Fyrsta dagbókarfærsla nýs árs lítur hér dagsins ljós. Ekki er úr vegi að óska lesendum gleðilegs árs með þakklæti fyrir það sem er liðið. Þegar litið er á það sem efst var á baugi á árinu 2023 má sjá að eitt og annað hefur á daga drifið og ástæða til að þakka starfsfólki sveitarfélagsins fyrir vel unnin störf og gott samstarf.
Árið fór rólega af stað vinnulega séð með stuttu fríi eftir áramótin. Það fór hins vegar af þeim mun meiri krafti í persónulega lífinu með fæðingu barnabarns 4. janúar. Það er óhætt að segja að það hafi verið góð byrjun á árinu og heilsast móður og barni vel. Ég tók að mér gæsluhlutverk fyrir eldra barnabarnið sem gerði það að verkum að fyrsta vika ársins var endaslepp í störfum. Ég náði þó að funda með Félagi eldri borgara um húsnæðismál félagsins, taka saman ársyfirlitið sem vísað var til hér að framan, undirbúa fundi, yfirfara efni á heimasíðu enda ýmislegt sem þarf að uppfæra á nýju ári o.s.frv. Einnig er gott að yfirfara verkefnalistann í upphafi nýs árs og setja sér markmið í starfi.
Önnur vika ársins hófst með hefbundnum hætti með fundi framkvæmdaráðs og byggðarráðsfundi eftir hádegið. Á þeim fundi var byrjað á að fara yfir og samþykkja starfsáætlun ráðsins þar sem helstu verkefni þess eru tilgreind eftir mánuðum. Einnig var samþykkt og vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar uppfærð húsnæðisáætlun fyrir árin 2024-2033. Húsnæðisáætlanir voru fyrst gerðar árið 2022. Þeim er ætlað að draga fram myndir af stöðu húsnæðismála, greina framboð og eftirspurn eftir ólíkum búsetuformum og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta þeirri eftirspurn. Afar gagnleg vinna er að baki áætluninni og ljóst að þörf er á áframhaldandi uppbyggingu húsnæðis í sveitarfélaginu. Á byggðarráðsfundinum voru einnig lögð fram drög að uppfærðri stefnu og viðbragðsáætlun gegn einelti, áreitni og ofbeldi. Samþykkti ráðið að stefnan yrði sett í opið samráð á heimasíðu sveitarfélagsins og var það gert strax að fundi loknum. Ég hvet öll að kynna sér efni áætlunarinnar og gera athugasemdir ef þurfa þykir. Eins og einhver hafa tekið eftir höfum við upp á síðkastið lagt áherslu á að stefnur og áætlanir fari til samráðs á heimasíðu enda sjá betur augu en auga þegar slík vinna er í gangi.
Á byggðarráðsfundinum voru einnig samþykkt og vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar drög að reglum um sölu á lausafé Húnaþings vestra. Er um að ræða reglur um hvernig á að meðhöndla lausafé í eigu sveitarfélagsins sem ekki er lengur þörf fyrir. Þetta geta verið bílar, húsbúnaður, ýmiskonar tæki o.s.frv. Mikilvægt er að samræmis sé gætt við ráðstöfun slíkra muna og eiga þessar reglur að taka á því. Þær eru aðgengilegar hér.
Eitt og annað var fjallað um fleira á fundinum sem vísast til fundargerðar með.
Á þriðjudeginum átti ég fund með stjórnsýslusérfræðingi KPMG sem er hluti af endurskoðunarferli sveitarfélagsins. Farið var yfir víðan völl og breitt svið stjórnsýslu sveitarfélagsins. Unnin er skýrsla út frá ítarlegri athugun þeirra. Undanfarin ár hefur sú skoðun komið vel út og það sama á við um í ár. Á þriðjudagskvöldinu var svo íbúafundur á Borðeyri um framtíð skólahúsnæðisins þar. Á síðast ári var starfshópur að störfum um eignir, jarðir og lendur sveitarfélagsins. Skilaði hann tillögum þar sem meðal annars var lagt til að skoðað verði að bjóða skólahúsnæðið til leigu eða sölu undir starfsemi sem styrkir búsetu og eykur atvinnu á svæðinu. Áttum við góðar umræður við íbúa enda að mörgu að hyggja í þessu sambandi. Niðurstaða fundarins var á þá leið að skoða hvaða tækifæri eru til staðar en stíga engu að síður varlega til jarðar. Munum við fara í þá vinnu á næstunni. Ýmis önnur mál bar á góma eins og samgöngumál, hitaveita o.fl. Virkilega ánægjulegur og góður fundur.
Skólahúsnæðið á Borðeyri er reisulegt.
Á miðvikudeginum var fundur landbúnaðarráðs á dagskrá eftir hádegið en fyrir hann sinnti ég ýmsum skrifborðsverkefnum og undirbúningi sveitarstjórnarfundar. Inn á fund ráðsins komu refaskyttur og voru málefni þeirra rædd í þaula. Samningar um grenjavinnslu eru lausir og vinna við endurnýjun þeirra stendur yfir. Komu skytturnar með gott innlegg inn í þá vinnu. Einnig var starfsáætlun ráðsins samþykkt. Fundargerð fundarins er hér.
Á fimmtudagsmorgninum tók ég saman lista yfir helstu verkefni í skýrslu sveitarstjóra og lauk við undirbúning sveitarstjórnarfundar sem var á dagskrá eftir hádegið. Hann var með hefðbundnum hætti, afgreiðsla fundargerða og staðfesting mála sem vísað hafði verið til staðfestingar. Svo sem húsnæðisáætlun, reglur um sölu á lausafé, samningar um leigu á landi o.s.frv. Einnig var samþykktur áframhaldandi afsláttur af gatnagerðargjöldum nokkurra lóða eins og gert hefur verið undanfarin ár. Þeim lóðum sem þessi afsláttur nær til fækkar óðum sem er afar ánægjulegt. Fundargerð sveitarstjórnarfundarins í heild sinni er hér.
Fyrripart föstudags varði ég í ýmis skrifborðsverkefni auk þess að funda með oddvita og formanni byggðarráðs eins og jafnan á föstudögum. Ég undirbjó fund byggðarráðs komandi mánudags og sendi út fundarboð, svaraði hinum ýmsu tölvupóstum sem biðu afgreiðslu, vann úr sveitarstjórnarfundinum og tilkynnti um afgreiðslur erinda, setti inn fréttir á heimasíðu með því sem þurfti eftir fundinn o.s.frv. Hápunktur dagsins var þó formleg opnun mannaðar lögreglustöðvar á Hvammstanga. Stöðin opnaði síðasta haust en Lögreglan bauð til formlegrar opnunar nú. Birgir Jónasson lögreglustjóri flutti stutt ávarp og ég sömuleiðis þar sem ég lýsti yfir ánægju með opnun stöðvarinnar. Þjónusta við okkur íbúana batnar til mikilla muna og einnig við þá vegfarendur sem um umdæmið fara. Miklu munar til dæmis á viðbragðstíma héðan verði óhöpp á Holtavörðuheiði og viðbragði frá næstu lögreglustöð á Blönduósi. Það var kaldhæðni örlaganna að á meðan á opnuninni stóð var stöðvarstjórinn, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, fjarri góðu gamni í útkalli á heiðinni. Forvarnargildi mannaðar lögreglustöðvar er ótvírætt og ekki má gleyma því þegar kostir stöðvarinnar eru upptaldir að henni fylgja störf. Nú eru þar tveir lögreglumenn staðsettir.
Ég, Birgir Jónasson lögreglustjóri og Þorleifur Karl oddviti glaðbeitt við opnunina.
Opnun stöðvarinnar voru góð lok á vikunni þó ég hafi litið á skrifstofuna fyrri part laugardagsins til að hreinsa aðeins upp. Það er oft gott að nýta rólega tíma til að búa í haginn.
Annars hafa þessar fyrstu tvær vikur nýs árs verið ánægjulegar. Það er heilmargt í gangi og spennandi tímar framundan í sveitarfélaginu. Ég hlakka til að takast á við krefjandi verkefni á nýju ári – sveitarfélaginu til heilla.