27. maí 2024

Vikan 20.-26. maí

Enn halda vikurnar áfram að vera stuttar vegna frídaga. Því riðlaðist fundadagskrá lítillega og fór byggðarráðsfundur fram á miðvikudegi í stað mánudags. Þann dag byrjuðum við Bogi á því að heimsækja unglingastig Grunnskólans. Má segja að við höfum með þeirri heimsókn hafið vinnu við gerð nýs aðalskipulags sveitarfélagsins en gildandi skipulag rennur út 2026. Fengum við krakkana til að fara á hugarflug og merkja inn á kort hvar þau sjá fyrir sér göngu og hjólastíga, græn svæði og torg, nýja íbúðabyggð o.s.frv. Það er skemmst frá því að segja að krakkarnir stóðu sig frábærlega og kom fjöldi skemmtilegra hugmynda fram. Vinnan við skipulagið mun svo fara á fullt á komandi vetri og verður leitað hugmynda frá sem flestum íbúum og verður það vel auglýst þegar þar að kemur. Ég nýtti tækifærið og færði krökkunum forláta ísbjarnarbúning til að nota sem lukkudýr sem var svo vígður á Skólahreysti síðar í vikunni. Að heimsókninni í Grunskólann lokinni fundaði ég með fulltrúa Flugklasans og fékk kynningu á starfi hans en klasinn vinnur að eflingu millilandaflugs um Akureyrarflugvöll. Deginum lauk á byggðarráðsfundi. Um kvöldið lagði ég svo land undir fót ásamt oddvita og formanni byggðarráðs suður til Reykjavíkur.

Krakkarnir merkja inn hvar þeim finnst eigi að vera göngu- og hjólastígar.

Miðvikudagurinn fór í fundastúss í Reykjavík. Við fórum fyrir atvinnuveganefnd og ræddum frumvarp til laga um lagareldi í kjölfar umsagnar sveitarfélagsins um málið. Góðar og málefnalegar umræður fóru fram á fundinum. Því næst áttum við fund með fyrsta þingmanni kjördæmisins þar sem við fórum yfir helstu áherslumál. Að lokum funduðum við með Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra þar sem við ræddum löggæslumál, málefni sýslumanna og fleira. Við höfum reynt að vera dugleg að fara í ferðir sem þessar til að halda okkar áherslumálum á lofti og hitta ráðamenn og fulltrúa þeirra stofnana sem við eigum í samskipum við. Eins höfum við lagt mikla áherslu á að veita umsagnir um þingmál og mál í samráðsgátt sem sérstaklega varða sveitarfélagið. Allar slíkar umsagnir eru aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins, sjá hér.

Þorleifur Karl oddviti, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, Magnús formaður byggðarráðs og undirrituð að fundi loknum.

Föstudagurinn var skrifborðsdagur. Vikulegur fundur með oddvita og formanni byggðarráðs sem jafnan er á föstudagsmorgnum, féll niður þar sem við höfum farið yfir málin í bílferðinni norður daginn áður. Ég sendi út frestun byggðarráðsfundar sem vera átti komandi mánudag en ekki þótti ástæða til að halda þar sem engin brýn mál biðu afgreiðslu. Ég hóf undirbúning landbúnaðarráðsfundar komandi viku, fundaði með verkefnisstjóra umhverfismála, fór yfir gögn vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Félagsheimilið Hvammstanga og átti samtal við mannauðsráðgjafa sveitarfélagsins. Einnig fengu kynningarmál athygli, sorpmál, samþykkt reikninga svo fátt eitt sé talið. Í lok dags kíkti ég ásamt Sigurði sviðsstjóra fjölskyldusviðs og Jóhanni tengslafulltrúa yfir í Félagsheimili til að skoða möguleika á nýtingu rýma í húsinu. Þróun samfélagsmiðstöðvar verður verkefni komandi missera og er ég mjög spennt fyrir því. Jóhann leiðir það verkefni og mun t.d. fljótlega fara í að kaupa tæki í tæknismiðju sem styrkur fékkst til fyrr á árinu.

Á laugardeginum skaust ég svo aftur til Reykjavíkur til að fylgjast með Skólahreysti í Mýrinni í Garðabæ. Lið Grunnskóla Húnaþings vestra varð meðal keppenda eftir frábæra frammistöðu í riðlakeppninni. Eins og þeirra er von og vísa stóðu þau sig eins og hetjur og höfnuðu í fimmta sæti og bættu sig auk þess í þeim greinum sem þau kepptu í. Ég óska þeim innilega til hamingju með frábæra frammistöðu. Ég er óskaplega stolt af keppendunum en ég er ekki síður stolt af stuðningsmönnunum sem hvöttu liðið til dáða af áhorfendapöllunum. Þau voru okkur til mikils sóma og sérstaklega fannst mér ánægjulegt að sjá að á því svæð þar sem okkar fólk sat var ekki eitt einasta snifsi af rusli. Þau höfðu tekið allt sem þau voru með, sælgætisbréf, gosdósir og slíkt, og hent í ruslafötuna. Það sást bersýnilega á pöllunum í grennd að ekki höfðu allir stuðningsmannahópar fyrir því. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni þegar unga fólkið okkar stendur sig eins vel og raun ber vitni.

Keppendur, þjálfarar og hluti stuðningsmanna að lokinni keppni. Frá vinstri, Sara íþróttakennari, Nóa, Friðrik, Victor, Saga og Magnús íþróttakennari.

Lukkudýr hópsins, grænt er litur okkar liðs. Hér má sjá ísbjarnarbúninginn sem ég færði stuðningsmönnum fyrr í vikunni.

Var efnið á síðunni hjálplegt?