Endurnýjaður samningur um rekstur Skólabúðanna að Reykjum í Hrútafirði var nýlega undirritaður af Leó Erni Þorleifssyni, oddvita og Skúla Þórðarsyni, sveitarstjóra f.h. Húnaþings vestra og Halldóru Árnadóttur og Karli B. Örvarssyni f.h. Reykjatanga ehf. og er meðfylgjandi mynd tekin við það tilefni.
Reykjatangi ehf. hefur í umboði Húnaþings vestra annast rekstur Skólabúðanna að Reykjum í Hrútafirði frá árinu 2003. Frá þeim tíma hefur aðsókn grunnskólanemenda að skólabúunum aukist umtalsvert og njóta skólabúðirnar og starfsemin að Reykjum vinsælda og viðurkenningar stjórnenda, starfsfólks og nemenda grunnskóla. Aðsóknin að skólabúðunum hefur sem fyrr segir vaxið ár frá ári og í vetur er gert ráð fyrir að um 3.200 grunnskólanemendur af landinu öllu njóti náms og dvalar í Hrútafirðinum.
Sveitarstjórn Húnaþings vestra lýsir mikilli ánægju með samstarfið við eigendur Reykjatanga ehf. og væntir þess að starfsemi Skólabúðanna að Reykjum í Hrútafirði megi eflast og dafna á komandi árum.