1225. fundur

1225. fundur byggðarráðs Húnaþings vestra haldinn mánudaginn 23. september 2024 kl. 14:00 í Ráðhúsi.

Fundarmenn

Magnús Magnússon, formaður,
Elín Lilja Gunnarsdóttir, varaformaður,
Magnús Vignir Eðvaldsson, aðalmaður.

Starfsmenn

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri,
Elín Jóna Rósinberg, sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.

Fundargerð ritaði: Elín Jóna Rósinberg

Sigurður Þór Ágústsson kom til fundar kl. 14:03.

1. 

Þjónustusamningur um rekstur samþættrar heimaþjónustu fyrir aldraða - 2409049

 

Sigurður Þór Ágústsson sviðsstjóri fjölskyldusviðs kom til fundar við byggðarráð og kynnti vinnu sem staðið hefur yfir við samþættingu heimaþjónustu fyrir aldraða í tengslum við verkefnið Gott að eldast. Starfshópur verkefnisins hefur unnið að útfærslu samþættingar þjónustu sem veitt er á vegum Húnaþings vestra annars vegar og Heilbrigðisstofnunar Vesturlands hinsvegar (HVE) og liggja fyrir drög að þjónustusamningi um samþættinguna. Markmið samningsins er að veita heildræna og skilvirka samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu við fólk í heimahúsi og stuðla þannig að öruggri búsetu eldra fólks sem lengst heima, við sem eðlilegastar aðstæður. Með þjónustusamningnum mun HVE taka að sér rekstur heimastuðnings á grundvelli VII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 með síðari breytingum. Felur breytingin í sér að starfsmenn Húnaþings vestra sem veitt hafa heimaþjónustu verða starfsmenn HVE og halda sínum kjörum og réttindum að fullu. Húnaþing vestra greiðir HVE mánaðarlega þá upphæð sem ella færi í rekstur þjónustunnar. Því er ekki um að ræða aukna fjárhagsskuldbindingu af hálfu sveitarfélagsins heldur er markmið samningsins að bæta þjónustu við eldra fólk í sveitarfélaginu og nýta þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru betur með samþættingu og samstarfi.
Byggðarráð þakkar Sigurði greinargóða yfirferð.
Byggðarráð samþykkir framlagðan samning og felur sveitarstjóra undirritun hans.

Sigurður Þór Ágústsson vék af fundi kl. 14:26.

 

   

2. 

Uppbygging íbúðarhúsnæðis í samstarfið við Brák íbúðafélag hses. - 2408018

 

Áður á dagskrá 1221. fundar byggðarráðs sem haldinn var þann 26. ágúst sl. Lögð fram tilkynning frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um samþykki á umsókn Húnaþings vestra fyrir hönd Brákar íbúðarfélags hses. á stofnframlagi á grundvelli laga um almennar íbúðir nr. 52/2016. Samþykkt er að veita 18% stofnframlag og sérstakt byggðaframlag vegna byggingar 8 íbúða að Norðurbraut 15. Eins og fram kemur í bókun 1221. fundar er skuldbinding Húnaþings vestra í verkefninu alls kr. 48.106.449. Þar kemur einnig fram að Húnaþing vestra mun fjármagna sinn hlut með opinberum gjöldum og sölu eigna í samræmi við tillögur starfshóps um fasteignir, jarðir og lendur í eigu sveitarfélagsins sem samþykkt var á 371. fundi sveitarstjórnar sem haldinn var þann 14. september 2023.

Einnig lögð fram drög að auglýsingu eftir byggingarverktökum.

Byggðarráð fagnar niðurstöðu umsóknarinnar enda er þörf á uppbyggingu leiguhúsnæðis í sveitarfélaginu mikil. Sveitarstjóra er falið að vinna áfram að verkefninu í samstarfi við Brák íbúðafélag.

 

   

3. 

Göngustígur á Laugarbakka - 2409045

 

Lögð fram beiðni gönguhóps á Laugarbakka um lagfæringar á 180 m. löngum göngustíg frá þéttbýlinu á Laugarbakka að þjóðvegi. Byggðarráð þakkar erindið og felur sveitarstjóra að skoða málið með rekstrarstjóra.

 

   

4. 

Yfirtaka Leigufélagsins Bríetar á eignum í samræmi við viljayfirlýsingu um uppbyggingu leiguíbúða í Húnaþingi vestra - 2409050

 

Á 1209. fundi byggðarráðs sem haldinn var þann 25. mars sl. var samþykkt viljayfirlýsing milli sveitarfélagsins og Leigufélagsins Bríetar ehf. um uppbyggingu leiguíbúða, yfirtöku eigna og styrkingu leigumarkaðar í sveitarfélaginu á vegum Bríetar. Í samkomulaginu felst að Bríet muni kaupa tvær eignir í byggingu á Hvammstanga auk þess að auglýsa eftir byggingaraðilum til samstarfs vegna kaupa Bríetar á tveimur íbúðum til viðbótar á árinu 2025. Húnaþing vestra muni leggja 6 eignir í eigu sveitarfélagsins inn í Bríeti í gegnum svokölluð yfirtökuverkefni og mun Bríet annast útleigu á þeim eignum. Jafnframt muni Húnaþing vestra tryggja aðgengi að lóðum vegna þeirrar íbúðauppbyggingar sem fyrirhuguð er. Viljayfirlýsingin samræmist markmiðum Bríetar um að vera hluti af uppbyggingu og styrkingu leigumarkaðar sem stuðlar að öryggi á langtímaleigumarkaði með sérstaka áherslu á landsbyggðina og í samstarfi við sveitarfélögin í landinu. Langtímamarkmið Bríetar er að stuðla að nýsköpun og uppbyggingu þar sem þörf er á því á landsbyggðinni. Félagið er sjálfstætt starfandi leigufélag í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og sveitarfélaganna, stofnað að norrænni fyrirmynd og rekið án hagnaðarsjónarmiða.

Á 371. fundi sveitarstjórnar sem haldinn var þann 14. september 2023 voru tillögur starfshóps um fasteignir, jarðir og lendur í eigu sveitarfélagsins samþykktar. Þar kom fram að ástand íbúða að Gilsbakka 5, 7, 9, og 11 skyldi skoðað og þær metnar með tilliti til framtíðarnýtingar þeirra sem leiguíbúða. Mat það liggur fyrir og ljóst að komið er að verulegu viðhaldi á íbúðunum, einnig er skortur á leiguíbúðum í sveitarfélaginu og brýnt að þeim fækki ekki. Í ljósi þess og í samræmi við framangreinda viljayfirlýsingu hafa Húnaþing vestra og Leigufélagið Bríet komist að samkomulagi um yfirtöku Bríetar á íbúðunum gegn eignarhlut sveitarfélagsins í félaginu. Felur það í sér að Bríet eignast íbúðirnar, yfirtekur núgildandi leigusamninga, tekur að sér endurbætur á íbúðunum og allan rekstur þeirra.

Lagðir fram útreikningar á virði íbúðanna að frádreginni viðhaldsþörf. Eignarhlutur Húnaþings vestra í Leigufélaginu Bríeti eftir yfirtöku verður 1,25%.

Byggðarráð samþykkir yfirtöku Leigufélagsins Bríetar á íbúðunum að Gilsbakka 5, 7, 9 og 11. Byggðarráð veitir Unni Valborgu Hilmarsdóttur sveitarstjóra, kt. 160673-3119, fullt og ótakmarkað umboð til að ganga frá yfirtöku Leigufélagsins Bríetar á íbúðunum að Gilsbakka 5 (213-3727), Gilsbakka 7 (213-3729), Gilsbakka 9 (213-3732) og Gilsbakka 11 (213-3733). Umboðið nær til þess að undirrita kaupsamning, uppgjör, afsal, skuldabréf og öll önnur nauðsynleg skjöl vegna yfirtöku framangreindra eigna.

 

   

5. 

Tilkynning um fyrirhugaða niðurfellingu hluta Melstaðarvegar - 2409051

 

Lagt fram til kynningar afrit bréfs til landeiganda um fyrirhugaða afskráningu hluta Melstaðavegar nr. 7055-01 af vegaskrá. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er ekki föst búseta lengur á jörðinni og uppfyllir vegurinn því ekki lengur skilyrði þess að teljast til þjóðvega.

 

   

6. 

Boðun hafnasambandsþings 2024 - 2409041

 

Lagt fram boð á Hafnasambandsþing sem fram fer 24. og 25. október nk. Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri verður fulltrúi Húnaþings vestra á þinginu.

 

   

7. 

Fundargerð 951. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 30. ágúst 2024 - 2409042

 

Lögð fram til kynningar.

 

   

 

Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 15:21.

Var efnið á síðunni hjálplegt?