1222. fundur

1222. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 9. september 2024 kl. 14:00 Ráðhúsi.

Fundarmenn

Magnús Magnússon, formaður,
Elín Lilja Gunnarsdóttir, varaformaður,
Magnús Vignir Eðvaldsson, aðalmaður. 

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri,
Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs. 

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg
 
1. Forgangsverkefni áfangastaðaáætlunar Norðurlands 2024 - 2406028
Auglýst var eftir tillögum að forgangsverkefnum með auglýsingu á heimasíðu sveitarfélagsins. Engar tillögur bárust. Byggðarráð samþykkir óbreytt forgangsverkefni frá fyrra ári. Þau eru Vatnsnes, Borðeyri, Reykir í Hrútafirði, Kolugljúfur og stígakerfi milli Laugarbakka, Hvammstanga og Kirkjuhvamms.
 
2. Starf sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs - 2408001
Starf sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs var auglýst laust til umsókar með umsóknarfresti til 15. júlí 2024. Tekin voru viðtöl við þrjá stigahæstu umsækjendurna og eftir seinna viðtal var þeim umsækjanda sem metinn var hæfastur boðið starfið. Viðkomandi þáði starfið ekki og dró sig til baka úr ferlinu. Aðrir umsækjendur sem boðaðir voru til viðtals þóttu ekki mæta hæfniskröfum á sambærilegan hátt og sá umsækjandi sem boðið var starfið. Byggðarráð samþykkir að hætta við ráðningu og auglýsa starfið aftur án breytinga.
 
3. Eftirlitsmyndavélar lögreglu á Norðurlandi vestra - 2408027
Lagt fram erindi frá Lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra um uppsetningu öryggismyndavéla í umdæminu. Er óskað eftir tilnefningu í starfshóp vegna verkefnisins. Byggðarráð tilnefnir Unni Valborgu Hilmarsdóttur, sveitarstjóra í starfshópinn.
 
4. Starf slökkviliðsstjóra - 2408030
Lagt fram minnisblað sveitarstjóra þar sem lögð er fram tillaga að auknu starfshlutfalli slökkviliðsstjóra, úr 50% í 75% sem taki gildi frá og með 1. október 2024. Byggðarráð samþykkir breytinguna enda rúmast hún innan fjárhagsáætlunar 2024. Núverandi slökkviliðsstjóri var ráðinn til eins árs í september 2023 og er ráðningartími hans því að renna út. Sveitarstjóra er falið að auglýsa starfið laust til umsóknar.
 
5. Kynningarmál árið 2024 - 2409001
Lagt fram minnisblað sveitarstjóra varðandi ráðstöfun fjármuna til kynningarmála sem gert var ráð fyrir á fjárhagsáætlun ársins 2024. Byggðarráð samþykkir framlagða tillögu sem felst í framleiðslu myndbanda til birtingar á samfélagsmiðlum sem vekja athygli á Húnaþingi vestra sem ákjósanlegum búsetukosti.
 
6. Stuðningur Húnvetningafélagsins í Reykjavík við Byggðasafnið á Reykjum - 2409002
Lagt fram erindi frá Húnvetningafélagi Reykjavíkur þar sem fram kemur að félagið hyggist beita sér fyrir úrbótum í bruna- og öryggismálum Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði. Í erindinu kemur fram að aðalfundur félagsins hafi heimilað stjórn þess að verja allt að 10 milljónum króna til verkefnisins. Félagið kom að stofnun safnsins og hefur síðan látið sig málefni þess varða. Byggðarráð þakkar félaginu sýndan hlýhug í garð safnsins og rausnarlega gjöf.
 
7. Viðverustefna Húnaþings vestra - 2409017
Lögð fram drög að viðverustefnu Húnaþings vestra. Byggðarráð samþykkir að drögin, með áorðnum breytingum, verði sett í samráð meðal starfsmanna sveitarfélagsins.
 
8. Fundargerð 111. fundar stjórnar SSNV, 20. ágúst 2024 - 2408028
Lögð fram til kynningar.
 
9. Fundargerð 112. fundar stjórnar SSNV, frá 3. september 2024 - 2409018
Lögð fram til kynningar.
 
Bætt á dagskrá:
10. Starfsmannamál - 2409022
Fært í trúnaðarbók.
 
 
 
Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:23.
Var efnið á síðunni hjálplegt?