Hvammstangi

Hvammstangi er mjög aðlaðandi og snyrtilegur bær sem stendur við Miðfjörð um 6 km frá þjóðveginum. Hann er stærsti þéttbýliskjarni Húnaþings vestra með um 550 íbúa. Staðurinn byggðist upp í byrjun 20. aldar og á rúmlega 100 ára verslunarsögu. Margvíslega opinbera þjónustu og atvinnustarfsemi er að finna á Hvammstanga svo sem sundlaug og íþróttahús, öfluga heilsugæslu, lyfsölu, tannlæknaþjónustu, öldrunarheimili og þjónustuíbúðir. Á Hvammstanga er einnig aðsetur Fæðingarorlofssjóðs og þar er að finna pósthús, banka, verkstæði, hárgreiðslustofur, bóka- og skjalasafn og prentverk, svo eitthvað nefnt af fjölbreyttri þjónustu staðarins.

 Á Hvammstanga hefur einnig byggst upp margvísleg ferðaþjónusta. Í Selasetri Íslands er hægt að fræðast um seli við Íslands og þar er að finna upplýsingamiðstöð héraðsins. Bardúsa-Verslunarminjasafn er rekið í einu elsta húsi staðarins og þar er að finna krambúð Sigurðar Davíðssonar frá því á fyrri hluta 20. aldar og er þar selt vandað handverk úr héraðinu. Prjónastofan Kidka, ein stærsta prjónastofa landsins, býður í verslun sinni upp á úrval af prjónavöru sem bæði er hönnuð og framleidd á staðnum. Í bænum eru veitingastaðurinn Sjávarborg og kaffihúsið Hlaðan vinsælir bæði meðal heimafólks og ferðamanna. Margvísleg gistiaðstaða er í sveitarfélaginu, inn á Hvammstanga er m.a. hótel, gistiheimili og hostel.  Í Kirkjuhvammi er skjólgott tjaldstæðið sem býður upp á þægilegt þjónustuhús og tengingu fyrir tjald- og húsvagna, ásamt vinsælum smáhýsum sem nýtast allt árið um kring. 

Var efnið á síðunni hjálplegt?