1212. fundur

1212. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 29. apríl 2024 kl. 14:00 í fundarsal Ráðhússins.

Fundarmenn

Magnús Magnússon, formaður,
Elín Lilja Gunnarsdóttir, varaformaður,
Magnús Vignir Eðvaldsson, aðalmaður. 

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri,
Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs. 

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

1. 

Endurnýjun hitaveitulagna Höfðabraut 2024 - 2401093

 

Lagt fram minnisblað frá rekstarstjóra vegna endurnýjunar hitaveitulagna á Hvammstanga sumarið 2024. Tveir verktakar tóku þátt í verðfyrirspurn. Niðurstaðan var sú að Gunnlaugur Agnar Sigurðsson bauð lægst, kr. 27.618.794.- sem var nokkru yfir kostnaðaráætlun. Gengið var til samninga við Gunnlaug Agnar og liggur fyrir uppfærð verk- og kostnaðaráætlun þar sem hluti verks hefur verið færður á þjónustumiðstöð. Heildarkostnaður eftir uppfærslu er kr. 20.985.400 sem er engu að síður hærra en fjárhagsáætlun heimilar, eða sem nemur kr. 2.500.000. Framkvæmdin eykur afhendingaröryggi Hitaveitunnar á Hvammstanga og því metin mjög brýn. Byggðarráð samþykkir uppfærða verk- og kostnaðaráætlun og felur sveitarstjóra og sviðsstjóra að undirbúa gerð viðauka vegna verksins í samræmi við kostnaðarauka.

 

   

2. 

Beiðni innviðaráðuneytis um umsögn um ósk Landsnets um skipan raflínunefndar vegna Holtavörðurheiðarlína 1 og 3 - 2404118

 

Lögð fram beiðni innviðaráðuneytis um umsögn um beiðni Landsnets um skipan raflínunefndar vegna fyrirhugaðra framkvæmda við lagningu Holtavörðuheiðarlínu 1 og Holtavörðuheiðarlínu 3. Er beiðni Landsnets með vísan í 1. mgr. 9.gr.a. í skipulagslögum nr. 123/2010 en heimild til skipunar slíkra nefnda var fest í lög með lagabreytingu nr. 35/2023. Byggðarráð Húnaþings vestra lagðist gegn þeim breytingum. Taldi ráðið þá, og gerir enn, að þær vegi að skipulagsvaldi sveitarfélaga.
Byggðarráð Húnaþings vestra telur að á þessu stigi sé ekki þörf á skipan slíkrar nefndar. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um legu línanna og þar af leiðandi ekki farið fram samtal um framkvæmdina og enn síður kominn fram ágreiningur um hana. Auk þess liggur ekki fyrir reglugerð um störf raflínunefnda á grundvelli lagabreytinga nr. 35/2023 og skipan nefndarinnar því ekki tímabær.

Húnaþing vestra hefur á öllum stigum sýnt mikinn vilja til samstarfs enda um að ræða afar mikilvæga framkvæmd fyrir svæðið og landsmenn alla. Sveitarfélagið mun líkt og á fyrri stigum halda þeirri samvinnu áfram.
Í rökstuðningi með beiðni Landsnets eru helstu rök fyrir skipan raflínunefndar að af því skapist mikið hagræði. Vissulega er um flókið skipulagsmál að ræða en byggðarráð vill benda á að skipulagsmál eiga ekki, og mega ekki, í eðli sínu vera einföld. Tilgangur þeirra er að tryggja að vel sé að verki staðið við hvers kyns framkvæmdir og að sem flest sjónarmið séu tekin með í reikninginn.
Í rökstuðningi Landsnets kemur einnig fram að hlutaðeigandi sveitarfélögum hafi verið tilkynnt um beiðnina og að engin sérstök mótmæli hafi borist. Byggðarráð vill að fram komi að í því bréfi var á engan hátt gefið til kynna að umsagna væri óskað heldur var ítrekað tekið fram að bréfið væri sent til upplýsingar.

 

   

3. 

Umsagnarbeiðni um tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi, 899. mál, umsagnarfrestur til 3. maí 2024 - 2404117

 

Byggðarráð fagnar framkominni þingsályktunartillögu enda löngu tímabært að skýra regluverk í kringum vinnslu vindorku. Ráðið fagnar sérstaklega grein 1.5 þar sem fram kemur að tryggt verði að lagaumgjörð verði með þeim hætti að endanleg ákvörðun um það hvort uppbygging einstakra virkjunarkosta í vindorku verði settir inn á skipulag sé í höndum viðkomandi sveitarfélags, enda gengi annað gegn skipulagsrétti sveitarfélaga. Í grein 1.6 er fjallað um að stefnt skuli að því að sú verðmætasköpun sem hagnýting vindorku hefur í för með sér skili sér til samfélagsins og tryggi beina og sýnilega hlutdeild í afkomu starfseminnar. Byggðarráð telur ástæðu til að sterkar verði að orði kveðið og að í stað þess að „stefnt verði að“ verði tryggt að nærsamfélagið njóti ábata af rekstri vindmylla. Að öðru leyti telur ráðið ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þingsályktunartillöguna en áskilur sér rétt til umsagnar á seinni stigum málsins.

 

   

4. 

Umsagnarbeiðni um frumvarp til laga um verndar- og orkunýtingaráætlun (virkjunarkostir í vindorku), 900. mál, umsagnarfrestur til 3. maí 2024. - 2404116

 

Ekki þykir ástæða til umsagnar um málið.

 

   

 

Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 14:59.

Var efnið á síðunni hjálplegt?