182. fundur

182. fundur landbúnaðarráðs Húnaþings vestra haldinn miðvikudaginn 3. febrúar 2021 kl. 13:00 Ráðhúsi.

Fundarmenn

Ingimar Sigurðsson, formaður, Halldór Pálsson, aðalmaður,  Sigtryggur Sigurvaldason, aðalmaður,  Guðrún Eik Skúladóttir, aðalmaður og Ebba Gunnarsdóttir, aðalmaður.

Starfsmenn

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri

Fundargerð ritaði: Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir

Dagskrá:
1. Förgun dýrahræja, kynning frá fulltrúum Dalabyggðar
2. Fjallskil jarðarinnar Efri Fitja.
Formaður setti fund og óskaði eftir að bæta á dagskrá undir 3. lið dýralæknaþjónusta í Húnaþingi vestra, Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir hjá MAST kemur á fundinn.

Afgreiðslur.
1. Förgun dýrahræja, kynning frá fulltrúum Dalabyggðar. Kristján Sturluson og Viðar Ólafsson komu til fundar og fóru yfir fyrirkomulag á söfnun og förgun dýrahræja í Dalabyggð. Landbúnaðarráð þakkar Kristjáni og Viðari greinargóða kynningu.
2. Fjallskil jarðarinnar Efri Fitja. Fyrir fundinum lá lögfræðiálit frá Lögmannsstofu Norðurlands sem landbúnaðarráð óskaði eftir vegna beiðni eigenda jarðarinnar Efri-Fitja um flutning frá fjallskiladeild Víðdælinga yfir í fjallskiladeild Miðfirðinga. Í lögfræðiálitinu kemur ekkert fram sem breytir fyrri afstöðu landbúnaðarráðs sem er að skynsamlegast sé að jarðirnar Efri- og Neðri-Fitjar séu í sömu fjallskiladeild. Landbúnaðarráð leggur því til við sveitarstjórn að samið verði við eigendur jarðanna um að framkvæmd úrlausnar feli í sér að báðar jarðir flytjist í fjallskiladeild Miðfirðinga. Í framhaldinu verði Stóra-Hvarf leigt eða jafnvel selt. Ef jörðin yrði leigð þá leggur landbúnaðarráð til að leigutekjur sem kæmu inn fyrir Stóra-Hvarf renni til fjallskiladeildar Víðdælinga að hluta eða öllu leiti til að koma til móts við það tekjutap sem deildin verður fyrir með flutningi jarðanna yfir í aðra fjallskiladeild. Eðlilegt væri að eigendur jarðanna Efri- og Neðri-Fitja hefðu forgang að leigu/kaupum Stóra-Hvarfs ef jörðin yrði leigð/seld. Sé það vilji eigenda að halda upprekstri hrossa áfram á Víðidalstunguheiði telur landbúnaðarráð að um slíkt sé auðvelt að semja á sanngjarnan hátt.
Verði flutningur jarðanna yfir í fjallskiladeild Miðfirðinga niðurstaðan er ljóst að skarð verður hoggið í fjallskiladeild Víðdælinga, sérstaklega hvað varðar mönnun leita, enda telur afrétturinn um ¼ af flatarmáli Húnaþings vestra alls og því augljóst að það er mikið verk að smala afréttinn.
Það er nokkuð ljóst að einhver breyting þarf að verða varðandi fjallskil Víðdælinga og mönnun gangna burtséð frá þessu máli. Þar blasir við að sá mikli fjárfjöldi sem kemur úr Austur-Húnavatnssýslu og þá helst frá Grímstunguheiði, Haukagilsheiði og Auðkúluheiði skapar mikla vinnu hjá fjallskiladeild Víðdælinga og kostnað fyrir deildina. Drjúgur hluti fjár sem kemur í réttir í Víðidal er úr Húnavatnshreppi. Landbúnaðarráð hvetur sveitarstjórn til að eiga samtal við sveitarstjórn Húnavatnshrepps og fá viðkomandi fulltrúa til viðræðna um að taka þátt í mönnun og kostnaði vegna leita á Víðidalstunguheiði.
3. Dýralæknaþjónusta í Húnaþingi vestra. Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir MAST kom á fundinn og fór yfir framkvæmd dýralæknaþjónustu í Húnaþingi vestra. Landbúnaðarráð þakkar Sigurborgu fyrir greinargóða yfirferð á dýralæknaþjónustu í Húnavatnssýslum.


Fundargerð upplesin, fundi slitið kl. 15:23

Var efnið á síðunni hjálplegt?