Vikan 13.-19. janúar 2025
Nú eru um þrjár vikur liðnar af nýju ári. Sumir velta fyrir sér hversu lengi fram eftir ári eigi að bjóða gleðilegt ár. Til að fá úr þessu skorið spurði ég gervigreindina og fékk eftirfarandi svar:
Almennt séð er venjan að bjóða gleðilegt ár fram að þrettándanum, sem er 6. janúar. Eftir það er það ekki eins algengt að óska þess. Hins vegar er engin ströng regla, og sumir bjóða áfram gleðilegt ár í janúar ef þeir hitta fólk í fyrsta skipti á nýju ári.
Þar höfum við það.
Burtséð frá því þá var nóg að gera í liðinni viku eins og endranær. Hún hófst á fundi framkvæmdaráðs sem nú telur fjóra, sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs, sviðsstjóra fjölskyldusviðs, sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs ásamt sveitarstjóra. Yfirmaður á umhverfis- og framkvæmdasviði hefur um nokkurt skeið haft starfsheitið rekstrarstjóri en þegar hann sagði upp störfum á síðasta ári var ákveðið að ráða sviðsstjóra í hans stað og hefur hann nú hafið störf eins og ég greindi frá í síðustu dagbókarfærslu. Framkvæmdaráð fundar á mánudagsmorgnum til að fara yfir verkefni vikunnar og það sem efst er á baugi. Að þeim fundi loknum tók við skrifborðsvinna þar til eftir hádegið þegar ég fór ásamt sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs í heimsókn í Félagsheimilið Hvammstanga til að líta á aðstæður og skoða það verk sem þar er fyrir höndum. Að þeirri heimsókn lokinni settumst við yfir fjárfestingaáætlun ársins 2025 en eins og fram hefur komið þá eru framkvæmdir í ár margfaldar samanborið við síðasta ár. Undirbúa þarf útboð og verðfyrirspurnir, finna þarf verktaka í ýmis smærri verk og skipuleggja hvenær á að ráðast í hvað. Má nefna klæðning á Félagsheimilinu, fyrri áfanga í byggingu aðstöðuhúss við íþróttavöllinn Krikjuhvammi, endurnýjun malbiks, endurnýjun gangstétta og margt fleira. Það þarf því að halda vel á spöðunum.
Þriðjudagsmorguninn hófst á fundi með stjórnendum sveitarfélagsins sem við höldum jafnan vikuna eftir að sveitarstjórnarfundir fara fram. Þar fórum forstöðumenn yfir það sem efst er á baugi í þeirra stofnunum, ég fór yfir helstu atriði sem fram komu á síðasta sveitarstjórnarfundi og svo fórum við í gegnum fyrirkomulag á geðheilbrigðisátaki sem er að fara í gang fyrir starfsmenn. Í lokin fórum við svo í gegnum skemmtilega æfingu til að þjappa hópnum saman. Eftir hádegið fór ég ásamt slökkviliðsstjóra í heimsókn í Dalabyggð til að skoða aðstöðu slökkviliðsins og bera saman bækur. Það er alltaf gott að heimsækja önnur sveitarfélög til að sjá hvernig þau vinna hlutina og læra eitthvað nýtt. Heimsóknin var góð en færðin yfir Laxárdalsheiðina afleit þó enginn hafi snjórinn verið. Malarkaflinn var eitt drullusvað. Vonandi verður ráðist í að klára að malbika þennan stutta spotta sem eftir er fljótlega.
Miðvikudaginn hóf ég á að vinna í umsókn sveitarfélagsins í verkefnapottinn Sértæk verkefni sóknaráætlunarsvæða á byggðaáætlun. Þangað geta sveitarfélögin sótt um styrki í ýmiskonar verkefni. Á árinu 2023 fengum við 15 millj. króna styrk þaðan í lagningu vatnslagnar frá Hvammstanga fram að Laugarbakka. Á árinu 2024 fengum við svo 10,5 milljóna styrk til uppsetningar tæknismiðju, Fab-Lab, í Félagsheimilinu Hvammstanga. Við höfum því verið að fá góða styrki úr þessum verkefnapotti síðustu ár og höldum áfram að gera tilraun til að sækja þangað fé til góðra verka. Þegar líða tók á morguninn átti ég samtal við fyrirtæki sem tekur að sér að þjónusta sveitarfélög hvað persónuverndarmál varðar en við erum að tala við nokkra slíka aðila til að sjá um þau mál fyrir sveitarfélagið. Að því loknu fór ég og hitti nýja starfsmenn Eims á Norðurlandi vestra, þau Sigurð Líndal og Ragnhildi Friðriksdóttur. Ræddum við mögulega samtarfsfleti varðandi verkefni í Húnaþingi vestra sem falla að tilgangi Eims sem er að bæta nýtingu auðlinda á Norðurlandi með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Ræddum við nokkrar hugmyndir sem ég er spennt að sjá hvernig koma til með að þróast. Eftir hádegið sat ég ársfund Brákar íbúðarfélags en Húnaþing vestra er einn stofnfélaga ásamt fjölda sveitarfélaga. Brák hefur í hyggju íbúðauppbyggingu á Hvammstanga en stefnt er að því að árinu 2025 verði hafist handa við byggingu 8 íbúða húss norðan við blokkina á Norðurbraut. Brák hefur einnig yfirtekið íbúðir Bústaðar hses. á Lindarvegi.
Fimmtudaginn sat ég við tölvuna allan daginn og vann í styrksumsókninni sem ég kom inn á hér að framan. Vönduð umsókn eykur líkur á styrk og því þarf að gæta að því að allar nauðsynlegar upplýsingar komi fram. Við munum greina frá efni umsóknarinnar síðar þegar úthlutun hefur farið fram. Í lok dags var svo haldinn fyrsti fundur verkefnishóps vegna könnunarviðræðna vegna hugsanlegrar sameiningar Húnaþings vestra og Dalabyggðar. Fundurinn fór fram á Teams og leiddu ráðgjafar KPMG fundinn. Til upprifjunar þá sitja eftirtaldir í verkefnishópnum fyrir hönd Húnaþings vestra:
Magnús Magnússon, aðalmaður,
Magnús Vignir Eðvaldsson, aðalmaður,
Sigríður Ólafsdóttir, varamaður,
Þorleifur Karl Eggertsson, varamaður.
Fyrir hönd Dalabyggðar sitja í hópnum þau:
Ingibjörg Þóranna Steinudóttir, aðalfulltrúi,
Skúli Hreinn Guðbjörnsson, aðalfulltrúi,
Þuríður Jóney Sigurðardóttir, varafulltrúi,
Guðlaug Kristinsdóttir, varafulltrúi.
Sveitarstjórar beggja sveitarfélaga sitja fundi verkefnishópsins með málfrelsi og tillögurétt.
Á fundinum var Magnús Magnússon kjörinn formaður hópsins og Ingibjörg Þóranna Steinudóttir varaformaður.
Á fundinum var farið yfir verkefnið á döfinni, skipulag samtalsins og praktísk atriði. KPMG mun nú fara í að draga saman gögn um sveitarfélagið og leggja fram á næsta fundi hópsins sem fer fram í byrjun febrúar. Það er spennandi að þessi vinna er komin í gang og áhugavert að sjá hverju hún skilar. Markmið þessara óformlegu viðræðna er að draga fram nauðsynlegar upplýsingar svo sveitarstjórnirnar geti metið hvort fara eigi í formlegar viðræður en þeim lýkur alltaf með íbúakosningu. Liður í þeirri upplýsingaöflun verða íbúafundir til að fá fram sjónarmið íbúa og verða þeir kynntir vel þegar þar að kemur.
Á fimmtudagskvöldinu stóð Landsnet fyrir kynningarfundi á Hótel Laugarbakka um umhverfismatsskýrslu Holtavörðuheiðarlínu 3. Í henni eru lagðir til tveir megin valkostir í lagnaleið frá nýju tengivirki á Holtavörðuheiði að Blöndu. Var fundurinn fjölsóttur og góðar umræður um þetta mikilvæga mál.
Rætt um lagnaleiðir við fulltrúa Landsnets.
Umhverfismatsskýrslan er í umsagnarferli með umsagnarfresti til 17. febrúar. VIð hvetjum öll til að láta sig málið varða og skila inn umsögn. Sjá hér.
Föstudagurinn hófst venju samkvæmt á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Engin mál lágu fyrir byggðarráðsfundi og því ákveðið að fresta fundi. Janúar fer óvenju rólega af stað og augljóst að stjórnkerfið er ekki komið af stað eftir Alþingiskosningar. Þing er ekki komið saman og nýir ráðherrar að koma sér fyrir í stólum sínum. Það má gera ráð fyrir að þegar þing kemur saman hefjist atgangurinn af krafti enda hafa bæði stjórnarflokkarnir og stjórnarandstaða lofað fjörugu þingi. Þegar leið á morgunin sat ég fund ásamt Boga skipulags- og byggingafulltrúa með ráðgjöfum vegna vinnslu umferðaröryggisáætlunar fyrir Hvammstanga, Laugarbakka og hugsanlega Borðeyri. Sú vinna mun fara fram í vetur og vor. Fljótlega verður opnuð kortasjá og verða íbúar beðnir um að senda inn ábendingar í gegnum hana er varða umferðaröryggi. Til dæmis merkja inn leiðir barna í skóla, hvar liggja hættur, hvar þarf að þeirra mati að gera breytingar til að auka öryggi o.s.frv. Þetta munum við auglýsa vel þegar þar að kemur. Fyrir nokrum árum ók umferðaröryggisséfræðingur vel flesta vegi í dreifbýli í sama tilgangi svo þær upplýsingar liggja fyrir. Að þeim fundi loknum áttum við svo fund með öðrum aðila í tengslum við persónuverndarmál sveitarfélagsins.
Eftir hádegi á föstudeginum gekk ég svo frá viðhorfskönnun sem við erum nú búin að leggja fyrir starfsmenn sveitarfélagsis. Könnunin er liður í viðleitni okkar til að koma auga á það sem helst þarf að gera til bæta líðan starfsmanna á starfsstöðvum sveitarfélagsins. Við höfum á undanförnum mánuðum uppfært ýmsar áætlanir og stefnur, verklag og verkferla sem varða starfsmannamál og höldum áfram á þessu ári í því verkefni. Hjá sveitarfélaginu starfa yfir 100 manns í fjölbreyttum störfum sem öll eru mikilvæg. Í starfsmannahópnum býr mikill auður og við viljum gera það sem við getum til að starfsumhverfi hjá sveitarfélaginu sé eins gott og mögulegt er til að hlúa að fólkinu okkar. Í lok dags sendi ég könnunina út ásamt upplýsingum um geðheilbrigðisátakið sem ég vonast eftir góðri þátttöku í.
Vikan var fjölbreytt og skemmtileg eins og ávallt. Til viðbótar við það sem hér var fjallað um eru verkefnin óteljandi, samþykktir reikninga, yfirferð tímaskráninga, símtöl frá íbúum, samtöl við starfsmenn um ýmis mál, svörun erindinda um ýmis mál, kynningarmál sveitarfélagsins, ýmiskonar starfsmannamál, yfirlestur ýmiskonar gagna, skrif minnisblaða, dagbókarskrif og margt, margt fleira.