Vikan 22.-28. janúar 2024
Það er óhætt að segja að dagana sé merkjanlega farið að lengja eftir svartasta skammdegið. Þegar þetta er skrifað er farið að verða bjart fram til rúmlega 17 á daginn sem gefur fyrirheit um að bjartir dagar og nætur séu á næsta leyti. En allt fram streymir og verkefnin eru hefðbundin. Mánudagurinn hófst á fundi framkvæmdaráðs og fundi með verkefnisstjóra umhverfismála. Báðir fundirnir ætlaðir til að taka stöðuna og fara yfir mál í vinnslu. Ég skaust svo í grunnskólann á foreldraviðtal sem fresta þurfti á viðtalsdegi vikuna á undan. Nemendur grunnskólans komu svo aftur við sögu um ellefuleytið þegar ég fékk hóp nemenda á miðstigi í heimsókn. Tóku þau við mig stutt viðtal og fengu svo skoðunarferð um ráðhúsið. Að sjálfsögðu var smellt af mynd við það tilefni. Að öllum öðrum ólöstuðum eru skemmtilegustu fundir sveitarstjóra með unga fólkinu okkar.
Góðir gestir í Ráðhúsinu, Brynjar, Ísar Myrkvi, Íris Emma, Herdís Erla og Aldís ásamt sveitarstjóra.
Eftir hádegið var byggðarráðsfundur eins og jafnan. Þar voru lögð fyrir drög að málstefnu sem sveitarfélaginu er skylt að setja sér samkvæmt lögum. Samþykkti ráðið að setja stefnuna í opið samráð á heimasíðu sveitarfélagsins og hefur það verið gert. Sjá hér. Ég hvet áhugasöm til að skoða stefnuna og senda inn athugasemdir. Við höfum á undanförnum mánuðum lagt áherslu á að skjöl af þessum toga fari í opið samráð enda er oft um að ræða stefnumarkandi plögg sem er aldrei annað en til bóta að fá rýni á frá sem flestum. Á byggðarráðsfundinum var einnig færð til bókar umsögn um skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu. Ráðið fagnar vinnu við skilgreiningu á grunnþjónustu en gerir nokkrar athugasemdir. Vert er að minna á að allar umsagnir sem sveitarfélagið veitir um þingmál og önnur mál er að finna á heimasíðunni. Í lok árs 2022 var það vinnulag tekið upp að auk þess að birta umsagnir í fundargerðum eru þær birtar á sérstöku svæði á vef sveitarfélagsins þannig að þær séu öllum aðgengilegar. Það er einnig ástæða til að vekja athygli lesenda á því að á Samráðsgátt stjórnvalda er öllum heimilt að veita umsagnir um þau mál sem þar eru birt. Þar eru gjarnan birt áform um lagasetningar, drög að frumvörpum til laga, drög að stefnum og áætlunum o.s.frv. áður en mál fara í þinglega meðferð. Það er því gott tækifæri til að hafa áhrif á hin ýmsu mál með því að skila inn umsögn.
Seinnipart mánudags lagði ég land undir fót og var í Reykjavík á þriðjudag og miðvikudag. Ég átti nokkra fundi og sinnti vinnunni í fjarvinnu þess á milli. Ég vann meðal annars í drögum að uppfærðri viðbragðsáætlun og stefnu um einelti, áreitni og ofbeldi sem var til samráðs síðstu tvær vikur. Skjalið verður lagt fyrir í endanlegri mynd á næsta byggðarráðsfundi og fer þaðan fyrir sveitarstjórn. Við höfum tekið upp samræmt útlit skjala af þessum toga og því fylgir örlítil uppsetningarvinna og að finna myndir og slíkt. Fyrir vikið verða plögginn læsilegri og aðgengilegri sem skiptir verulegu máli. Ég skrifaði líka dagbók liðinnar viku, undirbjó fundi, svaraði póstum o.m.fl. Ég sat fund stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og líka stjórnar Íslandsstofu. Ég er nýkomin í fyrrnefnda stjórn en hef setið í hinni síðari í tæp þrjú ár. Ég uppfærði líka eitt og annað á heimasíðu sveitarfélagsins þar með talið samþykkt um stjórn sveitarfélagsins sem var birt í B-deild stjórnartíðinda á dögunum. Samþykkt sveitarfélagsins segir til um stjórnskipan þess og meðferð mála. Fyrri samþykkt hafði verið uppfærð nokkrum sinnum sem gerir hana erfiðari yfirlestrar auk þess sem breytingar höfðu orðið á stjórnum og nefndum á vegum sveitarfélagsins sem lagfæra þurfti. Því var nú farið í heildarendurskoðun á samþykktunum sem hefur nú fengið tvær umræður í sveitarstjórn. Til að öðlast gildi þarf að birta samþykktina í B-deild stjórnartíðinda sem nú hefur verið gert. Ný samþykkt er hér. Breytingar að öðru leyti en sem kom fram hér að framan voru óverulegar.
Fimmtudagurinn var skrifborðsdagur. Ég hafði ætlað að vera starfsmaður í þjálfun í íþróttamiðstöðinni þann dag en það hentaði starfinu þar betur að ég kæmi síðar svo ég græddi heilan dag þar sem engir fundir voru bókaðir. Það var nú samt ekki þannig að ég sæti aðgerðalaus. Ég nýtti tímann til að fara yfir mál í samráðsgátt og undirbúa umsögn um reglugerð um sjálfbæra nýtingu landbúnaðarlands sem þar er að finna. Einnig skoðaði ég gögn á sameiginlegu svæði Vatnasvæðanefndar en ég sit í henni fyrir hönd sveitarfélagsins. Ég komst ekki á upphafsfund nefndarinnar og þá er gott að geta horft á upptöku. Fyrir þau sem ekki þekkja skipan vatnamála þá er Ísland eitt vatnaumdæmi en landinu er svo skipt upp í fjögur vatnasvæði og er ein vatnasvæðanefnd starfandi á hverju þeirra. Fyrir áhugasöm eru nánari upplýsingar hér. Það þurfti líka að undirrita umsagnir um umsóknir um tækifærisleyfi en sækja þarf um slík leyfi ef halda á stærri uppákomur eins og þorrablót. Svo biðu mín nokkrar fyrirspurnir frá íbúum og eitt og annað.
Ég hef sagt frá því á samfélagsmiðlum þegar ég hef afhent nýfæddum íbúum Húnaþings vestra gjafir en ég tók tvær slíkar saman í vikunni. Það er gaman að segja frá því að það sem af er ári hafa 3 börn fæðst í sveitarfélaginu. Það eru frábærar fréttir og vona ég að ég fái að afhenda sem flestar slíkar gjafir á árinu. Þegar hefur tveimur verið komið til skila og foreldrar þriðja barnsins mega eiga von á sendingu fljótlega.
Gjafir til núfæddra íbúa samanstanda af merktri samfellu, slefsmekk og gagnlegum hlutum fyrir fyrstu mánuðina.
Á föstudagsmorguninn hófust leikar á fundi með formanni byggðarráðs en oddviti var fjarri góðu gamni að þessu sinni. Fórum við yfir dagskrá byggðarráðsfundar komandi viku. Ákváðum við að fresta fundi þar sem ekki lágu mörg mál fyrir fundinum. Það er eins og ég hef oft sagt áður engin ástæða til að halda fund ef ekkert liggur fyrir. Ég átti svo fund með verkefnisstjóra fjárfestinga hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra vegna nokkurra verkefna sem við erum að vinna í og tengjast atvinnumálum, vonandi eru þar verkefni sem hægt verður að greina frá fljótlega og verða að veruleika. Einnig átti ég fund með Jessicu Aquino forsvarsmanni Húnaklúbbsins um aðkomu að styrksumsóknum og verkefnum klúbbsins. Húnaklúbburinn hefur ötullega unnið með unga fólkinu okkar að ýmsum áhugaverðum verkefnum sem hafa skilað heilmiklu til samfélagsins. Ég er þakklát fyrir það framtak Jessicu og þeirra fjölmörgu sem með henni starfa. Eftir hádegið vann ég svo í minnisblaði fyrir sveitarstjórn en slík blöð eru tekin saman um hin ýmsu mál til upplýsingar. Ég átti samtal við blaðamann sem sýndi vinnu við málstefnu sveitarfélagsins áhuga og svaraði spurningum hans og las svo yfir östuttan greinarstúf um málið. Ég skoðaði gögn sem send voru á stjórn Byggðarannsóknarsjóðs en ég var nýverið skipuð í varastjórn sjóðsins. Undirritaði lóðaleigusamninga, átti fund með mannauðsráðgjafa sveitarfélagsins ásamt fleiru.
Ég átti rólega helgi en við hjónin skelltum okkur til Reykjavíkur og nýttum gjafabréf í gistingu sem vinnufélagar mínir í ráðhúsinu færðu mér í afmælisgjöf í fyrra. Það var eins og við manninn mælt að þegar við lögðum af stað eftir hádegið á laugardaginn var Holtavörðuheiðinni lokað. Við fórum því Laxárdalsheiðina þar sem var bjart og auður vegur. Fínasta áminning um mikilvægi þess að halda Laxárdalsheiðinni á lofti og tryggja áframhaldandi uppbyggingu hennar og þjónustu. Sem betur fór var heiðin aðeins lokuð í tæpa þrjá tíma og við heimkomu um miðjan dag á sunnudag var fínasta ferðaveður.