Formaður setti fund. Formaður óskaði eftir því að fá að taka á dagskrá sem 5. dagskrárlið umræðu um nýuppkomið riðusmit í Miðfjarðarhólfi og sem 6. dagskrárlið förgun dýrahræja. Samþykkt með 5 atkvæðum. Gengið var til dagskrár.
Afgreiðslur:
- Svæðaskipting grenjavinnslu í Víðidal og Miðfirði sumarið 2023. Formaður greinir frá að samkomulag hefur náðst um svæðaskiptingu grenjavinnslu í Víðidal og Miðfirði. Skiptingin verður með þeim hætti að merkin á milli svæða verða Fitjá niður að Fitjárdalsbrúnni og þaðan ráði Fitjárdalsvegur að þjóðvegi og svo þjóðvegur vestur að Reyðarlæk. Til Miðfjarðar heyri þá vestan megin, til Víðidals austan megin.
- Minkaveiði í Víðidal. Minkaveiði í Víðidal var auglýst með umsóknarfrest til 29. mars 2023. Engar umsóknir bárust. Formanni er falið að vinna í málinu.
- Fjallskil í Víðidal. Formaður greinir frá fundi um fjallskil sem fram fór með fulltrúum Húnabyggðar þann 20. mars síðastliðinn. Annar fundur er áætlaður 12. apríl næstkomandi.
- Kæra vegna fjallskila í Vesturhópi. Lögð fram til kynningar kæra Hannýjar Norland Heiler og Ástmundar Agnars Norland vegna álagðra fjallskila á jörðina Flatnefsstaði. Svar við kærunni er í vinnslu í samvinnu við lögmann sveitarfélagsins og verður lagt fyrir sveitarstjórn á fundi hennar þann 13. apríl næstkomandi.
- Riða í Miðfjarðarhólfi. Í ljósi riðusmits sem upp kom í Miðfjarðarhólfi nýverið vill landbúnaðarráð leggja áherslu á að ráðist verði í breytingu á reglugerð um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar, nr. 651/2001, svo ekki þurfi að slátra fé með verndandi arfgerð gegn riðu komi upp smit. Samhliða þarf að stórauka arfgerðargreiningar á fé til að útrýma eins fljótt og auðið er áhættuarfgerð vegna riðu. Brýnt er að Miðfjarðarhólf ásamt öðrum sýktum svæðum í Húnaþingi vestra verði hér eftir í fyrsta forgangi varðandi kaup á gripum með verndandi arfgerð ásamt því að vera í forgangi við útdeilingu sæðis úr gripum með verndandi arfgerð. Einnig vill ráðið árétta enn og aftur mikilvægi þess að sauðfjárveikivarnarlínum sé viðhaldið með fullnægjandi hætti en á því hefur verið mikill misbrestur vegna skorts á fjármagni. Slíkt viðhald krefst stóraukins fjármagns frá hinu opinbera. Ráðið felur formanni og sveitarstjóra að óska eftir því við MAST að haldinn verði almennur upplýsingafundur fyrir bændur á svæðinu þar sem fjallað verði um stöðuna og þær breytingar sem fylgja í kjölfar smitsins.
- Förgun dýrahræja. Sveitarstjóra falið að kanna til hins ítrasta leiðir til förgunar dýrahræja með viðunandi hætti í sveitarfélaginu. Jafnframt beinir ráðið því til ríkisvaldins að í hæsta máta óeðlilegt sé að íþyngjandi kröfur séu lagðar á bændur án þess að leiðir eða fjármagn til úrlausnar fylgi líkt og í tilfelli förgunar dýrahræja. Hið opinbera verður að koma til móts við bændur til lausnar á þessum vanda.
Fundargerð upplesin og samþykkt, fundi slitið kl. 14:31.