Frá Tónlistarskóla Húnaþings vestra.

Daníel Geir Sigurðsson
Daníel Geir Sigurðsson

danielgeirutskrift.jpg

Daníel Geir Sigurðsson tónlistarkennari við Tónlistarskóla Húnaþings vestra útskrifaðist frá FÍH á rafbassa þann 8. mars sl. Við útskriftina lék með honum hljómsveit valinkunnra tónlistarmanna.

 

Daníel Geir hefur stundað tónlistarnám frá unga aldri. Fyrstu námsárin var hann í Tónlistarskóla V-Hún á meðan hann stundaði nám í Grunnskóla Húnaþings vestra. Við tónlistarskólann lærði hann á blokkflautu, píanó og trompet. Eftir það hóf hann  nám í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og lagði í nokkur ár stund á trompetnám samhliða námi í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Árið 2008 hóf hann trompetnám í Tónlistarskóla FÍH auk þess að vera í  kennaradeild við sama skóla. Eftir það hóf Daníel Geir nám á rafbassa í Tónlistarskóla FÍH. Á námstímanum fór hann m.a. í skiptinám í tónlistarháskóla í Arvika í Svíþjóð og lauk því námi haustið 2013.

 

Undanfarin ár hefur Daníel Geir kennt við Tónlistarskóla Húnaþings vestra við góðan orðstír. Í tilefni útskriftar hans nú vill starfsfólk Tónlistarskóla Húnaþings vestra óska honum innilega til hamingju með árangurinn og óska honum velfarnaðar í framtíðinni.

 

Fyrir hönd starfsfólks Tónlistarskóla Húnaþings vestra.

Elínborg Sigurgeirsdóttir, skólastjóri.

Var efnið á síðunni hjálplegt?