168. fundur

168. fundur landbúnaðarráðs Húnaþings vestra haldinn miðvikudaginn 5. júní 2019 kl. 14:00 Ráðhúsinu.

Fundarmenn

Ingimar Sigurðsson, formaður, Erla Ebba Gunnarsdóttir, aðalmaður, Guðrún Eik Skúladóttir, aðalmaður, Halldór Pálsson, aðalmaður og Sigtryggur Sigurvaldason, aðalmaður.

Starfsmenn

Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði: Guðný Hrund Karlsdóttir

Afgreiðslur:

 

  1. Ísólfur Þórisson formaður fjallskiladeildar kemur á fundinn og ræðir hugmyndir um nýtingu flygildis til aðstoðar við seinni smölun og stóðréttir í Víðidal sem menningarviðburð.  
  2. Grenjavinnsla.  Við undirritun samninga vegna grenjavinnslu urðu þau mistök að dagsetning samninga var út árið 2019 í stað 2018 eins og auglýsing kvað á um. Eftir samræður við viðkomandi aðila voru flestir ásáttir um að klára undirritaðan samning eins og hann var uppsettur, nema á Miðfjarðarsvæði og Hrútafirði austur.  Grenjavinnsla verður auglýst til umsóknar á haustmánuðum fyrir tímabilið 2020-2023 og í millitíðinni er formanni og sveitarstjóra falið að finna viðunandi lausn vegna grenjavinnslu á fyrrnefndum svæðum í sumar. Landbúnaðarráð gerir sér grein fyrir því að nokkur fyrirhöfn og kostnaður er á bak við þá vinnu sem innt er af hendi við grenjavinnslu og veiðar og er þakklátt þeim sem gefa sig í slík verkefni, en ráðið vill einnig benda á að meginmarkmið slíkra samninga er fyrst og fremst að halda dýrbít í skefjum.
  3. Innflutningur matvæla. Landbúnaðarráð Húnaþings vestra tekur undir áhyggjur Læknafélags Íslands sem varar við afnámi frystiskyldu á innfluttum matvælum. Bent er á, eina ferðina enn, hversu alvarlegt vandamál sýklalyfjaónæmi er og mun verða erfitt að eiga við, verði þetta að veruleika. Landbúnaðarráð Húnaþings vestra skorar á stjórnvöld að standa í lappirnar oglágmarka áhættu neytenda með því að hafna innflutningi á niðurgreiddum bakteríumerlendis frá eða að lágmarki að gerðar verði sömu kröfur til erlendra og innlendra framleiðenda um aðbúnað, lyfjanotkun og dýravelferð.   
  4. Innkaupastefna ríkisins á matvælum.  Landbúnaðarráð Húnaþings vestra fagnar nýsamþykktri innkaupastefnu ríkisins á matvælum og tekur undir með Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að þær áherslur sem lagðar eru til grundvallar stefnunni gefi íslenskum matvælaframleiðendum ákveðið forskot á aðra. Kristján segir að meginmarkmið stefnunnar sé að efla sjálfbærni, vistvæn skilyrði, lýðheilsu og umhverfisvitund.  Landbúnaðarráð fagnar þeim skilyrðum sem fram koma í útboðsgögnum um kaup á hráefni í mötuneyti Eyjafjarðarsveitar þar sem tekið var fram að allt kjöt, allur fiskur og allar mjólkur vörur skulu vera af íslenskum uppruna að því gefnu að varan sé framleidd og fáanleg á Íslandi.  Einnig kemur þar fram að sem hæst hlutfall af grænmeti skuli vera af íslenskum uppruna eftir því sem framboð og hráefni leyfir.  Þannig tekst best að uppfylla markmiðið um vistvæn skilyrði og kröfur í tengslum við framleiðsluhætti og flutninga sem og að draga úr loftslagsáhrifum. 
  5. Kolefnislosun á Norðvesturlandi  Landbúnaðarráð Húnaþings vestra lýsir yfir undrun sinni á þeirri niðurstöðu sem Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur hefur komist að varðandi kolefnislosun á Norðurlandi vestra. Þar vill hann meina að landnotkun bænda sé stærsti sökudólgurinn með um 90% af allri losun á svæðinu.  Má í þessu samhengi benda á fréttaskýringu sem birtist í Bændablaðinu þann 16. maí síðastliðinn, þar sem leitt er að því líkum að grasfóðruð jórturdýr séu hlutlaus í myndun gróðurhúsalofttegunda. Að vísu er um frumniðurstöður að ræða sem á síðan eftir að greina betur og reikna  og óskar ráðið því eftir að fá að fylgjast náið með úrvinnslu gagna og hvaða forsendur, skilyrði og breytur eru notuð við slíka útreikninga.
  6. Verklag RARIK við tímasetningu á viðhaldi.  Landbúnaðarráð Húnaþings vestra lýsir yfir megnri óánægju með það verklag RARIK og Landsnets að taka rafmagn af í rúmar 6klst aðfaranótt 10. maí síðastliðin vegna viðhalds, ekki vegna bilunar, í spennuvirki í Hrútatungu. Rafmagnslaust var að mestu leyti í öllu Húnaþingi vestra og kom það sér illa fyrir alla þá sauðfjárbændur sem í einn mánuð á ári þurfa að sinna sauðburði allan sólarhringinn. Sem dæmi má nefna að þessi viðhaldsvinna hefði haft mun minni áhrif í lok maí, þegar sauðburður er kominn á síðari stig og nóttin sömuleiðis orðin bjartari. Á ráðið bágt með að sjá fyrir sér á hvaða forsendum svona ákvarðanir eru teknar hjá forstöðumönnum RARIK, sem síðan bitna svona illa á viðskiptavinum þeirra. Hvetur ráðið þessi fyrirtæki til að sinna álíka viðhaldi, einhverja hina ellefu mánuði ársins í framtíðinni.

 

Fundargerð upplesin og samþykkt.                           Fundi slitið kl. 15:59

Var efnið á síðunni hjálplegt?