23. janúar 2023

Vikan 16.-22. janúar 2023

Dagbókarfærslan verður með styttra móti þessa vikuna. Ekki af því að svo lítið hafi verið að gera í síðustu viku heldur fremur að tíminn sem fara átti í dagbókarskrifin varð að fara í annað. Svona er þetta nú stundum. En ég mun engu að síður stikla á stóru.

Á mánudeginum fundaði framkvæmdaráð líkt og áður. Einnig sat ég vinnustofu fyrir verkefnaráð Holtavörðuheiðarlínu 3 sem fram fór á Hótel Laugarbakka. Önnur verkefni þann daginn voru yfirferð yfir drög að útboðsgögnum fyrir sorpútboð sem stendur fyrir dyrum, undirbúningur stjórnendafundar, samþykkt reikninga, ýmis starfsmannamál o.fl. Ekki var byggðarráðsfundur þar sem engin brýn mál lágu fyrir.

Þriðjudagurinn hófst á mánaðarlegum stjórnendafundi með stjórnendum stofnana sveitarfélagsins og að honum loknum fundaði ég með SSNV út af styrksumsókn í byggðaáætlun. Í kjölfarið funduðum við með HMS vegna nýrrar kröfu um skráningu leigusamninga sem tók gildi um áramót en fáir ef nokkrir vita hvernir á að virka í framkvæmd. Kunniglegt stef þegar ný lög eða reglugerðir taka gildi. Auk þessa funda vann ég í minnisblaði fyrir starfshóp um eignir og jarðir sveitarfélagsins, las yfir menntastefnu sem samþykkt var á síðasta sveitarstjórnarfundi og verður birt fljótlega. Þessu til viðbótar sat ég fróðlegt Dale Carnegie námskeið sem Samband íslenskra sveitarfélaga bauð sveitarstjórum og kjörnum fulltrúum upp á. Um 80 manns sátu námskeiðið sem hafði yfirskriftina Forysta með framtíðarsýn. Það var gaman að rifja aðeins upp Dale Carnegie hugmyndafræðina en ég starfaði við þjálfun á Dale Carnegienámskeiðum um nokkurra ára skeið.

Á miðvikudeginum var óvenju lítið bókað enda hafði ég ætlað að vera á fundum í Reykjavík sem breyttist með stuttum fyrirvara. Það var kærkomið að “græða” heilan dag sem ég nýtti til ýmissa verka. Ég náði þess vegna að sitja fyrsta fund af þremur í stefnumótun um málefni eldra fólks í sveitarfélaginu. Góður hópur eldri borgara tók þátt og voru umræður afar gagnlegar. Skipulagsmál, starfsmannamál, atvinnumál og ýmislegt fleira fékk líka athygli þann daginn. Söngvarakeppni Grunnskólans var haldin í Félagsheimilinu um kvöldið og eins og endranær var hún frábær skemmtun. Það er magnað hvað unga fólkið okkar er hæfileikaríkt og óhrætt við að koma fram. Ég óska öllum þeim sem tóku þátt til hamingju með árangurinn og skipuleggjendum þakka ég fyrir sitt góða framlag og vel unnin störf.

Hópur þátttakenda í stefnumótun um málefni eldri borgara í Húnaþingi vestra.

Á fimmtudeginum undirbjó ég byggðarráðsfund komandi viku, lagði lokahönd á umsókn sveitarfélagsins í byggðaáætlun, samþykkti reikninga, lauk við minnisblað til starfshóps um eignir og jarðir, skrifaði fréttir á heimasíðuna og ýmislegt fleira. Fulltrúar UMFÍ litu við í Ráðhúsinu eftir hádegið, þau Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri, Sigurður Guðmundsson forstöðumaður skólabúðanna á Reykjum og Jón Aðalsteinn Bergsveinsson kynningarfulltrúi. Ræddum við skólabúðirnar en UMFÍ tók við rekstri þeirra sl. haust. Vorum við sammála um ánægju með samstarfið. Heilmikil uppbygging hefur átt sér stað á Reykjum og áform uppi um enn frekari uppbyggingu.

Auður framkvæmdastjóri UMFÍ, undirrituð og Sigurður forstöðumaður skólabúðanna. Mynd: Jón Aðalsteinn Bergsveinsson.

Seinnipartinn á fimmtudeginum fór hópur starfsmanna Ráðhússins í pílu í nýrri aðstöðu Pílufélagsins Hvammstanga í Félagsheimilinu. Áttum við góða stund saman en fáum sögum fer af færni sveitarstjórans í þessari skemmtilegu íþrótta. Gamall frasi ungmennahreyfingarinnar á hér vel við – Það skiptir mestu að vera með.

 

Henrike yfirfélagsráðgjafi og Bogi skipulagsfulltrúi einbeitt í pílukastinu.

Föstudagurinn hófst á hefðbundinn hátt, með fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Fórum við yfir dagskrá komandi byggðarráðsfundar og “tókum skeytin” eins og vanalega. Ég fundaði einnig með formanni landbúnaðarráðs um ýmis mál og sinnti nokkrum verkefnum fyrir ráðið í kjölfarið. Eins og komið hefur fram áður í dagbókarfærslum er sveitarstjóri starfsmaður ráðsins. Föstudagurinn var annars styttri en vanalega þar sem ég var við útför eftir hádegið.

Á sunnudeginum tók ég mig til og leit enn lengra aftur í tímann en vant er í dagbókarfærslum. Ég skoðaði fréttir á heimasíðunni allt árið 2022, fór í gegnum fundargerðir byggðarráðs og sveitarstjórnar og setti saman yfirlit yfir það sem efst var á baugi í hverjum mánuði. Sú samantekt sýnir svo ekki er um villst að nýliðið ár var viðburðarríkt. Upptalningin er alls ekki tæmandi – og þau sem koma auga á að eitthvað vantar stórlega í hana mega gjarnan láta mig vita og ég bæti úr því í snarhasti. Það er oft gott að staldra við og minna sig á hvað hefur áunnist. Það er oft meira en mann grunar.

Efst á baugi árið 2022 er aðgengilegt hér. Með því að færa músina yfir listann má sjá hvar eru virkir hlekkir til frekari upplýsingar fyrir þau sem vilja.

Var efnið á síðunni hjálplegt?