Dagbókin er með seinni skipunum þessa vikuna. Allt í einu er kominn fimmtudagur. Það að tíminn er farinn að fljúga áfram þýðir aðeins eitt...að haustið er komið með öllum sínum önnum. Eins og maðurinn sagði: „okkur leiðist þá ekki á meðan.“
Vikan var óvenjulega stutt þar sem ég tók mér frí mestan part fimmtudags og allan föstudag. Auk þess fór ég ásamt sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs suður til Reykjavíkur á miðvikudeginum til að sinna ýmsum útréttingum fyrir sveitarfélagið sem safnast höfðu upp. Mánudagur og þriðjudagur voru hins vegar hefðbundnir skrifstofudagar.
Mánudagurinn hófst á fundi framkvæmdaráðs eins og jafnan. Í kjölfar þess þá átti ég ásamt Ólöfu verkefnisstjóra umhverfismála fund vegna eins af okkar fallegu ferðamannastöðum. Eftir hádegið fundaði byggðarráð svo eins og yfirleitt á mánudögum. Þar var m.a. til umfjöllunar tillaga að styttingu vinnuviku kennara sem ráðið samþykkti. Einnig var ný jafnréttisáætlun samþykkt en lögum samkvæmt skulu sveitarfélög setja sér slíka áætlun á fjögurra ára fresti. Jafnframt var lóðinni Norðurbraut 32 úthlutað til Dictum ræstingar. Þetta er lóðin sunnan megin við björgunarsveitarhúsið. Forgangsverkefni áfangastaðaáætlunar voru samþykkt en þau eru í meginatriðum þau sömu og í gildandi áætlun eða Uppbygging áfangastaða á Vatnsnesi, Borðeyri, Stígakerfi á Laugarbakka, Hvammstanga og Kirkjuhvammi, Kolugljúfur og Reykir í Hrútafirði. Á fundinum var einnig bókuð ósk um framlengingu á fresti vegna útboðs á sorphirðu en við erum ennþá að vinna með ráðgjöfum í að rýna niðurstöðuna. Frestur fékskt til 25. september. Um mikla hagsmuni er að ræða og því brýnt að skoða málin ofan í kjölinn. Fundargerð byggðarráðs er að finna hér.
Í kjölfar byggðarráðsfundar fengum við kynningu frá Yggdrasil Carbon, fyrirtæki sem vinnur að loftslagsverkefnum sem gefa vottaðar kolefniseininga. Áhugavert er að sjá hvaða tækifæri eru til staðar í þeim efnum og ljóst að þessi iðnaður ef hægt er að kalla hann það á eftir að eflast á komandi árum. Fyrir áhugasöm þá er heimasíða þeirra hér. Hugsanlega er þar að finna tækifæri fyrir bændur til að styrkja sínar jarðir enn frekar en um langtíma verkefni er að ræða.
Á þriðjudeginum hóf ég leika á því að setjast niður með oddvita og formanni byggðarráðs. Alla jafna hittumst við á föstudagsmorgun en þar sem ég var fjarverandi miðvikudag til föstudags brugðum við á það ráð að funda á þriðjudegi. Að því loknu settist ég niður með rekstrarstjóra til að fara yfir helstu verefni. Þar á bæ sér fyrir endan á mörgum verkefnum sumarsins. Ýmislegt er þó enn eftir sem þarf að fylgja eftir og koma í farveg. Það sem eftir lifði dags fór í samtíning, eða "blandaða ávexti" eins og einhver myndi orða það, fjármál, starfsmannamál, kynningarmál o.fl.
Þar sem vikan var óvenju stutt þá er við hæfi að rifja upp að fyrir skemmstu átti ég eins árs starfsafmæli en ég hóf störf 1. september 2022. Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá hefur þetta ár flogið hjá á ógnarhraða. Ég vil leyfa mér að segja að heilmargt hefur áunnist en það er svo sannarlega enn meira eftir. Ef hægt er að tala um „frústrasjón“ í mínu starfi þá væri hún líklega sú að hlutir geta gerst alveg óskaplega hægt. En þokast þó áfram smátt og smátt. Í stað þess að fara yfir árið í máli læt ég fylgja með nokkrar myndir frá hinum ýmsu verkefnum sem unnin hafa verið á árinu á vettvangi sveitarfélagsins, heimsóknum sem var farið í og gestum sem tekið var á móti o.s.frv. (röð myndanna er handahófskennd og listinn engan veginn tæmandi).
Ég þakka kærlega enn og aftur góðar viðtökur og það traust sem mér er sýnt. Það er oft áskorun að standa undir því en ég lofa að ég geri ávallt mitt allra besta.