Vikan 17.-23. mars 2025
Nú er að renna upp tími aðalfunda og bar nýliðin vika þess merki. Hún hófst engu að síður á fundi framkvæmdaráðs eins og endranær. Að honum loknum tók við undirbúningur byggðarráðsfundar sem var á dagskrá eftir hádegið ásamt undirbúningi stjórnendafundar sem var á dagskrá daginn eftir. Á byggðarráðsfundinum kenndi ýmissa grasa. Samþykktir voru samningar við Húnaklúbbinn og um talmeinaþjónustu. Einnig var lagður fram til samþykktar samningur við menningar- og viðskiptaráðuneyti samkvæmt tilmælum fjárlaganefndar vegna endurbóta á Félagsheimilinu Hvammstanga. Fengust 43 milljónir í styrk en eins og fram hefur komið stendur til að lagfæra húsið að utan á árinu. Einnig var lögð fram tilkynning um styrkveitingu úr byggðaáætlun til verkefnisins Orkuskipti í Húnaþingi vestra. Gengur verkefnið út á að skoða möguleikann á því að setja upp varmadælur á köldum svæðum í sveitarfélaginu og er hugmyndin að dælurnar verði í eigu og rekstri Hitaveitu Húnaþings vestra. Ég er mjög spennt fyrir þessu verkefni en ég þekki ekki til þess að þetta fyrirkomulag sé við lýði annarsstaðar á landinu. Með þessu móti náum við, ef af verkefninu verður, að byggja upp svæðisbundna þekkingu á rekstri þessara kerfa en það sem hefur helst háð þeim sem hafa fengið sér varmadælur er rekstur þeirra. Ef upp koma bilanir eru þær kostnaðarsamar og erfitt að fá aðila til að laga þær. Ýmislegt fleira var tekið fyrir á fundinum sem ekki verður rakið sérstaklega hér en fundargerðin í heild sinni er aðgengileg hér.
Þriðjudagurinn hófst á fundi með forstöðumönnum stofnana sveitarfélagsins. Þessir fundir eru haldnir mánaðarlega vikuna eftir sveitarstjóranarfundi. Fer ég yfir helstu atriðið sveitarstjórnarfundar ásamt þeim málum sem efst eru á baugi. Við fórum t.d. yfir þær hugmyndir sem við höfðum sett niður á starfsdegi í síðasta mánuði til að bregðast við ábendingum úr starfsmannakönnun ásamt því að miðla upplýsingum milli stofnana. Þarfir og góðir fundir. Að honum loknum fundaði ég með verkefnisstjóra stjórnsýslu-, atvinnu- og kynningarmála og sviðsstjóra fjármála og stjórnsýslusviðs þar sem við fórum yfir fyrstu drög að uppfærðum málalykli skjalakerfis sveitarfélagsins. Er sú vinna í tengslum við rafræn skil gagna sveitarfélagsis. Sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar búa við svokallaða skilaskyldu gagna sem þeim berast og til verða hjá þeim og er áformað að flytja þau gagnaskil yfir á rafrænt form til að koma í veg fyrir uppsöfnun á pappír í skjalageymslum. Fyrsta skref í því er að fá málalykil samþykktan og er því verið að yfirfara hann. Hefur Daníel verkefnisstjóri annast það verk. Í framhaldinu vorum við í nokkrum samskiptum um vafaatriði sem við gengum frá. Þvínæst tóku við málefni hitaveitu, t.d. samtöl við Orkustofnun og fleira því tengt. Ég leit í framhaldinu við í Fæðingarorlofssjóði til að heyra frá Þórdísi forstöðumanni helstu fréttir úr starfseminni. Þar starfa nú 15 manns og gengur starfsemin vel eins og alltaf enda þar mikill og stöðugur mannauður. Ég þreytist ekki á að nefna það að flutningur Fæðingarorlofssjóðs á Hvammstanga er eitt best heppnaða dæmi um flutning ríkisstofnana á landsbyggðina.
Eftir hádegið fundaði ég með Helenu Jónsdóttur hjá Mental ráðgjöf en við höfum verið í umfangsmiklu geðheilbrigðisátaki í samstarfi við þau undanfarnar vikur. Ræddum við framhald þeirrar vinnu en ég hef fullan hug á að halda áfram því verkefni og fengum við til þess styrk úr Lýðheilsusjóði á dögunum. Þvínæst var fundur verkefnishóps vegna ófomlegs samtals Húnaþings vestra og Dalabyggðar um hugsanlega sameiningu með sveitarstjórnum beggja sveitarfélaga. Vinnunni miðar vel áfram og eru sérfræðingar KPMG að ljúka við gagnaöflun. Til stendur að halda íbúafundi mjög fljótlega til að fá fram sjónarmið íbúa í tengslum við þetta samtal. Til upprifjunar þá er ferlið það að þegar nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir og haldnir hafa verið íbúafundir taka sveitarstjórnirnar ákvörðun um hvort fara eigi í formlegar viðræður en þeim lýkur alltaf á íbúakosningu um sameiningu. Síðasta orðið er því í höndum íbúa. En meira um það síðar.
Í bítið á miðvikudeginum lögðum við land undir fót, ég, oddviti og formaður byggðarráðs. Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var á dagskrá á fimmtudeginum en við höfum lagt okkur fram um að fara deginum áður til að eiga fundi með ráðamönnum og ýmsum stofnunum í tengslum við þá fundi. Fyrsti fundur var með Landsneti til að grafast fyrir um áform um að reisa aðveitustöð við Laugarbakka sem myndi bæta afhendingaröryggi hér til muna. Það verkefni er á kerfisáætlun og gert ráð fyrir að stöðin verði reist á næstu árum. Við ræddum einnig verkefnin um Holtavörðuheiðarlínur 1 og 3. Að þeim fundi loknum lá leið niður á Alþingi þar sem við funduðum með hluta þingmanna kjördæmisins. Góður og gagnlegur fundur um helstu málefni sem á okkur brenna og mikilvægt er að halda til haga. Að þeim fundi loknum lá leið í Síðumúlann til fundar við Ingu Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra um málefni ráðuneytisins sem okkur varða. T.d. Fæðingarorlofsstjóð og verkefnið Gott að eldast. Þaðan lá leið mín á Aukafund fulltrúaráðs Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands en þar sit ég fyrir hönd sveitarfélagsins og er jafnframt varamaður í stjórn. Að þeim fundi loknum var embættisskyldum dagsins lokið en við tók Rótarýmaraþon ef svo má segja. Ég byrjaði á að sitja fund í þeim klúbbi sem ég er félagi í, e-Rótarý Ísland, sem er netklúbbur og fundum við hálfsmánaðarlega. Að þeim fundi loknum fór ég á fund Rótarýklúbbs Grafarvogs en á hann hafði mér verið boðið til að hlýða á erindi um sauðagullið – útflutning sauðfjár á fæti á 19. öld. Sá útflutningur var umfangsmikill úr Húnavatnssýslunum og koma Borðeyri og Stóra Borg þar við sögu. Virkilega áhugaverður fyrirlestur og ljóst að útflutningurinn hefur verið áhrifaþáttur í þróun sýslunnar því honum fylgdu miklir fjármunir á formi gulls sem flutti okkur frá vöruskiptum yfir í viðskipti þar sem fjármunir skiptu um hendur.

Magnús formaður byggðarráðs, Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra, undirrituð og Þorleifur Karl oddviti.
Á fimmtudeginum var svo landsþing Sambandsins, þétt dagskrá fram til kl. 16. Þingið hefur verið í umfjöllun fjölmiðla og ég mun ekki rekja efni þess sérstaklega hér. Að því loknu tók við aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaganna sem ég sat fyrir hönd sveitarfélagsins. Meginhlutverk Lánasjóðsins er að tryggja íslenskum sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum með veitingu lána eða ábyrgða. Fundurinn drógst á langinn af ýmsum ástæðum og var ekki lagt af stað úr bænum fyrr en undir kvöldmat.
Föstudagsmorguninn hófst á fundi með formanni byggðarráðs og oddvita eins og jafnan og að honum loknum kynnti sviðsstjóri fjölskyldusviðs fyrstu drög að hugmyndum um fyrirkomulag samfélagsmiðstöðvarinnar í Félagsheimilinu Hvammstanga fyrir okkur. Þær hugmyndir verða unnar áfram og lagðar fyrir byggðarráð og í kjölfarið settar í samráð meðal íbúa. Við gerum ráð fyrir að vera með opið hús í Félagsheimilinu til að kynna þær, svara spurningum og ekki síður taka við frekari hugmyndum um þessa fyrirhuguðu starfsemi. Í framhaldi af þessu samtali settist ég niður með skipulags- og byggingafulltrúa og fór yfir mögulegar atvinnulóðir í tengslum við ýmis atvinnuuppbyggingarverkefni sem unnið er að og síðasti fundur dagsins var með ráðgjafa KPMG vegna stjórnendamælaborðs sem við erum að vinna í að taka í notkun. Er það hugsað fyrir forstöðumenn stofnana að fylgjast með stöðu sinna eininga í samhengi við fjárheimildir á fjárhagsáætlun. Virkilega aðgengilegt og gott tæki sem mun bæta yfirsýn og utanumhald til mikilla muna. Við gerum ráð fyrir að taka þetta mælaborð í notkun á næstu dögum. Ég lét þetta duga þann daginn enda dagarnir á undan verið langir og erilsamir. Ekki var þó helgarfríið alveg laust við vinnu þar sem aðalfundur veiðifélags Arnavatnsheiðar og Tvídægru var á dagskrá á laugardeginum. Þess utan varði ég helginni með mínu fólki, skaust m.a. í leikhús á föstudagskvöldinu og fékk fólkið mitt í mat og ömmustelpurnar í pössun. Allt eins og það á að vera.