21. október 2024

Vikan 14.-20. október 2024

Vikan hófst á fundi framkvæmdaráðs þar sem farið var yfir fyrstu drög að fjárhagsáætlun ársins 2025. Vinnuferlið við framlagningu áætlunarinnar er samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins að framkvæmdaráð vísar henni til byggðarráðs og byggðarráð vísar henni svo til sveitarstjórnar. Eins og áður hefur komið fram þarf áætlunin tvær umræður í sveitarstjórn og fór fyrri umræðan fram á sveitarstjórnarfundi vikunnar. Meira um það rétt á eftir.

Að loknum framkvæmdaráðsfundi tók við undirbúningur byggðarráðsfundar auk nokkurra bókaðra símtala við íbúa. Rétt upp úr hádegi leit Bjarni Jónsson þingmaður við í ráðhúsinu og hitti oddvita, formann byggðarráðs og sveitarstjóra. Það eru undarlegir tímar í pólitíkinni en frá því að Bjarni kom í heimsókn hefur hann sagt skilið við Vinstri græn. Það getur ýmislegt gerst viku í pólitík eins og atburðir síðustu viku sanna.

Bjarni Jónsson, Þorleifur Karl Eggertsson, Magnús Magnússon og undirrituð.

Byggðarráðsfundurinn fór svo fram eftir hádegið að vanda. Fjárhagsáætlunin var þar til umræðu og vísaði ráðið henni til umræðu í sveitarstjórn. Einnig var samþykkt viðverustefna Húnaþings vestra að afloknu samráði meðal starfsmanna. Tilgangur stefnunnar er meðal annars að stuðla að aukinni vellíðan starfsmanna sveitarfélagsins en undanfarin misseri höfum við verðið að vinna markvisst að mannauðsmálum sveitarfélagsins. Sveitarstjóra var einnig veitt umboð til sölu á íbúðinni að Hliðarvegi 25 í samræmi við samþykkt sveitarstjórnar frá því í september 2023. Auglýst verður eftir tilboðum í eignina innan tíðar. Einnig var samþykkt umsókn Berg verktaka um lóðina Lindarveg 1 en fyrirtækið hefur í hyggju að reisa þar raðhús og gerir ráð fyrir að skila teikningum í nóvember og byrja jarðvinnu fljótlega ef veður leyfir. Afar ánægjulegt er að fylgjast með þeirri miklu íbúðauppbyggingu sem á döfinni er í sveitarfélaginu.

Á mánudagskvöldinu sótti ég mjög áhugaverðan fyrirlestur á vegum USVH í grunnskólanum þar sem Margrét Lára og Elísa Viðarsdætur fóru yfir annars vegar næringu og hins vegar andlega heilsu. Þakka USVH fyrir þetta frábæra framtak.

Á þriðjudeginum var haustþing SSNV sem að þessu sinni fór fram á Blönduósi. Það er áhugavert að fylgjast með starfi samtakanna sem ég veitti forstöðu um nokkurra ára skeið áður en ég réð mig til starfa til sveitarfélagsins. Seinnipartinn á þriðjudeginum fór ég svo í grunnskólann á svokallaðar menntabúðir þar sem nemendur mið- og unglingastiga kynntu verkefni sem þau hafa verið að vinna að undanfarnar vikur. Einnig var boðið upp á mjög áhugaverðan fyrirlestur um netnotkun undir yfirskriftinni Algóritminn sem elur mig upp sem Skúli Bragi Geirdal hét. Í kjölfar sýninga nemenda var boðið upp á súpu. Það var virkilega gaman að sjá metnaðinn í verkefnum nemendanna og ekki síður gefandi að eiga góða stund með þeim og foreldrum að sýningum loknum. Áður en sýningar verkefnanna hófust flutti húsbandið frumsamið lag sem þær sendu inn í keppni á dögunum og valið var eitt af þremur bestu. Sjá nánar hér. Í vikunni komu Vigdís Hafliðadóttir söngkona Vignir Snær Vigfússon gítarleikari í Írafár ásamt tökuliði frá RÚV til að vinna með stelpunum og fullgera lagið. Við getum svo sannarlega verið stolt af stelpunum.

Lagahöfundar framtíðarinnar

Húsbandið ásamt Valda kennara sínum. Mynd fengin af heimasíðu Grunnnskólans.

Miðvikudagurinn var óvenju stuttur. Morgninum varði ég í skrifborðsverkefni og fundahöld. M.a. upplýsingafund sambandsins um stöðu kjaraviðræðna sem haldnir eru reglulega en Samband íslenskra sveitarfélaga fer með samningsumboð fyrir sveitarfélögin. Eftir hádegið brá ég mér svo í einkaerindum til Reykjavíkur og kom aftur til baka um kvöldið.

Fimmtudagurinn var viðburðaríkur. Sveitastjórnarfundur eftir hádegið, fundur með forstöðumanni einnar stofnanar sveitarfélagsins um morguninn og einnig fundur með íbúa. Ég gekk jafnframt frá pappírum vegna yfirtöku Leigufélagsins Bríetar á íbúðum að Gilsbakka 5-11 sem borið hefur á góma í dagbókarfærslum áður.

Sveitastjórnarfundurinn var óvenju langur. Kemur þar til umfjöllun um fjárhagsáætlun, óvenju margar fundargerðir og mál sem þörfnuðust sérstakrar afgreiðslu. Fyrir sveitarstjórnarfundi hittist meirihluti til undirbúnings kl. 13 og minnihluti slæst svo í hópinn til undirbúnings kl. 14. Fundurinn sjálfur hefst svo kl. 15. Ég vil minna íbúa á að fundir sveitarstjórnar eru öllum opnir til áheyrnar.

Á fundinum kenndi ýmissa grasa. Auk fundargerða og mála af þeim til staðfestingar voru gjaldskrár sem þurfa tvær umræður í sveitastjórn teknar fyrir. Fyrri umræða um fjárhagsáætlun fór fram og einnig var lagt fram svar sveitarstjórnar við fyrirspurn varðandi fasteignagjöld. Ég hvet íbúa til að kynna sér svarið í fundargerðinni og einnig að skoða mælaborð Byggðastofnunar þar sem borin eru saman fasteignagjöld um landið út frá viðmiðunareign sem gefur tækifæri til samanburðar á réttum grundvelli. Miðað við þann samanburð eru fasteignagjöld í Hvammstanga án sorpgjalda 2000 kr lægri en landsmeðaltal og með sorppgjöldum 4,5% hærri en landsmeðaltal. Frá árinu 2019 hefur fasteignamat þessarar viðmiðunareignar á Hvammstanga hækkað úr 26,6 millj. í 40 millj. Mælaborð byggðastofnunar er hér. Í svari við fyrirspurninni er einnig bent á mælaborð Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem hægt er að bera saman lykiltölur í rekstri sveitarfélaga. Mjög aðgengilegar upplýsingar sem ég hvet fólk einnig til að kynna sér. Mælaborð Sambandsins er hér.

Á sveitarstjórnarfundinum var viðverustefnan sem ég nefndi í upphafi jafnframt staðfest. Verður hún birt innan tíðar þegar uppsetningu og frágangi verður lokið.

Fundargerð sveitarstjórnarfundar er hér.

Föstudagurinn var óvenju fundaléttur. Vanalega sest ég niður með oddvita og formanni byggðarráðs en vegna vetrarfrís tókum við stutt spjall að afloknum sveitarstjórnarfundi. Föstudagurinn fór því í ýmiskonar uppsóp. Tiltekt í tölvupósti og á skrifborði. Einnig setti ég nýjan verkefnisstjóra stjórnsýslu hann Daníel, inn í tilkynningar á afgreiðslum mála en hann mun létta undir hjá mér með því að taka það verkefni yfir. Kann ég honum bestu þakkir fyrir það. Ég setti niður lista yfir verkefni sem þarf að ganga í í kjölfar sveitarstjórnarfundar og hófst handa. Það þarf m.a. að gera uppkast að nýjum samningi vegna hátíðarinnar Elds í Húnaþingi, gera ráðningarsamning við slökkviliðsstjóra, ganga frá viðverustefnunn sem nefnd var hér að framan til birtingar og eitt og annað. Hlutverk sveitarstjóra er í hnotskurn þetta - að fylgja eftir ákvörðunum sveitarstjórnar.

Næstu vikur verða sundurslitnar vegna fundahalda eins og svo oft á haustin og viðvera í Ráðhúsi með minnsta móti. Ég hvet þau sem þurfa að ná samandi við sveitarstjóra til að senda mér línu á netfangið unnur@hunathing.is eða panta símtal hér.

 

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?