Borðeyri

Borðeyri við vestanverðan Hrútafjörð er eitt fámennasta þorp landsins. Samkvæmt Vatnsdæla sögu var það Ingimundur gamli sem kenndi staðinn við rekaviðarborð sem hann sá er hann kom í Hrútafjörð á leið sinni norður í Vatnsdal og síðan hefur staðurinn borið Borðeyrarnafnið. Borðeyri varð löggiltur verslunarstaður 1846 og samfelld verslun þar á staðnum fram á 21. öld. Á síðari hluta 19. aldar var Borðeyri mikilvæg útskipunarhöfn er þaðan var m.a. flutt mikið af sauðfé sem selt var m.a. til Bretlands og þaðan fóru margir þeirra sem fluttu "vestur um haf" og gerðust vesturfarar í Ameríku. 

Í dag er þar rekið bifreiðaverkstæði, ferðaþjónusta er í Tangahúsi og tjaldstæði yfir sumartíman. Eigendur gömlu húsana á Borðeyri hafa margir unnið að því að gera hús sín upp og er bæjarmyndin afar snotur. Eitt elsta hús staðarins er Riis hús, reist 1862, það hefur til að mynda verið gert upp að utan og setur mikinn svip á staðinn. Árið 2018 var elsti hluti þorpsins, er stendur á svokölluðum Borðeyrartanga, gerður að verndarsvæði í byggð samkvæmt lögum um verndarsvæði. Þannig má varðveita menningarsögulegt gildi verslunarstaðarins á Borðeyri og styrkja byggð í þorpinu með þeim hætti að söguleg arfleið hans fái notið sín, bæði gagnvart heimamönnum og komandi kynslóðum. 

Á fundi sveitarstjórnar þann 10. apríl 2019 var tekið fyrir bréf Mennta- og menningarmálaráðherra þar sem staðfest er tillaga um Verndarsvæði í byggð á Borðeyri.

Markmið þess að gera hluta Borðeyrar að sérstöku verndarsvæði er að viðhalda og styrkja byggð á Borðeyri með þeim hætti að söguleg arfleifð kaupstaðarins fái notið sín og gildi hennar undirstrikað gagnvart heimamönnum jafnt sem aðkomufólki en þó ekki síst gagnvart komandi kynslóðum.

Til grundvallar tillögunni var Húsakönnun á Borðeyri frá 2017 ásamt ítarlegri umfjöllun um sögu Borðeyrar sem unnin var af dr. Vilhelm Vilhelmssyni sagnfræðingi vegna tillögunnar og fornleifaskráning fyrir Borðeyri frá 2008.

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?