Vikan 9.-15. október 2023
Eitt af því sem mér líkar við starf sveitarstjóra er hversu fjölbreytt það er. Hver dagur er ólíkur þeim fyrri og hver vika felur í sér nýjar áskoranir. Síðasta vika var um margt óvenjuleg þar sem ég var á þriggja daga námskeið síðari hluta vikunnar sem gerði það að verkum að önnur verkefni urðu að bíða. Námskeiðið var það langt hvern dag að ég náði ekki að sinna mörgum verkefnum samhliða því en náði þó að halda tölvupóstinum í horfinu og ýmislegt fleira á kvöldin.
Mánudagurinn hófst á yfirferð verkefna með verkefnisstjóra umhverfismála. Þar á eftir fundaði ég með leikskólastjóra um ýmis mál er varða leikskólann. Í leikskólanum er unnið gott og faglegt starf og er sérstaklega ánægjulegt hvað nú eru margir leiðbeinendur við skólann í námi. Ég hef gaman að því að sækja Sóldísi Yrju ömmustelpuna mín í leikskólann öðru hvoru og fá að vera örlítill þáttakandi í starfi skólans. Að þessum fundi loknum tók við undirbúningur byggðarráðsfundar sem að vanda var á dagskrá eftir hádegið. Eins og ég hef nefnt höfum við nýverið tekið upp fundakerfi í tengslum við skjalakerfi sveitarfélagsins. Innleiðing kerfisins hefur tekið smá tíma eins og slík verkefni gera jafnan. Hins vegar erum við að sjá gríðarlegan tímasparnað með notkun kerfisins og mun markvissari vinnubrögð þar að auki. Nú hefur nefndarfólk aðgang að fundagátt þar sem gögn funda eru aðgengileg í stað þess að fá öll gögn send með tölvupósti. Með því er öryggi gagna meira en áður var. Fundargerðir eru jafnframt unnar beint í kerfinu sem líka er breyting frá því sem áður var.
Á byggðarráðsfundinum var tekinn fyrir fyrsti viðauki ársins við fjárhagsáætlun. Ég hef nefnt það oft áður í þessum pistlum að fjárhagsáætlanir sveitarfélaga eru mun stífari rammi um reksturinn en þekkist í fyrirtækjum á almennum markaði. Eðlilega, þar sem í sveitarfélögunum er sýslað með almannafé. Áætlanirnar eru bindandi og nær allar breytingar á þeim þarf að gera með svokölluðum viðaukum þar sem frávik eru útskýrð. Á því eru örfáar undantekningar sem eru skýrðar í sérstökum reglum sem sveitarfélagið hefur sett sér í samræmi við lög þar um. M.a. þarf að skýra tilfærslu fjármuna á milli liða áætlunarinnar þó svo að ekki felist í þeim breyting á rekstrarniðurstöðu. Þessi viðauki var slíkur, að lang mestu leyti, þ.e.a.s. niðurstaða hans hafði ekki áhrif á áætlaða rekstrarniðurstöðu. Viðauka þarf að leggja fram í byggðarráði sem vísar þeim til sveitarstjórnar til staðfestingar. Var það gert á sveitarstjórnarfundi sem fram fór á fimmtudeginum.
Á byggðarráðsfundinum var einnig tekið fyrir erindi frá Leigufélaginu Bústað hses. sem hefur átt og rekið íbúðirnar á Lindarvegi 5A-F. Var stjórn félagsins að óska eftir heimild sveitarstjórnar til að selja íbúðirnar til Brákar íbúðarfélags hses. Í erindi félagsins kom fram að frá því að Leigufélagið Bústaður hses. var stofnað árið 2019 hafa orðið umtalsverðar breytingar á umhverfi uppbyggingar leiguíbúða á landsbyggðinni. Meðal annars var Brák íbúðafélag hses. stofnað árið 2022 sem hefur það að markmiði að ná fram stærðarhagkvæmni sem næst ekki með litlum húsnæðissjálfseignastofnunum sem eiga og reka fáar íbúðir. Stofnaðilar Brákar eru 32 sveitarfélög sem staðsett eru utan höfuðborgarsvæðisins, þar á meðal Húnaþing vestra. Er sveitarfélögunum sem aðilar eru að Brák gefinn kostur á að leggja almennar íbúðir í þeirra eigu inn í félagið til þess einmitt að tryggja sem hagkvæmastan rekstur íbúðanna í þágu leigjenda. Stjórn Bústaðar hafði samþykkt þessa sölu en þar sem Húnaþing vestra sótti um svokallað stofnframlag frá ríkinu til byggingar íbúðanna þurfti samþykki sveitarstjórnar fyrir sölunni. Var hún samþykkt á byggðarráðsfundinum og svo staðfest á sveitarstjórnarfundinum á fimmtudeginum.
Í tengslum við þessa sölu er vert að fram komi að Brák mun taka yfir allar skuldbindingar Bústaðar, þar með talið gildandi leigusamninga. Leigufélagið Bríet mun annast umsýslu með íbúðunum fyrir hönd Brákar. Markmið Bríetar er að vera hluti af uppbyggingu og styrkingu leigumarkaðar sem stuðlar að öryggi á langtímaleigumarkaði með sérstaka áherslu á landsbyggðina í samstarfi við sveitarfélögin á landinu. Félagið er sjálfstætt starfandi leigufélag í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, stofnað að norrænni fyrirmynd og rekið án hagnaðarsjónarmiða. Það þarf því enginn að óttast freklega framkomu nýs eiganda gagnvart leigjendum sem eðlilegt er að óttast um í kjölfar umræðu sem verið hefur um sjálfstæð leigufélög undanfarin misseri. Svo það sé sagt hreint út. Tilgangurinn er að ná fram stærðarhagkvæmni í rekstri íbúðanna sem lítil félög eins og Bústaður ná síður fram með örfáum íbúðum í sínu eignasafni. Er það til hagsbóta fyrir leigjendur frekar en hitt.
Það er hins vegar óumdeilt að frumkvæði og þátttaka sveitarfélagsins í byggingu þessara íbúða gerði það að verkum að ráðist var í framkvæmdina sem reyndist full þörf á. Vonandi gerir samstarf við framangreind félög, Brák og Bríeti, það að verkum að framhald verði á uppbyggingu leiguíbúða í sveitarfélaginu. Að því er sannarlega stefnt.
Fundargerð byggðarráðsfundarins er hér.
Veðurspá þriðjudagsins var hundleiðinleg og þar sem ég vildi ekki missa af námskeiðinu sem hófst á miðvikudag fór ég suður á mánudagskvöldi og vann í Reykjavik á þriðjudeginum. Ég sinnti þar ýmsum skrifborðsverkefnum auk þess að sitja kynningarfund Jafnréttisstofu fyrir sveitarfélög á netinu. Meðal annars vann ég áfram í innleiðingu fyrrnefnds fundarkerfis, undirbúningi sveitarstjórnarfundar sem fór fram á fimmtudeginum, gekk frá sendingu á ársreikningi Minningarsjóðs Ágústu og Daníels sem ég minntist á í síðustu færslu til ríkisendurskoðuna, birti auglýsingu um sölu á fasteigninni að Lindarvegi 3a og sömuleiðis frétt um þátttöku sveitarfélagsins í verkefninu Gott að eldast sem við sóttumst eftir að taka þátt í í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Verkefnið er virkilega spennandi og við hlökkum til að takast á við það. Ég skoðaði jafnframt nokkur mál í samráðsgátt stjórnvalda og mál sem nefndasvið Alþingis hafði óskað umsagna um. Einnig sendi ég leigjendum á Lindarvegi 5A-F bréf um breytingu á eignarhaldi íbúðanna, svo fátt eitt sé talið.
Á fimmtudeginum fór haustþing Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra fram. Mér þótti leitt að missa af því en oft er það þannig að skuldbindingar hlaðast á sömu dagana. Mér þótti sérstaklega ánægjulegt að fá fréttir af því að á þinginu hafi verið gengið frá viljayfirlýsingu um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu á Blönduósi. Verkefnið hófst sem áhersluverkefni í minni tíð hjá samtökunum með rannsóknum á þeim varma sem glatast við starfsemi gagnaversins og með hvaða hætti væri hægt að nýta hann. Í honum felast mörg tækifæri sem ég vona að hægt verði að nýta sem allra best. Ég óska SSNV og nágrönnum okkar í Húnabyggð til hamingju með þennan áfanga.
Sveitarstjórnarfundurinn fór svo fram eftir hádegið. Hann var með hefðbundnum hætti en auk staðfestinga á fundrgerðum og samþykkt viðaukans var endurskipað í ungmennaráð og bókað um aukafund sveitarstjórnar vegna fyrri umræðu fjárhagsáætlunar. Fjárhagsáætlun þarf, líka og flestar meiriháttar ákvarðanir, tvær umræður í sveitarstjórn með a.m.k. tveggja vikna millibili. Fyrri umræðan fer fram 24. október og sú seinni verður á reglubundnum sveitarstjórnarfundi þann 9. nóvember. Vinna við áætlunina er á lokametrunum. Það hefur verið áskorun að ná henni saman en fjármálareglur þær sem voru aftengdar í Covid eru nú að taka gildi að nýju sem þýðir að áætlunin verður að vera réttu megin við núllið. Ég fer betur yfir áætlunina þegar hún hefur verið samþykkt.
Þar sem ég var ekki við hefðbundin störf megin part vikunnar tók ég vinnutörn á laugardeginum þar sem ég m.a. annars sendi út tilkynningar um afgreiðslur mála á sveitarstjórnarfundinum. Eins og ég hef nefnt áður þá er ekki tilkynnt um afgreiðslur nefnda og ráða fyrr en sveitarstjórn hefur staðfest fundargerðir og því er alltaf svolítil vinna eftir sveitarstjórnarfundina að senda út tilkynningar eftir kúnstarinnar reglum og loka málum í skjalakerfinu í kjölfarið. Auk þess svaraði ég nokkrum ósvöruðum tölvupóstum til að létta aðeins á verkefum komandi viku. Það er alltaf gott að byrja vinnuvikuna með nokkuð hreint borð þó vegna eðlis starfsins verði það líklega aldrei alveg hreint. Eins og einhver sagði einhverntíma: „mér leiðist þá ekki á meðan“ :)