Í Húnaþingi vestra fer fram fjölbreytt íþróttastarfsemi og aðstaða til ýmiskonar íþróttaiðkunar í boði.
Helstu íþróttasvæðin eru:
Íþróttamiðstöðin
Íþróttahús og sundlaug, ásamt þrektækjasal. Sjá nánar HÉR
Kirkjuhvammsvöllur
Völlurinn er í Kirkjuhvammi rétt austan við Hvammstanga. Þetta er fjölnota íþróttavöllur, nýtist bæði fyrir knattspyrnu og frjálsíþróttir. Aðstæður eru þannig að völlurinn nýtist helst yfir sumartímann. Nokkur ár eru síðan völlurinn var byggður upp og sett yfir hann gras, en hafði þá verið malarvöllur þarna síðan á fyrrihluta 9. áratugarins.
Aðstaða hestamanna
Hesthúsahverfi sveitarfélagsins stendur rétt austan við Hvammstanga, í Kirkjuhvammi. Þar standa reisuleg hesthús og reiðhöll auk æfingar- og keppnisreiðvallar. Hestamannafélag sveitarfélagsins er Þytur, og má finna frekari upplýsingar á heimasíðu þeirra HÉR.
Sparkvellir
Sparkvöllur var byggður við Grunnskóla Húnaþings vestra í samstarfi við KSÍ. Þetta er upphitaður og upplýstur gervigrasvöllur og nýtist því vel allt árið um kring. Einnig er sparkvöllur á Borðeyri.
Hreystivöllur/hreystibraut
Við sparkvöllinn er staðsettur hreystivöllur/hreystibraut að fyrirmynd "Skólahreysti", þar sem æfa má ýmsar þrautir þær sem keppt er í Skólahreysti, sem er keppni á milli grunnskóla landsins í hraða- og hreystiþrautum.
Púttvöllur
Púttvöllurinn byggðist upp árið 2011 fyrir landsmót 50+ sem þá var haldið á Hvammstanga. Var þetta samvinnuverkefni heilbrigðisstofnunarinnar og sveitarfélagsins, en völlurinn stendur á bletti aftan við heilsugæsluna. Völlurinn er öllum opin og hefur hingað til verið haldið mót a.m.k. einu sinni að sumri.
Frisbígolfvöllur Kirkjuhvammi.
Sumarið 2023 var settur upp 9 körfu frisbígolfvöllur í Kirkjuhvammi. Einnig tvær stakar körfur á Bangsatúni á Hvmmstanga.
Í nágrenninu má einnig finna fjölbreytt íþróttasvæði, sem stutt er að sækja, s.s. :
Skíðasvæði
Í Skagafirði er frábært skíðasvæði í Tindastól, aðeins í 97 km fjarlægð frá Hvammstanga. Þar er eitthvað við allra hæfi, tvær brekkur, töfrateppi og gönguskíðabraut. HÉR, á heimasíðu skíðasvæðisins, má finna allar helstu upplýsingar um opnunartíma, færð í brekkunum,veður o.fl.
Golfvellir
Golfklúbburinn Ós á Blönduósi rekur 9 holu völl í fallegu umhverfi rétt utan við Blönduós, við bæinn Vatnahverfi. Þar er næsta golfvöll að finna, í um 60 km fjarlægð frá Hvammstanga.
Einnig rekur Golfklúbbur Skagastrandar glæsilegan 9 holu völl, Háagerðisvöll, en Skagaströnd er í um 80 km fjarlægð frá Hvammstanga.
Skotæfingasvæði
Skotfélagið Markviss á Blönduósi heldur úti skotæfingasvæði þar, aðeins í um 57 km fjarlægð frá Hvammstanga. Þar er að finna haglabraut, riffilbraut og bogabraut. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu félagsins HÉR.