaga.
Fyrir utan þetta var ég á fundi með Vegagerðinni, þar sem við ræddum samgöngumál og framkvæmdir í sveitarfélaginu, og fundi með heilbrigðisráðherra þar sem við ræddum heilbrigðismál og þjónustu við íbúa.
Einnig var ársfundur jöfnunarsjóðs haldinn, þar sem rætt var um jöfnunarsjóð og framtíðarsýn. Að lokum undirritaði ég þjónustusamning um þjónustu við eldra fólk í tengslum við verkefnið Gott að eldaast, sem mun styrkja þjónustu við eldri borgara.
Ekki slæmt. Spurning hvort ég geti í framtíðinni hlaðið upp mynd af dagbókinni og látið gervigreindina um dagbókarskrifin.
En svona til að setja aðeins meira kjöt á beinin þá var byggðarráðsfundurinn á mánudeginum óvenju stuttur. Megin efni hans var ráðning slökkviliðsstjóra, Vals Freys Halldórssonar. Hann kom til okkar á síðasta ári og var ráðinn til eins árs en er nú ráðinn ótímabundið. Með Val kemur mikil reynsla sem nýtist liðinu afar vel og um leið eykur öryggi íbúa til muna. Fundargerð byggðarráðsfundarins er svo hér.
Á þriðjudeginum var mánaðarlegur stjórnendafundur og í þetta skiptið fengum við Helenu Jónsdóttur sálfræðing hjá Mental ráðgjöf til að fræða okkur um geðheilbrigðismál á vinnustöðum sem ég hef mikinn áhuga á að setja fókus á hjá sveitarfélaginu sem lið í að bæta vellíðan starfsmanna okkar. Helena hélt fræðsluna í gegnum fjarfundabúnað en stjórnendurnir sátu saman í fundarsal ráðhússins. Það er frábært að geta nýtt tæknina með þessum hætti og spara þannig bæði tíma og peninga að ónefndum umhverfisþáttunum. Fyrirlesturinn var virkilega áhugaverður og fengum við marga góða punkta sem við munum vinna með í framhaldinu.
Áhugasamir stjórnendur á fyrirlestri um geðheilbrigði á vinnustöðum
Á þriðjudeginum sat ég jafnframt fund með öðru fyrirtækinu af tveimur sem sýndi því áhuga að klára ljósleiðaravæðingu í sveitarfélaginu með stuðningi þeim sem við fengum á dögunum frá hinu opinbera. Snýst sá stuðningur um að ljúka lagningu ljósleiðarans í þéttbýli á Laugarbakka og á Hvammstanga. Einnig sat ég tvo fundi mð íbúum út af ýmsum málum.
Snemma á miðvikudagsmorgun lagði ég svo land undir fót suður til Reykjavíkur til að sitja fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna þar sem, eins og gervigreindin gat sér til um, var rætt um nýjustu þróun í fjármálum sveitarfélaganna. Flutt voru fjölmörg erindi sem voru afar áhugaverð, fjallað var um eins og ég var búin að nefna, stafræna þróun og snjallvæðingu en einnig innviðauppbyggingu, efnahagsmál og horfurnar framundan, úrgangsmál, æskulýðsrannsóknir, verkefnið Gott að eldast, þróunarverkefnið MEMM og margt fleira. Í tengslum við ráðstefnuna heimsóttum við Vegagerðina til að fara yfir samgöngumál og framkvæmdir í sveitarfélaginu eins og gervigreindin setti fram og hafi rétt fyrir sér með. Góður fundur þar sem «endurtekið efni» bar á góma. Einnig sátum við fund með heilbrigðisráðherra og þar hafði gervigreindin líka rétt fyrir sér með umræðuefnið. Einkum ræddum við læknamál og hjúkrunarrými. Kjörnir fulltrúar fóru svo í heimsókn á Alþiningi á meðan ég sat ársfund Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Áhugasöm um sjóðinn geta kynnt sér hann hér.
Magnús Magnússon, formaður byggðarráðs, undirrituð, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Þorleifur Karl Eggertsson oddviti sveitarstjórnar.
Að ráðstefnu lokinni fundaði ég með forsvarsmönnum UMFÍ þar sem við ræddum ýmis málefni skólabúðanna sem þau hafa nú rekið í tvö ár. Starfsemin gengur afar vel og þær miklu framkvæmdir sem sveitarfélagið hefur ráðist í hafa skilað mikilli ánægju og betra starfi. Á heimleiðinni kom ég við á Akranesi þar sem ég og Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands undirrituðum þjónustusamning um rekstur samþættrar heimaþjónustu fyrir aldraða. Virkilega ánægjulegt verkefni sem ég sagði frá í síðustu dagbókarfærslu og við trúum að eigi eftir að bæta þjónustu við eldri borgara til muna.
Undirritun þjónustusamningsins um rekstur samþættrar heimaþjónustu fyrir aldraða. Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir forstjóri HVE og undirrituð.
Tími inn á milli funda í vikunni var nýttur í ýmis verkefni. Vinnu við frágang viðverustefnu sem hefur verið í umsagnarferli hjá starfsmönnum sveitarfélagsins, samskipti við Bríeti leigufélag vegna yfirtöku á íbúðum að Gilsbakka á Laugarbakka, ýmis mál tengd fjárhagsáætlunarvinnu, undirbúningur funda með Vegagerðinni og ráðherra, vinnu vegna mannauðsstefnu sveitarfélagsins sem er í vinnslu og svo framvegis. Annasöm og lærdómsrík vinna. Ekki síst vegna samtala við kollega víðs vegar að á landinu á fjármálaráðstefnunni þar sem bækur voru bornar saman og helstu mál rædd.
Leyfi hér að fljóta með mynd af einstaklega fallegu skýjafari á þriðjudagsmorgninum.