Vikan 6.-12. nóvember 2023
Vikan hófst með hefðbundnum hætti á fundi framkvæmdaráðs þar sem farið var yfir helstu mál á döfinni. Í kjölfarið fundaði ég með verkefnisstjóra umhverfismála um verkefnin framundan. Þar má m.a. nefna innleiðingu grænna skrefa sem er að fara af stað hjá sveitarfélaginu. Græn skref eru verkefni hjá Umhverfisstofnun og hefur það markmið að búa sveitarfélög undir að mæta auknum kröfum með tilliti til loftslagsmála. Við munum byrja á Ráðhúsinu til að fá tilfinningu fyrir verkefninu og yfirfæra það svo yfir á aðrar stofnanir. Segja má að Ráðhúsið sé líklega skemmst á veg komið í þessu tilliti en leikskólinn er t.d. með Grænfánann sem gefur honum gott forskot og í grunnskólanum hefur heilmargt verið gert í þessum efnum. Verkefnið gengur út á að stíga skref í átt að meiri umhverfisvitund, t.d. með að venja sig á að slökkva ljósin, nota fjölnota bolla í stað pappamála, kaupa umhverfisvæn hreinsiefni og pappír, svo örfá atriði séu nefnd.
Eftir hádegi á mánudeginum var byggðarráðsfundur eins og vanalega. Þar bar hæst að til stóð að opna tilboð í fasteignina að Lindarvegi 3a. Því miður bárust engin tilboð í eignina og er í skoðun hvernig henni verður ráðstafað í framhaldinu. Ætla má að hár fjármagnskostnaður hafi áhrif á getu fólks til fasteignakaupa og því hafi engin tilboð borist. Auk annarra hefðbundinna liða var sveitarstjóra falið að gera nýja samninga vegna leigu túna og beitarlanda í landi Ytri-Valla en samningar um leigu eru í gildi til áramóta með forleigurétti áfram. Einnig var farið yfir milliuppgjör sveitarstjóðs og undirfyrirtækja. Er rekstur almennt séð skv. áætlun.
Þriðjudagurinn var kærkominn skrifborðsdagur. Ég átti þó tvo stutta fundi, annars vegar með forsvarsmanni leigufélagsins Bríetar vegna möguleika á frekari uppbyggingar leiguhúsnæðis í sveitarfélaginu sem ekki er vanþörf á. Hins vegar fundaði ég með þjónustuaðila vegna mælaborðs fyrir stjórnendur sveitarfélagsins hvað fjárhagsupplýsingar varðar. Gott aðgengi að upplýsingum er lykilatriði til að auka aðhald og yfirsýn yfir fjárhagsuppplýsingar og erum við sífellt að leita leiða til að gera betur í þeim efnum. Við funduðum síðar í vikunni með sveitarfélagi sem notar aðra lausn til að bera saman þá möguleika sem eru í boði. Þess utan vann ég að samantekt upplýsinga fyrir Bríeti leigufélag, skipulagsmál bar á góma meðal annars undirritun deiliskipulags fyrir svæðið við Hvítserk, yfirferð nýs erindisbréfs fyrir öldungaráð, yfirferð yfir samþykktir sveitarfélagsins, undirbúning sveitarstjórnarfundar og útsendingu fundarboðs og birtingu á heimasíðu, skoðun á verkefnum sem geta fallið undir aðgengissjóð jöfnunarsjóðs til að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk, samskipti við ráðuneyti og aðra vegna nýlegs riðusmits o.s.frv.
Miðvikudagurinn hófst á samráðsfundi með samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamningsviðræðna sem fara að hefjast. Var farið yfir launaþróun síðustu misseri. Góður og upplýsandi fundur þar sem dregin voru fram sjónarmið sveitarfélaganna inn í kjaraviðræðurnar. Dagbókarskrifum var sinnt þar í kjölfarið, undirbúningur þátttöku í pallborðsumræðum á afmælisráðstefnu SAF í komandi viku var sömuleiðis sinnt, áframhaldandi vinna við gögn til Bríetar leigufélags sömuleiðis. Jólagjafir fyrir starfsmenn sveitarfélagsins fengu einnig athygli sem og málefni fjallskiladeilda. Einnig tók undirbúningur sveitarstjórnarfundar dágóðan tíma en mikilvægt er að undirbúa fundina vel svo öll gögn og upplýsingar séu aðgengilegar kjörnum fulltrúum, gera fundargerðir tilbúnar, fara vel yfir öll mál sem lögð eru fram til að hægt sé að svara þeim spurningum sem kunna að koma fram og svo krefst liðurinn skýrsla sveitarstjóra all nokkurs undirbúnings. Í honum fer sveitarstjóri yfir helstu verkefni frá síðasta sveitarstjórnarfundi. Margt af því sem þar kemur fram hefur þegar komið fram í dagbók sveitarstjóra en er engu að síður hnykkt á í skýrslunni á sveitarstjórnarfundum. Skýrsla sveitarstjóra er flutt munnlega og til kynningar og eru ekki eiginlegar umræður um hana á fundinum. Hún er fyrst og síðast hugsuð til upplýsinga fyrir kjörna fulltrúa.
Á fimmtudeginum var sveitarstjórnarfundur á dagskrá. Fundardagar sveitarstjórnar eru alla jafna undirlagðir undirbúningi fyrir fundinn. Ég sat þó mánaðarlegan samráðsfund sveitarstjóra á Norðurlandi vestra um morguninn. Átti nokkur góð símtöl við íbúa um ýmis mál, gekk frá lokaskjölum vegna yfirtöku íbúðafélagsins Brákar á íbúðum leigufélagsins Bústaðar á Lindarvegi og svo fengu fjallskilamálefni svolitla athygli. Eftir sveitarstjórnarfundinn brunaði ég á Blönduós á fund almannavarnanefnda og lögreglustjóra um málefni almannavarna. Sveitarstjórnarfundur dróst aðeins á langinn enda stór málefni til umræðu. En einnig vegna þess að Magnús Barðdal frá SSNV kom til fundar að sveitarstjórnarfundi loknum og fór yfir nokkur atvinnuuppbyggingarverkefni í sveitarfélaginu sem unnið er að. Dagurinn varð því langur eins og oft vill verða.
Eins og fram hefur komið var fjárhagsáætlun sveitarfélagsins til umræðu á sveitarstjórnarfundinum og var hún samþykkt með ítarlegri bókun þar sem farið er yfir helstu þætti. Ég sé ekki ástæðu til að fara sérstaklega yfir áætlunina hér þar sem í bókuninni kemur það helsta fram. Sjá hér. Ég vil þó ítreka það sem fram kemur þar fram að utanaðkomandi aðstæður hafa sett stórt strik í reikninginn í rekstri sveitarfélagsins líkt og margra annarra sveitarfélaga. Er þá helst vísað til fjármagsnkostnaðar sem hefur hækkað verulega. Þess vegna er stefnt að því að nýta ekki lánaheimild þessa árs heldur ganga á handbært fé sem að líkum sparar hátt í 70 milljónir í fjármagnskostnað á næstu árum. Áætluninni er skilað með 2,7 milljóna hagnaði samanborið við áætlaðan hallrekstur í ár upp á tæplega 83 milljónir. Því er um að ræða rúmlega 85 milljóna viðsnúning í rekstri sveitarfélagsins sem hefur verið krefjandi verkefni að ná fram. Í Covid voru svokallaðar fjármálareglur sveitarfélaga aftengdar en í þeim er sveitarfélögum m.a. gert að skila fjárhagsáætlun með jákvæðri niðurstöðu. Nú hafa reglurnar verið virkjaðar að nýju og okkur því gert að skila áætlun í plús. Þegar stoppa þarf í göt í fjárhagsáætlun eru tvær leiðir færar. Annars vegar að auka tekjur og hins vegar að lækka kostnað. Í rekstri sveitarfélaga þýðir lækkaður kostnaður hagræðing í rekstri til dæmis með skerðingu á þjónustu og fækkun starfa auk hefðbundins aðhalds. Samdráttur í framkvæmdum vegur einnig þungt í lækkun kostnaðar. Sveitarstjórn tók ákvörðun um að verja þjónustu og störf og því eru framkvæmdir á næsta ári skrúfaðar verulega niður. Strax árið 2025 eru þær auknar að nýju. Það er því um tímabundið ástand að ræða og horfir til betri vegar á árinu 2025 og árunum þar á eftir.
Sem fyrr bar sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs hitann og þungann af gerð fjárhagsáætlunar. Þakka ég henni fyrir sín vel unnu störf. Ég vil einnig þakka forstöðumönnum afar góða vinnu og skilning á því að ekki var unnt að mæta öllum óskum þeirra. Voru þeir boðnir og búnir að leita leiða til hagræðingar í sínu einingum og vóg það þungt í því krefjandi verkefni í að ná áætluninni saman. Við erum einstaklega lánsöm með sviðsstjóra og forstöðumenn stofnana okkar, þar er valinn maður í hverju rúmi. Ég vil líka þakka sveitarstjórn gott samstarf nú sem fyrr. Það er til eftirbreytni hve samstarf meiri- og minnihluta er gott við fjárhagsáætlunargerðina. Bæði meiri- og minnihluti hafa jafna aðkomu að vinnunni. Ekki eru menn alltaf sammála um áherslur en undantekningalaust ná þau að ræða sig niður á ásættanlega niðurstöðu.
Eftir strembinn fimmtudag var föstudagurinn rólegri. Hann hófst á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Því næst fundaði ég með stjórn Félags eldri borgara í Húnaþingi vestra um húsnæðismál undir starf félagsins. Fyrsti fundur þar um málið sem við fórum yfir sviðið og fundum vonandi sem fyrst aftur til að sjá hvaða lausnir eru mögulegar. Starf félagsins hefur farið fram í VSP húsinu. Eigandi þess, Halldór Hreinsson, hefur af miklum rausnarskap leyft félaginu að nýta húsið gegn greiðslu á hita og rafmagni. Það á klárlega sinn þátt í hversu öflugt starf félagsins er. Færum við honum bestu þakkir fyrir. Á föstudeginum sendi ég líka út tilkynningar um afgreiðslur sveitarstjórnarfundarins eins og jafnan. Þó hafa tilkynningar til styrkbeiðenda ekki verið sendar út en það verður gert innan tíðar.
Atburðirnir í Grindavík fengu nokkra athygli um helgina hjá mér eins og landsmönnum öllum. Ég vil byrja á því að færa Grindvíkingum hugheilar kveðjur. Það er erfitt að setja sig í þeirra spor, að þurfa að yfirgefa heimili sín í algerri óvissu um hvenær eða hreinlega hvort þau geta snúið heim aftur. Við fórum strax í að skoða með hvaða hætti við getum lagt lið. Ég átti fundi á laugardeginum með sviðsstjóra fjölskyldusviðs og skólastjórum til að skoða hversu mörgum börnum við gætum bætt við í leik- og grunnskóla ef til þess kæmi. Við getum tekið við nokkuð mörgum börnum í grunnskóla og nokkrum í leikskóla. Eins er rými hjá félagsþjónustunni með forgangsröðun verkefna til að taka við fleiri skjólstæðingum. Sendum við þessar upplýsingar til Sambands íslenskra sveitarfélaga sem tók að sér að halda þeim saman á landsvísu. Við hvöttum íbúa jafnframt til að bjóða fram húsnæði væru þeir í aðstöðu til þess með innleggi á facebook síðu sveitarfélagsins og vil ég ítreka þá hvatningu. Rauði Krossinn heldur utan um þá skráningu hér. Á sunnudeginum funduðu sveitar- og bæjarstjórar á landinu öllu um stöðuna. Það var magnað að finna samtakamáttinn á þeim fundi. Fannar bæjarstjóri í Grindavík var á fundinum og fór yfir hvernig mál horfa við þeim. Við svona aðstæður upplifir maður vanmátt en ég get með sanni sagt að um allt land eru sveitarfélög að leita leiða til að hlaupa undir bagga gerist þess þörf og erum við í Húnaþingi vestra þar engin undantekning. Hugur minn og okkar allra er hjá Grindvíkingum og ég á þá ósk heitasta að þau geti snúið heim sem allra fyrst.
Sólarlag í Hrútafirði.